Fara í efni

Nemendur í heilsunuddi í námsferð til Malaga

VMA-heilsunuddhópurinn í Malaga.
VMA-heilsunuddhópurinn í Malaga.

Undir lok nóvember fóru sjö nemendur í heilsunuddi við VMA og kennarar þeirra María Albína Tryggavadóttir og Anný Björg Pálmadóttir í námsferð í eina viku til Malaga á Spáni. Ferðin var styrkt af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB. Flogið var í beinu flugi með Easy Jet frá Akureyri til London og þaðan áfram til Malaga. Sama leið var farin til baka til Akureyrar.

Þetta er fyrsti námshópurinn í heilsunuddi í VMA og hóf hann nám á haustdögum 2023. Heilsunuddið er blanda bóklegs og verklegs náms og til þess að útskrifast þurfa nemendur að hafa lokið lágmarks fjölda tíma í starfsþjálfun. Hluti námshópsins mun útskrifast frá VMA núna í desember.

Í námsferðinni til Malaga var m.a. sóttur heim IES El Palo, sem er ríkisrekinn verkmenntaskóli, og fylgst með hvernig staðið er að náminu þar. VMA hefur á undanförnum árum verið í góðu sambandi við þennan skóla því nemendur á lokasprettinum í námi í hársnyrtiiðn í VMA hafa undanfarin ár farið til Malaga og m.a. kynnt sér hársnyrtiiðn í IES El Palo skólann. Fróðlegt var fyrir nemendur í heilsunuddinu að sjá áherslurnar í náminu í Malaga en þar er meira lagt upp úr svokölluðu vellíðunarnuddi með áherslu á hinar ýmsu jurtir og krem.