Fara í efni

Mannauðsstefna

(unnið er að nýrri mannauðsstefnu skólaárið 2023-2024)

Lögð er áhersla á að velja til skólans starfsfólk sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til hinna ýmsu starfa með hliðsjón af m.a. menntun og reynslu.

Þegar tekið er á móti nýjum starfsmönnum er unnið samkvæmt sérstökum reglum um móttöku þeirra. Áhersla skal lögð á að umsækjendur kynni sér stefnu skólans og markmið og geri sér grein fyrir því fyrir hvað skólinn stendur. Mikilvægt er að nýtt starfsfólk geri sér þessi atriði ljós og felli sig við þau frá upphafi.

Kappkostað er að vinnuaðstaða starfsmanna sé með þeim hætti að þeir geti sinnt störfum sínum af kostgæfni. Kappkostað er að mötuneyti starfsfólks bjóði upp á sem fjölbreyttast fæði á sem lægstu verði í samræmi við kjarasamninga og sjálfsagðar kröfur sem gera má til góðs vinnustaðar.

Þess skal gætt að starfsmenn eigi greiðan aðgang að skólameistara og öðrum stjórnendum um persónuleg mál sín er snerta starf og líðan á vinnustað.

Einnig er mikilvægt að starfsmenn séu opnir fyrir því að leita til samstarfsfólks um aðstoð og leiðsögn og að slíkt sé gagnkvæmt.

Þá leggur skólinn áherslu á að hvetja starfsfólk til endurmenntunar í samræmi við yfirlýsta stefnu á þeim vettvangi og stuðla að henni eftir því sem hann er í stakk búinn til þess hverju sinni.

Reynt er að koma til móts við fjölskyldufólk úr röðum kennara eins og kostur er til þess að það geti á sem bestan hátt annast uppeldi barna sinna og átt sem mestan tíma með fjölskyldum sínum. Af þeim sökum er kappkostað að vinnuskylda þeirra sé innt af hendi á hefðbundnum starfstíma skólans og innan dagvinnumarka. Reynt er t.d. að komast hjá því að kennsla og fundir nái lengra fram á daginn en til kl. 16.00.

Þá er eftir atvikum kappkostað að á hverri önn eigi bæði nemendur og kennarar skólans kost á einni langri helgi. Leitast er við að hafa sambærileg leyfi í grunnskólum svæðisins til hliðsjónar þegar langar helgar eru skipulagðar.

Endurmenntunarstefna

Í jafnfjölbreytilegum skóla og VMA er gert ráð fyrir því að kennarar styðjist við margvíslegar kennsluaðferðir allt eftir því um hvers konar nám sé um að ræða.

Stefnt er að því að kennarar skólans fylgist vel með hver á sínu sviði auk þess sem þeir kynni sér nýjungar og ný viðhorf í kennslufræðum. Annars vegar er það gert með því að hvetja kennara til að sækja greinabundin endurmenntunarnámskeið. Hins vegar er lagt kapp á að í skólanum séu haldin námskeið eða fyrirlestrar þar sem öllum kennurum gefst kostur á að kynnast nýjungum í kennsluháttum og skólamálum.

Þá er það stefna skólans að öðrum starfsmönnum hans sé gert kleift að sækja námskeið er gætu bætt þá og þroskað í starfi auk þess að bæta líðan þeirra á vinnustað.

Þetta er gert með því að fá í skólann heimsóknir sérfræðinga til námskeiða- eða fyrirlestrarhalds. Þá er reynt að gefa fólki færi á að sækja námskeið utan skólans bæði með hjálp endurmenntunarsjóða stéttarfélaga og með því að styrkja þá beint.

Þá er lögð áhersla á að sérfræðingar innan skólans, m.a. í upplýsingatækni og kennslusfræðum, haldi námskeið fyrir starfsfólk eftir því sem þörf krefur og kostur er.

Það er hverjum skóla mikilvægt að hafa á að skipa góðum kennurum á öllum sviðum þess námsframboðs sem boðið er upp á hverju sinni. Af þeim sökum er það ekki aðeins mikilvægt að kennarar sæki endurmenntun hver á sínu faggreinasviði - heldur einnig á vettvangi kennslufræða í því skyni að þeir bæti sig sem kennarar.

Af þessum sökum er kennurum bent á að skynsamlegt geti verið að nota námsleyfi sín í þessu skyni, fremur en að öðlast meiri þekkingu eða færni í einstökum kennslugreinum, sem þeir hafa verið ráðnir til að kenna á grundvelli menntunar sinnar.

Það er jafnframt stefna skólans að gangast fyrir námskeiðum er lúta að öryggi bæði starfsmanna og nemenda.

Skólinn leggur fyrir í upphafi hvers skólaárs áætlun og hugmyndir um þá þætti á svið endurmenntunar sem hann vill leggja áherslu á hverju sinni. Geta þar bæði verið um að ræða stutt námskeið og fyrirlestrar í einn eða tvo daga eða námskeið sem ná yfir lengri tíma. Ef um lengri námskeið er að ræða er gert ráð fyrir því að skólinn og starfsmannafélög hans komi sér saman um fyrirkomulag, kostnað og greiðslur eða umbun.

Getum við bætt efni síðunnar?