Stálsmiður (Staðfestingarnúmer 259)
Stálsmiður hannar, smíðar og gerir við vélar, reisir mannvirki og viðheldur þeim, smíðar, viðheldur og gerir við skip og sinnir annarri þjónustu sem byggir á málmsmíði. Stálsmiðir starfa hjá framleiðslu- og byggingafyrirtækjum. Stálsmiður er lögverndað starfsheiti og stálsmíði löggild iðngrein. Markmið náms í stálsmíði er að gera nemendum kleift að takast á við þau viðfangsefni sem stálsmiðir inna af hendi. Náminu lýkur með sveinsprófi er veitir rétt til starfa í stálvirkjasmíði eða stálskipasmíði og til inngöngu í nám til iðnmeistararéttinda. Náminu er ætlað að búa nemendur undir þátttöku í nútímalegu lýðræðissamfélagi með því að auka hæfni þeirra til gagnrýninnar hugsunar, efla vitund um eigin getu og takmarkanir og styrkja samskiptahæfni og samhug. Auk þess að búa nemendur sem best undir störf og frekara nám er áhersla lögð á að koma til móts við nemendur sem vilja hagnýta menntun sem felur í sér hæfni til starfa sem krefjast nákvæmni, útsjónarsemi, sköpunarhæfni og vandaðs verklags.
Forkröfur
Inntökuskilyrði á brautina eru að nemendur hafi lokið kjarnagreinum grunnskóla með fullnægjandi árangri. Námsárangur í kjarnagreinum mun einnig hafa áhrif á inn á hvaða þrep nemandinn innritast. Ef fleiri sækja um nám á brautinni en skólinn getur tekið við getur inntökuviðmið orðið hærra en lágmarkið.
Skipulag
Fyrsta stálsmíðaárið felst í aðfararnámi málm- og véltæknigreina. Þetta er sameiginlegur grunnur fyrir málmiðngreinar sem inniheldur kjarnagreinar og iðnnámsgreinar. Námið felst bæði í bók- og verknámi. Annað stálsmíðaárið inniheldur faggreinar (iðnnámsgreinar) í stálsmíði og málmsuðu, auk kjarnagreina sé þeim ólokið. Námið felst í bók- og verklegu námi. Þriðja stálsmíðaárið (lokaárið) inniheldur faggreinar í stálsmíði. Námið felst í bók- og verklegu námi. Á árinu er unnið lokaverkefni sem þjálfar m.a. sjálfstæð vinnubrögð og nýtir það sem nemandinn hefur lært á brautinni. Námsárinu lýkur með burtfaraprófi úr framhaldsskóla og sveinsprófi þegar nemandinn er tilbúinn.
Námsmat
Lögð er áhersla á leiðsagnarmat og símat sem gefur nemendum uppbyggilega og hvetjandi leiðsögn og metur vinnuframlag þeirra jafnt og þétt yfir námstímann. Námsmat er fjölbreytt og aðferðir taka mið af fjölbreyttum kennsluháttum, námsmarkmiðum og hæfni nemenda. Námsmat á brautinni er fólgið í símati og lokaprófi eða eingöngu símati. Nánari tilhögun námsmats s.s. skiladagar verkefna og vægi kemur fram í námsmatsreglum skólans.
Reglur um námsframvindu
Nám á brautinni er 224 einingar og skilar nemendum hæfni á 3. þrepi. Til að standast námsmat í áfanga og fá heimild til að hefja nám í eftirfarandi áfanga þarf lágmarkseinkunnina 5. Reglur um námsframvindu eru birtar í skólanámskrá.
