Erlend samskipti
Skólinn leitast við að taka þátt í samskiptum við skóla og skyldar stofnanir erlendis, einkum þó á grundvelli Norðurlandaráðs og Evrópusambandsins. Á þeim vettvangi standa skólanum til boða ýmsir kostir sem grundvallaðir eru með styrkjum úr Nordplus og Erasmus plus áætlunum.
Í þessu sambandi gæti verið hvort sem um að ræða nemendaskipti milli landa eða skipti á kennurum og öðru starfsfólki, bæði hópum og á einstaklingsgrundvelli.
Í sumum tilvikum snúast þessi samskipti um þátttöku fulltrúa skólans í ráðstefnum. Algengara er þó að hópur nemenda undir stjórn kennara taki þátt í verkefnum er lúta að námi af einhverju tagi með gagnkvæmar heimsóknir í huga.
Í skólanum er starfandi verkefnisstjóri sem heldur utan um erlend samskipti. Hann bendir starfsmönnum og nemendum á þá kosti sem gætu hentað hverju sinni, aðstoðar við útfyllingu umsókna og miðlar verkefnum eftir því sem verkast vill.
Gert er ráð fyrir að skólinn hafi frumkvæði að verkefnum sem koma sér vel fyrir nemendur hans og skólann í heild. Þau henti honum að stærð og umfangi auk þess sem lögð sé áhersla á að styrkir þeir, sem ofangreindir aðilar veita, nægi að sem flestu leyti til að mæta fyrisjáanlegum kostnaði.
Dagný Hulda Valbergsdóttir er verkefnastjóri erlendra samskipta. Netfangið hennar er dagny.h.valbergsdottir@vma.is
Hér að neðan er samantekt um þau erlendu verkefni sem VMA tekur þátt í :
BlendVET - uppbyggingarsjóður EES
BlendVET er fjármagnað af uppbyggingarsjóði EES og er samstarfsverkefni þriggja landa; Íslands, Slóveníu og Noregs. Meginviðfangsefni BlendVET er að efla stafræna færni og þróa kennslufræðilegar lausnir til að innleiða blandað nám á verknámsbrautum. Verkefnið byggir á samstarfi milli verknámsskóla og háskóla í hverju landi fyrir sig og eru Háskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri fulltrúar Íslands í verkefninu.
DigitalVET 4 all
2021-1-FI01-KA220-VET-000025516
Verkefnið, sem er fjármagnað af Erasmus, miðar að því að skapa rafrænan vettvang fyrir verknámskennara í Evrópu til að deila upplýsingum um kennsluaðferðir sem byggja á upplýsingatækni og sýndarveruleika. Markmiðið er að nýta vettvanginn til að prófa sig áfram með nýstárlegar stafrænar lausnir í verknámi og deila reynslu sín á milli. Verkefninu er stýrt af Omnia í Finnlandi en aðrir samstarfsaðilar í verkefninu eru; Vamia í Finnlandi, Danmar Computers í Póllandi, ATEC í Portúgal, Samiedu Finnlandi, RBZ am Schützenpark, SŠGT Slóveníu, KAK í Eistlandi og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Nánar um verkefnið hér.
ELECTROECO TEAM
2021-1-IS01-KA220-VET-000024804
ELECTROECO TEAM er Erasmus+ samstarfsverkefni sex skóla sem kenna rafiðn; Verkmenntaskólans á Akureyri, IES Santa Lucía á Kanaríeyjum, BMSZC Egressy Gábor Két Tanítási Nyelvű Technikum Í Búdapest Ungverjalandi, MTAL í Istanbúl Tyrklandi, Agora í Roermond Hollandi og Solski Center í Celje Slóveníu. Verkefnið gengur út á vinnusmiðjur þar sem nemendur skólanna eru látin vinna saman að verkfnum undir merkjum sjálfbærni og grænni orku. Markmið verkefnisins eru fjölþætt; að vekja nemendur til meðvitundar um umhverfisáhrif loftslagsbreytinga, vekja nemendur og kennara til meðvitundar um nauðsyn þess að innleiða umhverfisvænar lausnir í fagið, veita nemendum tækifæri til þess að vinna að grænum frumkvöðlaverkefnum í alþjóðlegu umhverfi og síðast en ekki síst að skapa vettvang til þess að deila reynslu og skapa alþjóðleg tengsl.
Um tveggja ára verkefni er að ræða og mun það hefjast formlega með upphafsfundi í Slóveníu í desember 2021. Hvert þátttökuland mun hýsa eina vinnusmiðju þar sem nemendur og kennarar allra landa munu hittast til þess að vinna saman að markmiðum verkefnisins. Áætlað er að halda vinnusmiðju hér á Akureyri í maí 2022.
