Fara í efni

Stuðningur við nemendur með sértæka námsörðugleika

Verkmenntaskólinn á Akureyri leggur sig fram um að aðstoða alla nemendur við að ná árangri í námi sínu. Mikilvægt er að nemandi sem greindur er með sértæka námsörðugleika eða aðrar hamlanir í námi sé meðvitaður um hvaða þjónusta og úrræði er í boði og gagnast honum best. Mikilvægt er að koma greiningargögnum eða staðfestingu á greiningu til sviðsstjóra starfsbrauta og brautabrúar svo hægt sé að veita þá þjónustu sem þarf. Greiningargögn færast ekki sjálfkrafa á milli grunn- og framhaldsskóla.

Skil á greiningargögnum eru alltaf á ábyrgð nemandands sjálfs eða forsjáraðila, berist gögn ekki til skólans er ekki hægt að veita sértækan stuðning í námi.

  • Nemendur eru hvattir til að bóka einstaklingsviðtöl við náms- og starfsráðgjafa eða sviðsstjóra starfsbrauta og brautabrúar.
  • Nemendur verða sjálfir að upplýsa kennara sína ef þeir glíma við námsörðugleika, kennarar geta séð staðfestingu á námsörðugleikum í Innu. Námsráðgjafi getur aðstoðað við slíkt ef þess er óskað.
  • Nemendum með grun um námsörðugleika er bent á að fara í greiningu hjá þeim sem bjóða uppá slíkt. Þegar nemandi hefur fengið staðfestingu á námsörðugleikum er hann hvattur til að bóka viðtal til að ræða möguleg úrræði.
  • Nemendur með lestrarörðugleika eru hvattir til að nýta sér þjónustu Hljóðbókasafns Íslands með námsefni á hljóðrænu formi sem og aðrar stafrænar lausnir, sjá hér

Símatsáfangar

Nemendur eru hvattir til að ræða sín mál við sína kennara og finna lausn í samráði við þá. Mögulegt er að taka próf á bókasafni skólans, nýta sér talgerfil, fá verkefni á lituðum pappír eða nýta rafrænar lausnir. Náms- og starfsráðgjafar geta verið til leiðbeiningar um þessi mál.

Lokaprófsáfangar

Hægt er að sækja um ákveðin sérúrræði við próftöku í skriflegum lokaprófum. Sækja þarf um þessa þjónustu í Innu fyrir hvert próftímabil. Nemendur þurfa að vera vakandi fyrir því þegar opnað er fyrir þá skráningu. Allir nemendur í VMA eru með lengdan próftíma, óþarfi er að sækja sérstaklega um það úrræði.

Hægt er að sækja um eftirfarandi í Innu: 

  • Prófin lesin inn á Mp3 spilara og þá hægt að hlusta á efni prófsins við próftökuna.
  • Próf á lituðum pappír 
  • Próftöku í fámennri stofu, við sérstakar aðstæður 
  • Munnlegt próf/viðbót

Samþykki á sérúrræðum byggir á þeim gögnum/greiningum sem nemendur hafa skilað inn til sviðsstjóra.

 

Uppfært 27. nóvember 2023 (HJÚ/HJD/SHM)

 

Getum við bætt efni síðunnar?