Fara í efni

Jafnréttisáætlun

Jafnréttisstefna 2023-2024

Markmið með jafnréttisstefnu Verkmenntaskólans á Akureyri er að stuðla að jafnrétti á öllum sviðum og leggja áherslu á mikilvægi þess að allt starfsfólk fái notið hæfileika sinna til fulls. Halda skal sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla í öllu starfi innan skólans eftir því sem frekast er kostur og gæta sérstaklega að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Í stefnumótun og ákvarðanatöku á öllum sviðum skólans skal unnið með kynjasamþættingu í huga. Hvers kyns mismunun sem byggð er á aldri, búsetu, fötlun, kyni, kynhneigð, kynvitund, lífsskoðunum, menningu, stétt, trúarbrögðum eða þjóðerni er óheimil, í hvaða formi sem hún kann að birtast og skal vinna markvisst gegn slíku. Kynferðisleg áreitni og kynbundin áreitni er ekki liðin. Jafnréttisstefnu Verkmenntaskólans á Akureyri er fylgt með jafnréttisáætlun. Hægt er að sjá hvernig nemendahópur VMA skiptist hér.

1. Staða og kjör starfsfólks

Innan skólans starfar fólk, með mismunandi menntun og reynslu, að margvíslegum störfum. Starfsmenn VMA eru í mismunandi stéttarfélögum og samningsbundin kjör þeirra og starfsaðstæður eru því ólíkar. Við ákvörðun launa skal þess gætt að starfsfólki sé ekki mismunað. Öllum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Stjórnendur VMA skulu tryggja að ekki sé mismunað við úthlutun verkefna og við ákvarðanir á starfsaðstæðum.

2. Mannauður og endurmenntun

Mikilvægt er að allir hafi sömu tækifæri í starfi innan skólans. Áhersla er lögð á að jafna hlutfall kynja í sambærilegum stöðum, einkum í stjórnunar- og áhrifastöðum eins og jafnréttislög gera ráð fyrir. Við ráðningar skulu jafnréttissjónarmið höfð að leiðarljósi og leitast við að hafa kynjahlutfall starfsfólks sem jafnast sé þess kostur þegar um jafn hæfa einstaklinga er að ræða. Gæta skal þess að allir starfsmenn hafi jafna möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar. Einnig stendur skólinn fyrir fræðslu fyrir starfsfólk um jafnréttismál sem stuðla að samvinnu í fjölbreyttum starfsmannahópi.

3. Samræming vinnu og fjölskyldulífs

Skólinn leitast við að vera fjölskylduvænn vinnustaður, enda mikilvægt að allir njóti sín í starfi við skólann og telur VMA að samræming vinnu og fjölskyldulífs sé mikilvægur liður í jafnrétti. Til að stuðla að þessari samræminu hefur skólinn meðal annars leitast við að hafa haust- og vetrarfrí í samræmi við grunnskólana sem og bjóða starfsfólki upp á heimavinnu í samráði við stjórnendur sé þess kostur.

4. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og einelti

Vellíðan á vinnustað er mikilvægur þáttur í gæðamarkmiðum skólans og er kynbundið ofbeldi, kynferðisleg eða kynbundin áreitni ekki liðin í VMA. Í skólanum er lögð áhersla á að innan hans ríki gagnkvæm virðing meðal starfsmanna skólans og nemenda. Í áætlun skólans gegn einelti eru leiðbeiningar um vinnulag í málum er varða kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni. Í starfsmannakönnun sem gerð er annað hvert ár skal spyrja hvort starfsmenn hafi orðið fyrir einelti, kynbundnu eða kynferðislegri áreitni eða kynbundnu ofbeldi.

5. Staða í nemendasamfélaginu

Í lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 kemur fram að þeim sé ekki einungis ætlað að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám heldur skuli þeir einnig leitast við að efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, sjálfstraust og umburðarlyndi. Auk þess að þjálfa þá í jafnrétti og gagnrýnni hugsun. Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðissamfélagi með því að bjóða hverjum nemenda nám við hæfi og samkvæmt kröfum aðalnámsskrár. Í VMA skal stuðlað að því að hver einstaklingur nýti hæfileika sína og krafta sem best, óháð andlegu og líkamlegu atgervi, kynferði, kynhneigð, litarhætti, þjóðerni, trú, búsetu eða efnahag. 

