Fara í efni

Ávarp Theodóru Tinnu nýstúdents

Theodóra Tinna Reykjalín Kristíndardóttir.
Theodóra Tinna Reykjalín Kristíndardóttir.

Theodóra Tinna Reykjalín Krístínardóttir, nýstúdent af náttúruvísindabraut, flutti ávarp brautskráningarnema í Hofi í dag:

----

Góðan daginn, ég veit ekki með ykkur en ég er afar ánægð að standa hér í dag, ég er ánægð og stolt. Það er ekki á hverjum degi sem fólk útskrifast úr framhaldsskóla og þetta er samt bara byrjunin, en VMA hefur undirbúið okkur vel, ég hef ekki bara lært um eðlisvarma og setningahluta heldur lærði ég líka að eignast vini, að vinna með öðru fólki og ég lærði mikilvægi þess að gera hlutina.

Sérstaklega í dag er hægt að komast í gegnum skólann með því að mæta bara í tíma og sitja í símanum og skila verkefnum með eins lítilli fyrirhöfn og hægt er, en það hefði ekki kennt mér neitt, og svo er bara mikið skemmtilegra að hafa áhuga á því sem maður er að gera og að leggja vinnu í það og ef maður gerir sitt allra besta sést árangurinn og manni getur liðið vel með sína frammistöðu.

Þegar ég byrjaði í VMA var ný og spennandi tækni að koma fram, gervigreind. Í fyrstu virtist þetta bara vera skemmtileg ný tækni sem gæti gert skrítinn texta og skrítnari myndir. Tæknin batnaði fljótt og bráðum var hægt að nota hana til þess að gera verkefnin fyrir mann en maður lærir að sjálfsögðu ekkert af því að gera ekki verkefni og persónulega lærði ég mest af því að vinna verkefnin og af því að taka þátt í náminu. Það er auðvelt að láta tæknina hugsa fyrir sig en það er mikilvægt að við hugsum sjálf og pössum upp á framtíðinna okkar.

Ég lærði alveg rosalega mikið af því að stökkva í djúpu laugina og gera eitthvað sem ég vissi lítið um en gera samt mitt allra besta, mér hefði aldrei dottið í hug að ég væri að fara að taka þátt í stærðfræðikeppnum eða Gettu betur en þarna kynntist ég góðum vinum og lærði margt.

Heimspekingurinn Wittgenstein átti einhvern tímann samtal við vin sinn þar sem þeir ræddu þá ranghugmynd mannskepnunnar, frá þeim tíma þegar hún vissi ekki betur, að sólin snérist í kringum jörðina. „Segðu mér“ spurði hann vininn, „af hverju segir fólk alltaf að það hafi verið eðlilegt að álykta að sólin snérist í kringum jörðina í stað þess að jörðin snérist í kringum sólina?“ „Nú, augljóslega því það lítur út eins og sólin ferðist í kringum jörðina,“ sagði vinurinn. Wittgenstein svaraði: „En hvernig hefði það litið út, ef okkur hefði sýnst eins og jörðin snérist í staðinn?“

Þetta er held ég það sem ætti að vera kjarni alls náms, að við ræktum og höldum við, hæfileikanum til að reyna að bera sjálf kennsl á og skilja veruleikann eins og hann er. Við lok náms hér í VMA tekur framtíðin við og skólinn hefur gert sitt besta til þess að undirbúa okkur undir þetta. Samt er þetta stórt stökk út í óvissuna en það eina sem að við getum gert er að leggja af stað og gera okkar allra besta. Ég mun nota það sem ég lærði á þessum þrem árum í áframhaldandi námi og það sem eftir er lífs míns og fyrir það vil ég þakka starfsfólki skólans, kennurum, skólameistara og samnemendum mínum.