Fara í efni

Frístundahúsið rís

Síðustu veggeiningunni komið á sinn stað.
Síðustu veggeiningunni komið á sinn stað.

Frá byrjun haustannar hafa nemendur á þriðju önn í húsasmíði unnið ötullega að því að forsmíða gólf og útveggi frístundahúss sem byggt er árlega norðan við húsnæði byggingadeildar. Í gær var komið að því að reisa útveggi hússins og það var gert með aðstoð kranabíls sem dró forsmíðað gólfið út úr skólanum og hífði síðan hverja veggeiningu á sinn stað.

Góðum áfanga er náð með því að reisa húsið og í kjölfarið er gengið frá þakinu og síðan koll af kolli.

Húsið í ár er í grunninn eins og hús undanfarinna tveggja ára en það er hannað af Steinmari H. Rögnvaldssyni byggingartæknifræðingi. Húsið er að utanmáli 64 fermetrar og í því eru tvö svefnherbergi, baðherbergi/þvottahús, stofa og eldhús. Svefnloft er í hluta hússins.

Bygging frístundahússins er hið stóra verkefni nemenda á þriðju önn í húsasmíði í vetur og það kemur síðan í ljós í lok vorannar hversu langt húsið verður komið.

Að byggingunni koma einnig nemendur í bæði pípulögnum og rafvirkjun og því er óhætt að segja að með henni skapist verkþjálfun fyrir marga nemendur í ólíkum iðngreinum. Margar flugur eru því slegnar í einu höggi.

Húsið sem var byggt af nemendum á síðasta skólaári var selt vestur í Bjarnarfjörð á Ströndum og var það flutt þangað í síðasta mánuði.

Í þessu sambandi er vert að rifja upp frístundahúsabyggingar húsasmíðanema í VMA á liðnum tíu árum:

Haustið 2022
Haustið 2021
Haustið 2020
Haustið 2019
Haustið 2018
Haustið 2017
Haustið 2016
Haustið 2015
Haustið 2014
Haustið 2013