Fara í efni

73 brautskráðir frá VMA í dag

Þeir nemendur sem höfðu tök á að mæta til brautskráningarinnar í Hofi í dag með Benedikt skólameista…
Þeir nemendur sem höfðu tök á að mæta til brautskráningarinnar í Hofi í dag með Benedikt skólameistara og Ástu aðstoðarskólameistara. Mynd: Páll A. Pálsson.

Sjötíu og þrír nemendur brautskráðust frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi síðdegis í dag. Brautskráningarnemar koma af mörgum og ólíkum námsbrautum skólans, bæði í starfsnámi og bóklegu námi til stúdentsprófs. Af stúdentsprófsbrautum voru nemendur brautskráðir af félags- og hugvísindabraut, fjölgreinabraut, íþrótta- og lýðheilsubraut, listnáms- og hönnunarbraut – myndlistarlínu, náttúruvísindabraut og viðskipta- og hagfræðibraut. Einnig voru brautskráðir stúdentar sem hafa lokið viðbótarnámi eftir starfsnám. Í starfsnámi voru brautskráðir sjúkraliðar, húsasmiður, stálsmiður, kjötiðnaðarmaður, rafeindavirkjar og matartæknar. Þá voru brautskráðir heilsunuddarar, félagsliði og iðnmeistarar.

Benedikt Barðason var nú að brautskrá fyrsta námshópinn í Hofi eftir að hann tók við stöðu skólameistara VMA 1. ágúst sl. Raunar leysti hann Sigríði Huld af í námsleyfi hennar sem skólameistari skólaárið 2019-2020 og brautskráði nemendur í desember 2019 og í maí 2020. Vegna COVID-faraldursins, sem hófst í mars 2020, var vorbrautskráningin með óhefðbundnum hætti í Gryfjunni, samkomusal skólans.

Í upphafi brautskráningarræðu sinnar í dag beindi Benedikt orðum sínum til brautskráningarnema og sagði m.a.:

Kannski eru breytingar það eina sem er öruggt í lífinu. Til þess að leiða þær breytingar þarf forystu, forystu í merkingunni að leiða til hins betra. Þegar forysta er veitt er mikilvægt að hlusta, sýna virðingu og hógværð því þetta eru lykilatriði í velgengni. Að takast á við mótlæti og læra af mistökum, eigin og annarra. Forystu er þörf í eigin lífi og þeim störfum sem á fjörur ykkar reka á ævinni. Forysta felst í að leiða, axla ábyrgð og takast á við áskoranir. Í forystu felst líka að horfast í augu við aðstæður, ógnanir - og sjá tækifæri, því að í flestum ógnum felast tækifæri.
Faðir minn heitinn sagði alltaf, þegar ég var eitthvað að kvarta … að í mótbyr sést úr hverju fólk er gert. Í mótbyr sést úr hverju fólk er gert. Mótbyr og mótlæti hafa oft laðað fram margar af þeim bestu hliðum sem samfélög hafa svo sem hjálpsemi, kærleika, samkennd og virðingu fyrir öðrum. Dagurinn í dag er táknræn staðfesting á því, þar sem flestir nemendur hafa lent í mótbyr í náminu en verkefnin eru til að takast á við þau. Það er ekkert líf svo einfalt að það flækist ekki einhvern tímann.

Benedikt ræddi síðan almennt um skólann og skólahald og mikilvægi VMA í samfélaginu:

Það er svo að skólahald snýst um nemendur. Skóli er fólkið sem þar er á hverjum tíma, nemendur og starfsfólk. Skóli er stærri, þ.e. stærra og áhrifaríkara tæki til jöfnuðar, velsældar og samfélagsbætingar en flesta grunar. Framhaldsskóli snýst auðvitað um undirbúning nemenda undir frekara nám eða sérhæfð störf en hann snýst líka um alhliða þroska, þátttöku í samfélaginu, siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, umburðarlyndi, jafnrétti, sjálfstraust og gagnrýna hugsun.
Við skulum líka hafa í huga að skólahald á Akureyri, með þeim hætti sem það er í dag, er ekki sjálfgefið. Að baki því er áratuga barátta og þrotlaus vinna. Þeirri þrotlausu vinnu er alls ekki lokið. Hún heldur áfram í desember 2025 eins og alla mánuði ársins.
Skólana mætti kannski kalla þekkingarstóriðju. Stóru skólarnir þrír á Akureyri veita um níu milljörðum króna beint af fjárlögum inn í hagkerfi Eyjafjarðarsvæðisins. Af starfsemi þeirra leiðir að sérhæft starfsfólk velur sér búsetu hér og með þeim makar og börn. Af starfseminni leiðir viðhald húsnæðis, ýmis konar þjónusta, heimavist, nemendagarðar, leikskólar - og allt þetta fólk þarf að kaupa í matinn, skemmta sér, láta gera við bíla, skipta um eldhúsinnréttingar og þannig getum við haldið lengi áfram. Þetta eru eingöngu þau augljósu áhrif þess að hafa Háskólann, Menntaskólann og Verkmenntaskólann á Akureyri.
Hin samfélagslegu áhrif 40 ára sögu Verkmenntaskólans á samfélag Norðursins eru mjög mikil og trúlega verulega vanmetin. Á síðustu 20 árum hefur VMA gefið út um 7000 útskriftarskírteini - sett í samhengi, að þriðji hver Akureyringur hafi fengið útskriftarskírteini á þessum 20 árum.
Þegar komið er í grunnskólana, sjúkrahús, öldrunarheimili, heilsugæslu, banka eða á hvaða vinnustað sem er, heilsar maður gömlum nemendum af stúdentsprófsbrautunum sem eru, allt í einu, orðnir kennarar, hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraliðar, matartæknar, viðskiptafræðingar, tölvunarfræðingar, tæknifræðingar og svo framvegis. Ekki síður á þetta við hjá verktökum og iðnfyrirtækjum. Húsasmiðir, rafvirkjar, stálsmiðir, vélvirkjar, múrarar, píparar, matreiðslumenn, rafeindavirkjar, vélstjórar, bifvélavirkjar, hárgreiðslufólk og svo framvegis. Þar heilsar maður ævinlega gömlum nemendum. Iðnaðarmenn klára svo margir iðnmeistaranám og halda áfram að starfa hjá rótgrónum fyrirtækjum eða stofna eigin fyrirtæki - og taka svo nýja iðnnema á samning - og þannig heldur hringrásin áfram.
Stóra menntahringrásin, fóðrun hennar og viðhald, er eitt af okkar æðri verkefnum og það er okkar hlutverk sem samfélags að viðhalda hringrásinni.

Við brautskráninguna í dag söng Þórir Nikulás Pálsson nýstúdent af fjölgreinabraut lagið Alive eftir Davin og flutt var atriði úr Ronju ræningjadóttur sem Leikfélag VMA frumsýnir í febrúar 2026. Eins og hefð er fyrir fengu nemendur sem hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar í félagslífi blóm frá skólanum sem viðurkenningavott fyrir framlag sitt. Blómvendina fengu afhenta Theodóra Tinna Reykjalín Kristínardóttir, Þórir Nikulás Pálsson, Sigrún Dalrós Eiríksdóttir og Alexander Ingvarsson.