Úr listinni í lögfræðina
Þegar Akureyringurinn Dagný Lilja Arnarsdóttir hóf nám á listnámsbraut VMA á sínum tíma var það í fullu samræmi við áform hennar frá því hún var í þriðja bekk í grunnskóla; að verða kennari á listnámsbraut!
„Reyndar hafa þessi áform breyst í tímans rás og núna sé ég mig ekki sem kennara á listnámsbraut í framtíðinni, því eins og er stefni ég í nám í lögfræði næsta haust í Háskólanum á Akureyri,“ segir Dagný Lilja.
Hún segist alltaf hafa teiknað mikið og sömuleiðis verið iðin við lestur. „Það hentaði mér því vel að fara í listnám og ég sé alls ekki eftir því. En þó svo að ég stefni á að fara í allt aðra átt í framtíðinni mun listnámið nýtast mér vel. Ég er t.d. viss um að ég á eftir að njóta þess að mála meira,“ segir Dagný Lilja.
Um mynd sína, Ævintýraþrá, sem hún málaði í MYN 504 á haustönn og er núna uppi á vegg gegnt austurinngangi VMA, segir Dagný Lilja: „Bækur og ævintýri, ekki síst þjóðsögur, hafa alltaf verið stór hluti af mínu lífi og mig langaði að koma því frá mér í þessu verki. Mannveran í verkinu á sér enga sérstaka fyrirmynd, hún er alfarið mitt hugarfóstur,“ segir Dagný Lilja og bætir við að ákveðið frjálsræði í listnáminu hafi hentað sér vel. „En ég geri mér grein fyrir því að lögfræðinámið er mjög svo frábrugðið því sem ég hef verið að fást við. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á krimmaþáttum og áhugaverðasti hlutinn hefur mér alltaf þótt vera það sem fram fer í réttarsalnum. Ég hugsa að það hafi haft eitthvað um það að segja að ég hef ákveðið að skella mér í lögfræðina. Ég hef líka mikinn áhuga á fréttum, hangi satt best að segja löngum stundum inni á öllum mögulegum fréttasíðum á netinu. Ég verð að vita hvað er í gangi í kringum mig, annars er ég alveg ómöguleg,“ segir Dagný Lilja Arnarsdóttir.