VET 4 Change
2020-1-FR01-KA202-080504
Verkefnið er fjármagnað af Erasmus en markmið verkefnisins er að þróa aðferðir til að koma á betra samtali milli verknámsskóla og aðila sem koma að stefnumótun. Verkefninu er enn fremur ætlað að gera þessum aðilum kleift að greina betur þarfir nærsamfélagsins þegar kemur að menntunarþörf. Þátttakendur í verkefninu auk VMA eru; MFR Grand Est Frakklandi, Breza Króatíu, BSC Slóveníu, IFOCAP Frakkklandi, Inter Mondes Belgíu, Leader Union Eistlandi og GAL Cluj Napoca Rúmeníu.
Ready for the World
2020-1-IS01-KA229-065828
Verkefnið er Erasmus samvinnuverkefni þriggja skóla sem munu sameiginlega vinna að því að finna leiðir til að valdefla og aðstoða konur sem standa höllum fæti í samfélaginu. Þeir skólar sem taka þátt í verkefninu eru auk Verkmenntaskólans á Akureyri, SOSU Randers í Danmörku og Morgen College sem er hluti af Landstede skólunum sem eru staðsettir í Harderwiijk í Hollandi. Hver skóli mun setja saman 10-15 manna nemendahópa með fjölbreyttan bakgrunn sem mun hittast í hverju landi fyrir sig og vinna sameiginlega með þema verkefnisins.
Rotten Shark and Aioli: Sharing Culinary Culture to Erase Differences.
2019-1-FR01-KA229-062996
Verkefnið er styrkt af Erasmus Plus áætluninni. Hér er um að ræða samstarf tveggja skóla, matavælabrautar VMA og MFR La Tour d´Aigues í Suður Frakklandi. Franski skólinn er hluti af MFR kerfinu sem rekur marga litla skóla í dreifðum byggðum í Frakklandi og fleiri löndum. Markmið verkefnisins er að vinna með matarhefðir, bæði gamlar hefðir og nútíma matvælaframleiðslu og nýtingu á svæðunum sem skólarnir þjóna. Við hér í Eyjafirði skoðum eigin matvælaframleiðslu og nýtingu og það sama gera nemendur skólans í Frakklandi. Áætlað var að hópur nemenda og kennara kæmi til Akureyrar og að hópur úr VMA færi til Frakklands vorið 2020. Heimsóknum hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna Covid-19.
Nordplus Junior verkefni með skólum í Finnlandi, Eistlandi, Litháen Svíþjóð og Danmörku.
NPJR-2019/10113
Empowerment by innovation - a must for inclusion. Viðskiptabraut VMA vinnur að verkefninu. Verkefnið gengur út á að hópar nemenda og kennara hittast í löndunum til að vinna að ákveðnum verkefnum. Í verkefninu er verið að fjalla um það að frumkvöðlastarfsemi og sköpun skiptir miklu máli þegar við ræðum um það að innfluttir íbúar komist að fullu leyti inn í samfélagið. Það er mikilvægt að ræða um það og nemendahóparnir munu vinna með þessi mál. Hópur nemenda úr VMA fór með Katrínu Harðardóttur til Porvoo í Finnlandi í október 2019. Frekari heimsóknum hefur verið frestað vegna Covid-19.
VET@Work - 2018-2021
2018-1-FI01-KA202-047198
Þetta verkefni er styrkt af Erasmus og er að sumu leyti beint framhald af Workmentor og AppMentor sem VMA var einnig þátttakandi að. Helsta markmið verkefnisins er að þróa rafræna handbók sem inniheldur leiðbeiningar um með hvaða hætti sé best að standa að samstarfi milli skóla og vinnustaða þegar kemur að þjálfun verknámsnema. Þátttakendur í verkefni koma bæði frá menntakerfinu og atvinnulífinu. Samstarfsaðilir VMA í verkefninu eru Het Idee og Stichting Welzijn Lelystad frá Hollandi, Axxell Utbildning AB og Raseborgs stad frá Finnlandi, Nantes Terre Atlantique frá Frakklandi, Broadshoulders Ltd frá Bretlandi og Hársnyrtistofan Medulla.
Nám og þjálfun í útlöndum
VMA sendir einnig nemendur og starfsmenn til dvalar í útlöndum. Starfsmenn fara oft í þeim erindum að skoða möguleika á að senda nemendur eða til að fylgja nemendum í starfsnám. Nemendur geta fengið styrki til að fara erlendis í vinnustaðanám eða hugsanlega í skólanám í tvær vikur eða lengur. Þessir styrkir eru allir eyrnamerktir starfsnámi.
Uppfært 11.09.2023 (HAH)