Fara efni  

Innra og ytra mat sklastarfi

Mat á skólastarfi er liður í lögbundnu eftirlitsstarfi skóla og skólayfirvalda sem hefur þann tilgang að tryggja réttindi nemenda og stuðla að skólaumbótum. Markmið mats og eftirlits er einkum þríþætt. Í fyrsta lagi að fylgjast með að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskráa. Í öðru lagi að auka gæði skólastarfsins og stuðla að umbótum, tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum. Í þriðja lagi að veita upplýsingar um skólastarfið. Mikilvægt er að innra og ytra mat á skólanum nái til allra lögbundinna markmiða skólastarfsins, þ.m.t. hlutverks skólans til að styrkja nemendur til þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi, efla frumkvæði og sjálfstæða hugsun nemenda, samskiptahæfni og fleiri atriði sem m.a. tengjast grunnþáttum menntunar. 

Opið hús á listnámsbraut maí 2014


Innra mat skólans er fléttað saman við daglegt starf og nær til allra þátta skólastarfsins, s.s. stjórnunar, kennslu, námskrafna, námsmats og samskipta innan og utan kennslustofunnar. Verkmenntaskólinn á Akueyri vinnur eftir gæðakerfi og er allt nám í dagskóla vottað með ÍSO- 9001 gæðastaðlinum. Gerðar eru ýmsar úttektir á starfsemi skólans eins og lýst er í gæðahandbók skólans. Áætlun um innra mat er sett fram til tveggja ára í senn. 

Áfanga- og kennslumat: þar meta nemendur kennslu, aðstöðu og námsefnið í þeim áföngum sem þeir eru skráðir í, hver áfangi fer í mat á þriggja anna fresti. Farið er yfir niðurstöður einstaka kennara í starfsmannaviðtölum en heildaniðurstöður eru birtar á heimasíðu.  

Framvindumat: þar meta kennarar hvernig kennslan gengur í hverjum áfanga og hvort þeir séu að fylgja þeirri kennsluáætlun sem lagt var upp með.

Áfangaskýrsla: í lok annar er skoðaður árangur nemenda, hvernig áfanginn gekk og hvað má gera betur. Jafnframt kemur þarna fram hvort einhverju var ábótavant í kennslunni. Þetta mat fer fram á hverri önn.

Þjónustukönnun: þar er lagt upp með að meta ýmsa þjónustu sem skólinn veitir nemendum. Þar hefur t.d. verið skoðað hvernig nemendum líður í skólanum, hvernig þeir líta á þjónustu á bókasafni, skrifstofu, mötuneyti, námsráðgjafa o.s.frv. Þjónustukönnun er gerð á tveggja ára fresti. 

Vinnustaðar- og stjórnendamat: þar eru starfsmenn skólans spurðir um VMA sem vinnustað, spurt um líðan, ýmislegt er snýr að skólastarfinu og viðhorf gagnvart stjórnun skólans. Þessar kannanir eru gerðar á tveggja ára fresti. 

Innri úttektir: þar eru allar verklagsreglur gæðakerfisins teknar út og skoðaðar. Í þessum úttektum er skoðað hvort kennarar, stjórnendur, nemendur og aðrir starfsmenn skólans séu að vinna eftir gæðakerfi hans. Innri úttektir fara fram á hverju skólaári. 

Ytri úttekt: þar kemur úttektarmaður frá Vottun ehf til að taka út starfsemi skólans. Úttektarmaður skoðar hvort unnið sé eftir kröfum í gæðakerfi skólans og hvort starfsemin uppfylli þær kröfur sem þarf til að viðhalda vottun á náminu út frá ISO-9001 gæðastöðlum. Þessar úttektir eru gerðar á hverri önn. 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti ber ábyrgð á ytra mati á starfsemi framhaldsskóla. Ráðuneytið fær óháða sérfræðinga til að sjá um framkvæmd úttekta og byggjast þær á fjölbreyttum upplýsingum og gögnum, svo sem niðurstöðum innra mats og öðrum skriflegum gögnum frá skólum, heimsóknum í skóla og viðtölum við nemendur og athugun á kennslu.  VMA fór síðast í ytra mat á vegum ráðuneytisins haustið 2011 og er skýrslan aðgengileg á vef skólans og ráðnuneytis.

Það er mikilvægt að hafa það í huga að þó skipulega sé unnið að innra og ytra mati þá dugar það eitt og sér ekki til þess að laga það sem betur má fara. Matið er til að taka púlsinn og sýna stöðuna en það er síðan stjórnenda skólans og stofnunarinnar í heild að bregðast við niðurstöðum og ráðast í úrbætur þar sem þess er þörf. Matið er þannig hluti af stöðugri hringrás þar sem skiptast á stöðumat og viðbrögð við því sem út úr því kemur. Einungis með vinnubrögðum af þessu tagi má ætla að skólinn nái þangað sem hann ætlar sér, verði að þeim skóla sem menn eru sammála um að stefnt skuli að. Meta má styrkleika og veikleika skólans á grundvelli þeirra niðurstaðna sem koma í ljós í innra og ytra mati. Hægt er að vinna úr þeim þáttum sem þarfnast úrbóta og styrkja þannig það sem betur má fara en jafnframt styrkja það sem vel hefur tekist.

Síðast uppfært 29. september 2014 (SHJ).
 

VERKMENNTASKLINN AKUREYRI

Hringteigi 2
600 Akureyri
Smi 464 0300

Kt. 531083-0759

vma[ hj ]vma.is

Skrifstofa VMA
er opin alla virka daga fr kl. 08:00 - 15:00