6. Nemendur á opinberum vettvangi

Gæta skal þess að fjölbreyttur hópur nemenda komi fram fyrir hönd skólans og viðburðir og félagslíf nemenda skal skipulagt með virðingu og jafnrétti í huga. Hússnæði skólans skal ennfremur vera aðgengilegt öllum hópum og kennslurými henti fjölbreyttum hópi nemenda.

7. Nám og kennsla

Námsframboð skal höfða til allra kynja og stefnir skólinn að því að jafna kynjahlutföll í námi skólans með markvissum aðgerðum. Þetta verði m.a. gert með því að kynningar á námsleiðum, námsefni og kennslutilhögun séu þannig að þær höfði til allra kynja. Þá skulu kennarar vera meðvitaðir um misjafnt viðhorf kynja til stétta sem oft eru flokkaðar sem karla- eða kvennastéttir og leitast við að leiðrétta ranghugmyndir sem nemendur kunna hafa um einstaka starfsstéttir. Jafnframt skal unnið að því að andrúmsloft, viðhorf til náms og fyrirkomulag kennslu á einstökum brautum fæli enga frá því að velja þá námsleið sem einstaklingum hugnast.

Við inntöku á brautir eða svið þar sem fjöldi nemenda er takmarkaður skal leitast við að leiðrétta kynjamun reynist umsækjendur jafnhæfir og með sambærilegan bakgrunn. Kennarar skulu tryggja að ólíkum þörfum nemenda sé mætt með notkun á fjölbreyttum kennsluaðferðum og gæta skal þess að nemendum sé ekki ætlaður ákveðinn námsstíll vegna kyns. Þá skulu kennarar vera meðvitaðir um það hvernig þeir tala við nemendur, t.d. hvort kynjunum sé hrósað á sambærilegan hátt og hvort gerðar séu sömu kröfur til kynjanna um hegðun og samskipti á meðan á kennslu stendur. Í þjónustukönnun, sem framkvæmd er á tveggja ára fresti, skal kanna hvernig nemendum þykir kennarar og starfsfólk standa sig á þessum sviðum og leita leiða til úrbóta reynist þess þörf.

8. Eftirfylgni og framkvæmd

Jafnréttisáætlun þessi tók gildi við upphaf skólaárs 2016 og var endurskoðuð á vorönn 2019 og aftur í ársbyrjun 2023. Áætlunin skal vera aðgengileg fyrir starfsfólki og nemendum skólans og starfsfólki gert að hafa innihald hennar að leiðarljósi í starfi sínu og samskiptum sín á milli sem og við nemendur skólans. Þannig skal leitast við að samþætta áætlunina menningu skólans en skólameistari ber ábyrgð á að áætluninni sé fylgt og skal hún endurskoðuð á minnst þriggja ára fresti samkvæmt 18. grein laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Skólameistari skal minna starfsfólk á inntak áætlunarinnar og benda því á leiðir í átt að frekara jafnrétti innan veggja skólans.

Telji starfsmaður eða nemandi að jafnrétti sé brotið í VMA skal hann hafa samband við jafnréttisfulltrúa, skólameistara, trúnaðarmenn starfsmanna eða hagsmunaráðsfulltrúa nemenda sem finna skal hverju máli farveg. Við meðferð slíkra mála er sérstaks trúnaðar gætt. Slíkum málum er ekki framhaldið nema með samþykki meints þolanda. Kynbundin eða kynferðisleg áreitni, einelti eða annað ofbeldi varðar áminningu eða brottrekstri úr starfi eða úr skóla. Unnið skal eftir stefnum og viðbragðsáætlunum skólans s.s. áætlun gegn einelti.

Hér má finna jafnréttisáætlun skólans

Skólameistari skal tryggja að Jafnréttisáætluninni verði framfylgt, og að hún verði uppfærð með tilliti til 18. gr. laga nr. 10/2008.

Jafnréttisáætlun VMA er hluti af skólanámsskrá skólans.

Akureyri 10/09/2023

Halla Hafbergsdóttir, Jafnréttisfulltrúi VMA 
Sigríður Huld Jónsdóttir, Skólameistari VMA

Getum við bætt efni síðunnar?