Fara í efni

Lög og reglugerðir

Lög Kennarafélags VMA

1. gr
Heiti félagsins er Kennarafélag VMA. Félagið er félagsdeild í Kennarasambandi Íslands. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri.

2. gr
Félagar eru þeir starfsmenn VMA sem eru í aðildarfélögum Kennarasambands Íslands.

3. gr
Félagið skal vinna að hagsmunamálum, kjaramálum og fræðslustarfsemi fyrir félagsmenn.
Félagið skal standa fyrir faglegri umræðu meðal kennara skólans.
Félagið skal kjósa fulltrúa á þing KÍ skv. lögum FF, trúnaðarmenn og fulltrúa í samstarfsnefnd skólans.
Félagið skal kjósa fulltrúa á aðalfund Félags framhaldsskólakennara, FF, skv. 4. gr laga Félags framhaldsskólakennara.

4. gr
Aðalfund félagsins skal halda árlega í september og skal til hans boðað með minnst viku fyrirvara. Stjórn félagsins getur boðað til almenns félagsfundar. Skylt er að boða tafarlaust til almenns fundar ef 10% félagsmanna eða fleiri krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni.

5. gr
Dagskrá aðalfundar skal vera þessi:
1. Skýrsla um starfsemi á síðasta kjörtímabili.
2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
3. Lagabreytingar.
4. Kosning stjórnar og varastjórnar.
5. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
6. Starfsáætlun fyrir skólaárið.
7. Önnur mál.

6. gr
Kjósa skal 3 menn í aðalstjórn og 2 varamenn. Auk þess skulu trúnaðarmenn kennara vera í stjórn félagsins en gegna þó ekki formennsku. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

7. gr
Lagabreytingar er aðeins hægt að gera á aðalfundi og skulu breytingartillögur berast skriflega til stjórnar með minnst viku fyrirvara. Kynna þarf breytingar í fundarboði. Til þess að breytingartillögur öðlist gildi verða 2/3 fundarmanna að samþykkja lagabreytingartillögu og auk þess verða lög félagsins að samræmast lögum FF.

8. gr
Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum þess milli aðalfunda. Formaður ber ábyrgð á allri starfsemi félagsins og hefur yfirumsjón með rekstri þess.

9. gr
Halda skal fundargerðabók og skal hún vera aðgengileg fyrir félagsmenn hjá ritara.

10. gr
Formaður og gjaldkeri bera ábyrgð á að standa skil á fjárframlögum frá Félagi framhaldsskólakennara til þeirra sem sinna trúnaðarstörfum fyrir kennara. Gjaldkeri hefur umsjón með fjárreiðum félagsdeildar og bókfærslu og leggur fram endurskoðaða reikninga á aðalfundi. Auk þess skal hann gefa stjórn og félagsfundi yfirlit yfir stöðu félagsins minnst einu sinni á ári. Tekjur félagsdeildar eru fjárframlag Félags framhaldsskólakennara.

11. gr
lög þessi skulu send stjórn FF til staðfestingar og öðlast gildi við þá staðfestingu.

12. gr
Verði félaginu slitið renna eignir þess til Kennarasambands Íslands eða arftaka þess.

Lög félagsdeildar voru fyrst samþykkt á stofnfundi félagsins 16. febrúar 2000.
Lög félagsdeildar voru síðast endurskoðuð á aðalfundi félagsins í september 2012.

Lög nr. 92/2008 um framhaldsskóla. 

Upplýsingar og leiðbeiningar um vinnumat framhaldsskólakennara. 

Uppfært 10. ágúst 2023.
Getum við bætt efni síðunnar?