Nám á sérnámsbraut er fjögur ár. Þar sem námið er einstaklingsmiðað geta áherslur og þátttaka í áföngum verið mismunandi á tímabilinu. Námið á brautinni er blandað, það er að segja bæði bóklegt og verklegt. Leitast er við að hafa viðfangsefni hverrar annar fjölbreytt og þverfagleg.
Allir nemendur taka ákveðin kjarnafög meðan á námi stendur s.s. íslensku, lífsleikni og íþróttir að viðbættu starfsnámi á 3. og 4. ári. Nemendur geta jafnframt valið sér áfanga eftir áhugasviði.
Lögð er áhersla á leiðsagnar- og símat sem gefur nemendum uppbyggilega og hvetjandi leiðsögn og metur vinnuframlag þeirra jafnt og þétt yfir námstímann. Námsmat er fjölbreytt og aðferðir taka mið af fjölbreyttum kennsluháttum, námsmarkmiðum og hæfni nemenda.
Allir nemendur brautarinnar fara í fjölbreytta starfsnámsáfanga. Starfsnám fer fram innan eða utan skólans allt eftir þörfum hvers og eins. Markmiðið er að nemendur kynnist vinnumarkaðnum og ýmis konar vinnustöðum, starfsgreinum, réttindum, skyldum og öryggisþáttum ásamt mikilvægi góðra samskipta á vinnustað.
Efnisgjöld eru innheimt fyrir ákveðna áfanga og má sjá lista yfir það hér.