Brautabrú
Brautarlýsing
Brautabrú er ætluð nemendum sem eru óráðnir í námsvali eða hafa ekki náð fullnægjandi námsárangri í kjarnagreinum grunnskóla (íslenska, stærðfræði og enska). Brautin hefur það markmið að styrkja námshæfni nemandans og vekja áhuga hans á námi í framhaldsskóla m.a. með það fyrir augum að nemandinn komist inn á þá námsbraut sem hann stefnir á eftir árið.
Inntökuskilyrði
Að nemandinn hafi lokið grunnskóla. Námsárangur í kjarnagreinum mun hafa áhrif á það á hvaða þrep nemandinn innritast.
Nánari upplýsingar um inntökuskilyrði er hægt að nálgast hér
Námið
Allan veturinn er fyrst og fremst lögð áhersla á kjarnagreinar; íslensku, stærðfræði og ensku. Eins og á öðrum námsbrautum fyrir nýnema fara nemendur í lífsleikni og íþróttir á fyrsta námsári sínu í framhaldsskóla. Til að nemanda farnist sem best í námi er heimanámsaðstoð, námsver, einu sinni í viku.
Á haustönninni fara nemendur í verklegan áfanga þar sem þeim eru kynntar ýmsar verklegar brautir sem skólinn býður upp á. Á vorönninni hafa nemendur val um einn til tvo áfanga sem tengjast því námi sem þeir stefna á.
Kennsluaðferðir brautarinnar eru fjölbreyttar, byggja m.a. á leiðsagnarmati, og miðast við að allir nemendur eigi kost á að nýta hæfileika sína og fá endurgjöf á verkefni sín. Lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð og vinnusemi nemenda. Námssamfélagið gengur út á samvinnu kennara og nemenda sem skapar jákvætt og uppbyggilegt umhverfi til náms og starfa.
Að uppfylltum inntökuskilyrðum inn á aðrar brautir skólans, getur nemandinn fært sig á milli brauta. Þær einingar sem hann hefur lokið tekur hann með sér yfir á þá braut sem verður fyrir valinu, eftir því sem þær samræmast viðkomandi braut.
Annarplan
Nemandi er settur í þann áfanga í kjarnagreinum sem hentar best í framhaldi af grunnskóla.
Enska - ENSK1UP05, ENSK1LO05, ENSK2LS05
Íslenska - ÍSLE1LB05, ÍSLE1FL05, ÍSLE2HS05
Stærðfræði - STÆF1BP05, STÆF1JF05, STÆF2??05*
*Viðeigandi áfangi á 2. þrepi miðað við þá braut sem nemandinn stefnir á.
Greinar |
1.önn |
2.önn |
Enska |
Miðað við einkunnir úr grunnskóla |
Framhald af 1. önn |
Íslenska |
Miðað við einkunnir úr grunnskóla |
Framhald af 1. önn |
Stærðfræði |
Miðað við einkunnir úr grunnskóla |
Framhald af 1. önn |
Heilsa og lífstíll | HEIL1HD04 | HEIL1LH04 |
Lífsleikni | LÍFS1BB02 | LÍFS1AN02 |
Námsver | NVER1NS01 | NVER1NS01 |
Náms- og starfsfræðsla | NÁSS1SÖ06 | |
Val | 1-2 áfangar miðað við þá braut sem nemandinn stefnir á | |
Samtals ein. | 28 | 27-32 |