Fara í efni

Einn af stærstu brautskráningarhópum í VMA frá upphafi

Baldvin Ringsted með nokkrum brautskráningarnemum.
Baldvin Ringsted með nokkrum brautskráningarnemum.

Í dag hefur verið hátíðleg stemning í VMA þegar brautskráningarnemendur hafa fengið skírteini sín afhent. Þessi útskrift fer í sögubækurnar fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi vegna aðstæðna sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur skapað, sem gerði það að verkum að vegna fjöldatakmarkana var ekki unnt að hafa brautskráninguna í Menningarhúsinu Hofi eins og venja er, í öðru lagi er þessi brautskráning ein sú allra stærsta í 36 ára sögu VMA, ef ekki sú stærsta, og í þriðja lagi hafa aldrei fleiri verknemar fengið afhent brautskráningarskírteini í sögu skólans eða 114. Heildarfjöldi brautskráðra í dag er 191 nemandi með 218 skírteini af 34 námsbrautum.

Í desember sl. brautskráði VMA 69 nemendur og því hafa 260 nemendur verið brautskráðir frá VMA á þessu skólaári.

Sviðsstjórarnir Harpa Jörundardóttir, Ómar Kristinsson og Baldvin B. Ringsted afhentu brautskráningarnemum skírteini sín í dag.

Harpa Jörundardóttir er sviðsstjóri starfsbrautar og brautabrúar. Hér eru myndir frá afhendingu Hörpu á skírteinum nemenda á starfsbraut.
Ómar Kristinsson er sviðsstjóri sjúkraliðabrautar og stúdentsprófsbrauta. Hér afhendir Ómar nemendum skírteini sín.
Baldvin B. Ringsted  er sviðsstjóri verk- og fjarnáms. Hér sést hann afhenda skírteini til nemenda í dag.

Hér eru fleiri myndir sem voru teknar í VMA í dag við afhendingu brautskskráningarskírteinanna.

-----

Afhending brautskráningarskírteina er aðeins fyrri hálfleikur því á morgun, laugardag, kl. 10:00 verður brautskráningarhátíð VMA vorið 2020 send út á youtuberás VMA í gegnum heimasíðu skólans - www.vma.is

Tímasetning útsendingarinnar er hin sama og hefði verið á brautskráningu í Menningarhúsinu Hofi.

Brautskráningarhátíðin verður blanda af töluðu máli (brautskráningarræða skólameistara, sviðsstjórar kynna brautskráningarnema, brautskráningarnemar flytja ávörp og brugðið verður á leik á léttum nótum. Ekki má gleyma tónlistinni, boðið verður upp á tónlistaratriði af ekki lakari taginu - þar sem bæði nemendur og kennarar skólans koma við sögu o.fl.

Brautskráningarnemendur og fjölskyldur þeirra og miklu fleiri ættu að gefa sér tíma kl. 10 í fyrramálið til þess að horfa á brautskráningarhátíðina. Hlekk á útsendinguna verður að finna á heimasíðu VMA - www.vma.is