Fara í efni

Byggingadeild VMA fékk rausnarlega gjöf

Fulltrúar fyrirtækjanna ellefu sem standa að gjöfinni til byggingadeildar VMA. Með þeim á myndinni e…
Fulltrúar fyrirtækjanna ellefu sem standa að gjöfinni til byggingadeildar VMA. Með þeim á myndinni eru skólameistari, aðstoðarskólameistari, sviðsstjóri iðn- og starfsnáms og brautarstjóri byggingadeildar VMA. Fyrir aftan er hluti nemenda byggingadeildar.

Það var heldur betur hátíð í bæ í húsakynnum byggingadeildar VMA í gær þegar fulltrúar ellefu fyrirtækja færðu deildinni gjöf sem samanstendur af yfir 100 rafmagns- og handverkfærum.

Fyrirtækin sem standa sameiginlega að þessari gjöf, sem er að andvirði um fimm milljónir króna, eru:

Þór hf.
K.Þorsteinsson & Co
SS Byggir ehf.
Tréverk hf.
BB Byggingar ehf.
ÁK smíði ehf.
HeiðGuðByggir ehf.
Valsmíði ehf.
Böggur ehf.
B.E. húsbyggingar ehf.
Húsheild/Hyrna ehf.

Benedikt Barðason skólameistari VMA þakkaði fyrir hönd skólans fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Hann sagði sérlega ánægjulegt þegar fyrirtæki sameinist um slíka gjöf, það sýni einstakan hlýhug til skólans og sé til marks um að atvinnulífið vilji standa vörð um námið í byggingadeild og leggja sitt af mörkum til þess að nemendur og kennarar hafi aðgang að fyrsta flokks tækjabúnaði til þess að mennta iðnaðarmenn framtíðarinnar.

Helgi Valur Harðarson brautarstjóri byggingadeildar vill koma á framfæri kærum þökkum til þessara  byggingarverktaka og söluaðila fyrir að leggja deildinni lið með þessum hætti. Hann segir ómetanlegt fyrir nemendur og kennara deildarinnar að njóta slíks velvilja og stuðnings úr atvinnulífinu. Þessi verkfæragjöf nýtist nemendum á öllum stigum náms í byggingadeild um ókomin ár og styrki öryggi, þjálfun og upplifun þeirra í námi. Nú gefist tækifæri til þess að endurnýja hluta eldri verkfæra en til viðbótar sé umtalsverð viðbót í verkfæraflóru deildarinnar. Með þessari fjölbreyttu verkfæragjöf færist deildin nær nútímanum og unnt verði að létta á vélasalnum því staðreyndin sé sú að deildin sé að sprengja utan af sér húsnæðið. Kennt sé flesta daga frá 8 á morgnana til 21-22 á kvöldin og ekki sé mögulegt að hafa allt að 20 manns í vélasalnum í einu. Með þessu nýju verkfærum sé unnt að dreifa nemendum betur um kennslurýmið.

Helgi Valur segir að skólinn hafi lengi ekki getað reitt sig á fjármagn frá hinu opinbera til viðhalds og endurnýjunar á vélum og búnaði og því sé stuðningur atvinnulífsins við skólann og námið gífurlega mikilvægur. Endurnýjun tækjabúnaðar geri kleift að innleiða nútíma vinnubrögð, efla tengsl við atvinnulífið og bjóða nemendum betri og raunhæfari verklega kennslu.

Helgi Valur bætti við að þessi nýju rafmagns- og handverkfæri kæmu sér einstaklega vel því á vorönn 2026 stefndi í að nemendur deildarinnar verði á annað hundrað talsins.