Fara í efni

Sumarhús tekur á sig mynd

Sumarbústaðargengið - nemendur og kennarar.
Sumarbústaðargengið - nemendur og kennarar.

Nemendur á öðru ári í námi í húsasmíði hafa það sem aðalverkefni á hverjum vetri að byggja sumarhús. Með því eru ótal margar flugur slegnar í einu höggi. Í liðinni viku var komið að því að draga forsmíðað gólf sumarhússins út á plan norðan við húsnæði byggingadeildar og hífa forsmíðaða út- og innveggi á sinn stað. Sem endranær var spennandi að sjá hvernig hlutirnir púslast skemmtilega saman og á þremur klukkutímum varð til hús, eða í það minnsta útlínur þess.

Strax við upphaf haustannar byrja nemendur á þriðju önn í húsasmíði á smíði sumarhúss með dyggri leiðsögn kennara byggingadeildar. Fyrst er voldugum dregurum komið fyrir og á þá er smíðað gólf. Einnig eru forsmíðaðir útveggir og burðarinnveggir. Að því loknu er fenginn krani til þess að draga gólfstykkið út úr húsinu og síðan eru út- og innveggir hífðir á sinn stað. Í þennan hluta verksins var ráðist sl. miðvikudag, 29. september, og til þess var fenginn kranabíll frá Nesbræðrum. Í ljós kom að gólfstykkið – ríflega 60 fermetrar að stærð – var nokkuð þyngra en ráð var fyrir gert og því þurfti tvo kranabíla til verksins. En allt hafðist þetta á endanum og í það heila náðist að ljúka þessu púsluspili á um þremur klukkutímum.

Næst liggur fyrir að koma fyrir loftbitum og loka húsinu fyrir veturinn. Síðan tekur hver verkþátturinn við af öðrum sem 21 nemandi á öðru ári og kennarar annast í sameiningu. Einnig koma við sögu nemendur í bæði rafvirkjun og pípulögnum, enda að mörgu að hyggja þegar eitt stykki sumarhús er byggt. Þetta árlega verkefni er því ekki aðeins mjög lærdómsríkt fyrir verðandi húsasmiði heldur einnig rafvirkja og pípulagningamenn framtíðarinnar.

Covid-faraldurinn setti strik í reikninginn vorið 2020. Eftir miðjan mars 2020 var hverfandi lítil verkleg kennsla vegna faraldursins og því tókst nemendum ekki að ljúka smíði sumarhússins eins og lagt var upp með. Það kom því í hlut nemenda á síðasta skólaári – 2020-2021 – að taka við keflinu og ljúka að mestu frágangi þess húss auk þess sem þeir smíðuðu tvö minni frístundahús. Það hús sem nú er að hluta risið og mun taka á sig mynd í vetur er í grunninn ekki ólíkt því húsi sem húsasmíðanemar byggðu veturinn 2019-2020, nema eilítið stærra.

Þetta nýja sumarhús er að grunnfleti tæpir sextíu fermetrar og í því eru tvö svefnherbergi, baðherbergi/þvottahús, stofa og eldhús. Svefnloft er í hluta hússins. Húsið hannaði Steinmar H. Rögnvaldsson. Eins og venja er til verður húsið boðið til kaups í vor á því byggingarstigi sem það verður við lok vorannar.

Í þessu sambandi er gaman að rifja upp sumarhúsabyggingar húsasmíðanema í VMA síðustu ár:

Haustið 2020
Haustið 2019
Haustið 2018
Haustið 2017
Haustið 2016
Haustið 2015
Haustið 2014
Haustið 2013