Fara í efni

Íslenskubrú

Brautarlýsing

Námsbrautin er ætluð nemendum af erlendum uppruna með litla sem enga þekkingu á íslensku. Nemendur með annað móðurmál en íslensku hafa ólíkan bakgrunn hvað varðar nám, menningu og tungumál. Þeir hafa mismikla undirstöðu í eigin tungumáli, læsi og námi og eru því misjafnlega undirbúnir að takast á við nýtt tungumál í nýju umhverfi. Þeir hafa einnig verið mislengi á Íslandi og fengið ólík tækifæri til að kynnast íslenskri tungu. Saman fara markmið þar sem leitast er við að þjálfa nemendur í íslensku máli, sem og menningarfærni, og með því stuðla að félagslegri vellíðan nemandans. Þau fela í sér að nýja tungumálið sé lykill að íslensku samfélagi, skólastarfi, atvinnuumhverfi og brúi ólíka menningarheima. Með námi á brautinni er stefnt að því að nemendur verði sem best í stakk búnir til að taka virkan þátt í íslensku, lýðræðislegu þjóðfélagi.

Inntökuskilyrði

Námsbrautin er opin þeim nemendum af erlendum uppruna sem hafa litla sem enga kunnáttu í íslensku og náð hafa framhaldsskólaaldri. 

Námið

Brautin veitir ekki eiginleg réttindi, en með námi á brautinni er nemendum gert kleift að auka möguleika sína til náms og starfa í íslensku samfélagi. Eitt af lokamarkmiðum námsins er að opna möguleika nemenda á frekara námi við íslenska framhaldsskóla.

Námið á brautinni skiptist í fjórar annir og er megináherslan á íslenskukennslu á 1. og 2. þrepi (A1 – B2 skv. evrópska tungumálarammanum). Nemendum er raðað í íslenskuáfanga í samræmi við getu, þannig geta sumir nemendur sleppt námi í 1. þreps áföngum og sest beint í 2. þreps áfanga.  Að námi loknu útskrifast nemendur með 115 ein. og geta í framhaldinu sótt um annað nám á framhaldsskólastigi.

Kennsluaðferðir brautarinnar eru fjölbreyttar, byggja m.a. á leiðsagnarmati, og miðast við að allir nemendur eigi kost á að nýta hæfileika sína og fá endurgjöf á verkefni sín. Lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð og vinnusemi nemenda. Námssamfélagið gengur út á samvinnu kennara og nemenda sem skapar jákvætt og uppbyggilegt umhverfi til náms og starfa. 

Hæfniviðmið:

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

  • geta hlustað á talað mál og skilið merkingu þess.
  • geta tjáð sig á viðeigandi hátt um ólík efni bæði munnlega og skriflega.
  • hafa trú á eigin málakunnáttu.
  • geta tekið þátt í samræðum um almenn málefni og notað viðeigandi málfar og hljóðfall.
  • búa yfir fjölbreyttum orðaforða daglegs lífs.
  • geta lesið texta á íslensku, sér til fróðleiks og ánægju.
  • hafa skilning á málkerfi og eiginleikum íslensku.
  • gera sér grein fyrir hvernig kunnátta í íslensku er lykill að margvíslegum samskiptum.

Annarplan

Greinar 1.önn 2.önn 3.önn 4.önn  
Enska      ENSK (5)    
Íslenska bókl.  ÍSAN (5)  ÍSAN (5)  ÍSAN (5)  ÍSAN  
Íslenska tal  ÍSAN (5)  ÍSAN  ÍSAN  ÍSAN  
Heilsa og lífsstíll  HEIL (4)  HEIL (4)      
Íslenska verkleg    NÁSS (4)      
Hreyfing      HREY (1)  HREY (1)  
Lífsleikni  LÍFS (2)  LÍFS (2)      
Menningarlæsi    MELÆ (5)      
Náttúrulæsi      NÁLÆ (5)    
Námsstuðningur      STUÐ (1)  STUÐ (1)  
Stærðfræði  STÆF (5)        
Upplýsingatækni  UPPT (2)        
Frjálst val     FRJÁLST VAL (5) FRJÁLS VAL (10)  
Einingar samtals 23 25 27 22  

 

Getum við bætt efni síðunnar?