Hæfnisviðmið
- hafa vald á fagteikningu stálsmíða, málsetja, draga upp útflatninga, gera efnislista, meta efnisþörf og nýtingu eftir teikningum og reikna efniskostnað
- beita mælitækjum málmiðna, þekkja aflestrarfeila og staðla um kvörðun tækja
- beita fjarlægðar-, hæða- og hallamálum við staðsetningu og uppsetningu véla og mannvirkja
- þekkja framleiðsluferli algengra smíðamálma, smíðahæfni, merkingar og efnisstaðla
- skilja grunnatriði tog- og brotþols smíðamálma, þekkir til tæringarvarna smíðamálma og ver málminn fyrir tæringu og áraun
- þekkja eiginleika algengra smíðamálma, velja efni með tilliti til eiginleika og krafna og taka tillit til breytinga á styrk og formi við smíði, vinnslu og notkun
- þekkja áhrif álags á málmíhluti, samsetningar og festingar og nýta efnisstaðla og handbækur
- beita handverkfærum og nota algengustu málmsmíðavélar, bæði handstýrðar og tölvustýrðar
- fara eftir kröfum um umgengni við vélar
- smíða útflatninga og burðarvirki eftir eigin teiknum og annarra, setja þau upp og ganga frá samkvæmt kröfum
- þekkja suðuskeyti og undirbúning suðuverka, suðuhæfni og áhrif suðu á málma
- kverksjóða með pinna, MAG og TIG í járn og stál og MIG og TIG í ál
- þekkja vinnsluhætti ljósbogasuðu, hættur og öryggisráðstafanir, geymslu og meðferð aðfanga, suðuferilslýsingar, suðubreytur, undirbúning suðu, suðu á ryðfríu stáli og áli
- þekkja alþjóðlegar hæfnikröfur og hæfnivottun málmsuðumanna
- stúfsjóða með pinna, MAG og TIG í stál og MIG og TIG í ál og hafa grunnhæfni í logsuðu
- ganga frá samskeytum að lokinni suðu, þekkja verklag við for- og eftirhitun, spennumyndun, kanna sýnilega suðugalla og lesa úr mælingum og prófunum á suðum
- fara eftir öryggiskröfum um raflagnir og búnað, þrýstihylki og gaslagnir, vinnu í hæð, hífingar, verkpalla og notkun flutningatækja
- hafa grunnréttindi til að stjórna vinnuvélum
- gera hættumat og setja öryggisreglur samkvæmt vinnuumhverfisvísum málmiðnaðar
- beita skyndihjálp og bregðast við slysum samkvæmt viðbragðsáætlun
- þekkja viðbragðsáætlun um brunavarnir og bregðast við samkvæmt henni og fara eftir reglum um meðferð spilliefna og úrgangs
- viðhafa öguð vinnubrögð, fara eftir reglum um skipulag og umgengni í starfsstöð og á verkstað
- sýna góða framkomu í samskiptum við samstarfsmenn og viðskiptavini og miðla af þekkingu og reynslu til samstarfsmanna
- sýna kostnaðarvitund, skipuleggja verkefni, setja upp og vinna eftir verkáætlun og skrá verk- og vélatíma
- skilja hugtökin verkefnabundin framleiðsla og þjónusta, lotuframleiðsla og fjöldaframleiðsla og tengja hugtökin við gæði í framleiðslu og þjónustu, viðskiptavini, gæðakerfi fyrirtækis og framleiðni
- tileinka sér víðsýni, gagnrýna hugsun og samkennd
- efla eigin sjálfsmynd og nýta styrkleika sína
- beita skapandi og lausnamiðaðri hugsun við nám og störf
- búa yfir öflugri siðferðisvitund og ábyrgðarkennd
Námsgrein | 1. þrep | 2. þrep | 3. þrep | ||
---|---|---|---|---|---|
Eðlisfræði | EÐLI | 2AO05 | 0 | 5 | 0 |
Efnisfræði málma | EFMA | 1JS04 | 4 | 0 | 0 |
Enska | ENSK | 2LS05 | 0 | 5 | 0 |
Grunnteikning | GRUN | 1FF04 2ÚF04 | 4 | 4 | 0 |
Gæðastjórnun | GÆST | 2GH03 | 0 | 3 | 0 |
Heilsufræði | HEIF | 1HN02(AV) 1HN02(AV) | 4 | 0 | 0 |
Heilsa, lífsstíll | HEIL | 1HH02 1HH02(AV) | 4 | 0 | 0 |
Hlífðargassuða | HLGS | 2MT03 2SF04(AV) 3MS04 3TS04(AV) | 0 | 7 | 8 |
Iðreikningur | IÐNR | 2IM03(AV) | 0 | 3 | 0 |
Iðnteikning málmiðna | IÐNT | 3AC05(AV) 3LF05 | 0 | 0 | 10 |
Íslenska | ÍSLE | 2HS05(AV) | 0 | 5 | 0 |
Lagnatækni | LAGN | 3RS04(AV) | 0 | 0 | 4 |
Lífsleikni | LÍFS | 1SN01 1SN02 | 3 | 0 | 0 |
Logsuða | LOGS | 1PS03(AV) 2PR03 | 3 | 3 | 0 |
Lokaverkefni | LOKA | 3SS05 | 0 | 0 | 5 |
Rafsuða | RAFS | 1SE03(AV) 2SP03 | 3 | 3 | 0 |
Rafmagnsfræði | RAMV | 1HL05 | 5 | 0 | 0 |
Skyndihjálp | SKYN | 2EÁ01 | 0 | 1 | 0 |
Smíðar | SMÍÐ | 1NH05 2NH05 3PS05(AV) 3RV05(AV) 3SS05 | 5 | 5 | 15 |
Starfsþjálfun | STAÞ | 1SV26(AV) 2SV26(AV) 3SV28(AV) | 26 | 26 | 28 |
Stærðfræði | STÆF | 2RH05 | 0 | 5 | 0 |
Tölvustýrðar vélar | TSVÉ | 2VN03 | 0 | 3 | 0 |
Umhverfisfræði | UMHV | 2ÓS05 | 0 | 5 | 0 |
Vélstjórn | VÉLS | 1GV05 | 5 | 0 | 0 |
Einingafjöldi | 219 | 66 | 83 | 70 |
Frjálst val
Nemendur hafa 5 einingar í frjálsu vali