MYL406C - Myndbygging, teikning og málun
Áfangalýsing:
Áfanginn miðar að því að nemandi hljóti þjálfun á sem flestum sviðum sem lúta að teikningu og málun.Fjölbreyttar teikniaðferðir skoðaðar. Unnið markvisst með efni og aðferðir og ýmsir efnismiðlar prófaðir.Möguleikar skoðaðir í hverskonar þróunarvinnu og forvinnu fyrir frekari útfærslu á myndverki. Nemendur eru þjálfaðir í hugmyndavinnu, skissugerð og uppbyggingu tvívíðra myndlistarverka í formi og lit. Reynt er að auka skilning og dýpka tilfinningu nemenda fyrir samspili lita og forma í myndbyggingu og að geta nýtt sér þá þekkingu á áhrifaríkan hátt í gerð myndverka. Einnig að skerpa næmni fyrir blæbrigðum í lit eftir litastyrkleika hans og ljósmagni. Merking og tákn í meðferð lita og forma eru kynnt fyrir nemendum. Í framhaldi af þeirri umræðu er unnið markvisst með litablöndun á persónulegan hátt í málverki. Myndgreining er samofin kennslunni í þessum áfanga þ.e.a.s. að valin eru verk þekktra listamanna eða hönnuða til skoðunar með tilliti til myndbyggingar, notkun lita og stílbrigða. Samhliða vinnu áfangans eru reglulegar umræður þar sem nemendur kynna verk sín og taka þátt í opinni umræðu um eigin verk og annarra á uppbyggilegan hátt.