Fara í efni

Nemendur byggja sumarbústað

Stoltir annars árs nemar við sumarbústaðinn.
Stoltir annars árs nemar við sumarbústaðinn.

Fastur liður í námi verðandi húsasmiða í VMA er að byggja sumarbústað. Þetta verkefni er nú komið í fullan gang og það fer ekki á milli mála að nemendur njóta þess að takast á við þetta verkefni, enda er það mjög lærdómsríkt.

Sumarbústaðurinn er byggður frá grunni. Til að byrja með eru nokkrar grunneiningar bústaðarins settar saman innanhúss en síðan eru þær færðar út og settar saman. Bústaðurinn er nú þegar farinn að taka á sig mynd norðan skólahúss VMA.

Síðastliðinn vetur byggðu nemendur annan slíkan bústað. Hann var að vísu eilítið minni en bústaðurinn sem nú er í smíðum og var hann seldur til fólks á Akureyri sem hyggst koma honum fyrir austur í Suður-Þingeyjarsýslu.  „Bústaðurinn sem við erum núna að byggja er eilítið breiðari en bústaðurinn sem við byggðum sl. vetur og einnig höfum við bætt við hurð út úr stofunni. Þessi bústaður er ríflega fjörutíu fermetrar,“ segir Halldór Torfi Torfason, brautarstjóri byggingagreina.

Halldór Torfi segir að nemendur á öðru ári í húsasmíði fái það verkefni að smíða bústaðinn og enginn vafi sé á að þeir njóti þessi mjög að takast á við það. „Þetta er afar mikilvægt verkefni fyrir nemendur og mjög lærdómsríkt fyrir þá. Þeim leyfist að gera mistök og við tökum allan þann tíma í verkefnið sem við þurfum. Þeir fá þarna að glíma við marga þá þætti sem við erum að kenna þeim í bóklegum áföngum. Þetta á til dæmis við um áfanga um timburhús og fleiri áfanga sem nemendur munu taka síðar í vetur,“ segir Halldór Torfi.

Fyrir helgina voru nemendur að koma sperrunum fyrir og síðan rekur hver verkþátturinn annan.  Á síðari stigum koma nemendur í rafvirkjun inn í myndina og sjá um raflagnir í húsinu og þegar pípulagnir eru kenndar sjá nemendur í þeirri iðn um þann þátt.

Það verður sannarlega gaman að fylgjast með hvernig sumarbústaðurirnn tekur smám saman á sig mynd í vetur.