Fara í efni

Nemendur í húsasmíði byggja sumarbústað

Sumarbústaðurinn reistur sl. miðvikudag.
Sumarbústaðurinn reistur sl. miðvikudag.

Liður í námi nemenda á þriðju önn í húsasmíði í VMA er að byggja sumarbústað. Þetta hefur verið gert á hverjum vetri í mörg ár og síðan eru bústaðirnir seldir í opnu útboði. Bústaðurinn sem nemendur byggðu sl. vetur þjónar nú eigendum sínum í Lundsskógi í Fnjóskadal.

Í vetur er nemendahópurinn á þriðju önn óvenju stór eða 24 manns og er honum skipt í tvo hópa. Það má því búast við að bærilega vel gangi að vinna að smíði bústaðarins í vetur en auk húsasmíðanema koma nemendur í rafvirkjun að verkinu með raflögn.

Fyrsti hluti verksins var að smíða undirstöðugrindina, útveggi og sperrur. Sá hluti verksins var unninn inni í húsi en síðan var ráðist í annan áfanga sl. miðvikudag og bústaðurinn reistur með krana. Næsti áfangi felst í því að þekja og klæða hann að utan. Síðan verður verkinu fram haldið innan dyra.

Sumarbústaðurinn er um 50 fermetrar að grunnfleti og er smíðaður samkvæmt sömu teikningu og bústaðurinn sl. vetur.