Fara í efni  

Fjarkennslan - framvinda og námsvinna

Fjarkennsla Verkmenntaskólans á Akureyri

     

Markmið fjarkennslu Verkmenntaskólans á Akureyri er að gefa þeim kost á námi, sem ekki geta stundað það á hefðbundinn hátt í dagskóla. Nemendur í fjarnámi geta einnig  verið dagskólanemendur VMA eða annarra framhaldsskóla. Meistaraskólinn er kenndur í gegnum fjarnám VMA. 
Fjarkennsla VMA fer alfarið fram í gegnum vef, annað hvort með tölvupóstsamskiptum og/eða í gegnum kennsluforritið Moodle. 

Nemendur fá lykilorð í Moodle sent á það netfang sem þeir gefa upp í umsókn. 

Framvinda námsins
 

Nám, námssefni, yfirferð, kennsla og kröfur í fjarkennslu VMA eru í samræmi við kröfur í námi dagskólans. Námsgögn geta verið alfarið á Moodle-síðu áfangans og/eða kennslubækur sem hægt er að kaupa í bókabúðum. Í kennsluáætlun kemur fram það námsefni sem liggur að baki áfanganum, upplýsingar um yfirferð og skipulag námsins ásamt upplýsingum um námsmat. Nemendur fá kennsluáætlun í upphafi annarinnar.

Í upphafsviku annarinnar velja kennarar vikudag til vikulegra sendinga efnis til nemenda. Yfirleitt er gert ráð fyrir því, að hver námsefnispakki feli í sér um það bil viku vinnu nemandans. Því er almennt reiknað með því, að nemandinn ljúki úrlausn sinni innan viku frá því að námsefnispakki er sendur. Hver kennari setur hámarksskilafrest úrlausna, oftast hálfan mánuð, og eiga nemendur að hlýta fyrirmælum kennara um skil svo sem þeim er framast unnt. Með ákvæðum um hámarksskilafresti er leitast við að mæta ófyrirséðum uppákomum, en langæskilegast er þó að ljúka hverri úrlausn innan viku frá því að verkefni berst; ella taka þau að hlaðst upp. Dragist skil fram yfir hámarksskilafrest ber nemanda að hafa samband við kennara sinn og gefa honum skýringu á töfinni.

Dragist skil fram yfir uppgefin hámarksskilamörk án gildra ástæðna, getur farið svo, að talið verði, að nemandinn hafi sjálfur sagt sig frá námi.

Nemendur senda verkefni til kennarans í gegnum tölvupóst eða í gegnum Moodle. Verkefnaskil geta verið gagnvirk í gegnum Moodle þannig að nemendur fá strax að vita niðurstöður og upplýsingar um rétt svör. Kennari fer yfir verkefni, leiðréttir og gerir athugasemdir. Höfuðreglan er, að nemandinn fái yfirfarna úrlausn til baka innan nokkurra daga frá því að hann sendi hana til kennara síns. Mikilvægt er  að nemandinn fari vandlega yfir yfirfarna úrlausnina til þess að læra af henni.

Nemandinn getur sent kennara sínum fyrirspurnir um námið og annað. Nemendur er eindregið hvattir til þess að notfæra sér þetta. Fyrirspurnir er hægt að senda í  tölvupósti eða í gegnum Moodle sem jafnframt  bíður upp á að nemendur geti notað spjall innan áfanga. 

Námstími fjarkennslunnar er miðaður við önn framhaldsskólans. Í flestum áföngum lýkur náminu með prófi, sem tekið er innan almenns prófatíma skólans. Almennt er gert ráð fyrir því, að rétt til próftöku hafi einungis þeir nemendur, sem staðið hafa full skil á úrlausnum sínum, en kennarar geta sett sérákvæði um þetta atriði.

Próf tekur nemandinn í heimabyggð sinni eða hið næsta henni, oftast í skóla eða símenntunarmiðstöð. Próf eru send á prófstaði með tölvupósti eða á pappír. Unnin próf eru send til kennara, sem fara yfir þau og gefa einkunnir. Þegar kennari hefur farið yfir próf nemanda, sendir hann honum einkunn í tölvupósti ásamt greinargerð og kemur hún í stað prófsýningar. Lokaeinkunn er birt í INNU. 

Námsvinnan
 

Í áfangakerfinu er námsgreinum skipt í „áfanga“, sem hver er einnar annar vinna. Einingafjöldi áfanga er síðasta talan í númeri hans. Því er ENS 102 tvær einingar og SAG 103 þrjár.

Almennt má reikna með því, að tíminn talinn í klukkustundum, sem þarf til fjarnámsins í viku hverri, sé um það bil sú tala, sem út kemur, þegar samtala valinna eininga er margfölduð með þrem. Vinna í t.d. STÆ 113 gæti því orðið níu klst. í viku. Þetta þarf að hafa í huga, þegar áfangar eru valdir í fjarnáminu.

Getum viđ bćtt efni síđunnar?

VERKMENNTASKÓLINN Á AKUREYRI

Skrifstofa VMA er opin alla virka daga frá kl. 08:00 - 15:00