Fara í efni

Vinkonurnar á bókasafninu

Guðrún Ösp (t.v) og Jódís Anna á bókasafninu.
Guðrún Ösp (t.v) og Jódís Anna á bókasafninu.
Bókasafn VMA er mikilvæg upplýsingaveita fyrir nemendur, þar sem þeir geta leitað sér upplýsinga um allt milli himins og jarðar. Þar er að finna handbækur, fræðibækur, blöð, tímarit og óteljandi margt annað sem nýtist nemendum í sínu námi. Einnig er þar lesstofa, þar sem nemendur fá gott næði til þess að lesa og tölvustofa þar sem nemendur geta sótt sér upplýsingar inn á veraldarvefinn.

Bókasafnið er mikilvæg upplýsingaveita fyrir nemendur, þar sem þeir geta leitað sér upplýsinga um allt milli himins og jarðar. Þar er að finna handbækur, fræðibækur, blöð, tímarit og óteljandi margt annað sem nýtist nemendum í sínu námi. Einnig er þar lesstofa, þar sem nemendur fá gott næði til þess að lesa og tölvustofa þar sem nemendur geta sótt sér upplýsingar inn á veraldarvefinn.

Vinkonurnar Guðrún Ösp Ólafsdóttir frá Akureyri og Jódís Anna Jóhannesdóttir frá Dalvík voru á bókasafninu þegar tíðindamaður heimasíðunnar leit þar við. Þær voru sammála um að gott væri að setjast niður á bókasafni skólans til þess að læra og afla sér upplýsinga.

Guðrún Ösp, sem er á öðru ári í vélstjórn, segist leita sér upplýsinga á bókasafninu til að vinna skýrslur. „Þrátt fyrir netið finnst mér bækur vera nauðsynlegar til þess að leita mér að efni. Mér finnst ekkert koma í staðinn fyrir bókina,“ segir Guðrún Ösp og bætir við að hún komi oft á bókasafnið til þess að læra.  Jódís Anna, sem er á félagsfræðabraut, segist hins vegar notast mun meira við tölvuna og ná sér í upplýsingar af netinu.

Guðrún Ösp er ein af fáum konum í karlavíginu vélstjórn. Hún þekkti ekkert til véla þegar hún ákvað að fara í það nám, en viðurkennir að hafa verið haldin bíladellu. Það hafi örugglega haft sitt að segja í því að hún valdi þessa námsbraut. „Vissulega var margt í þessu námi nýtt fyrir mér og ég þurfti mikið að hafa fyrir því að læra inn á þetta. En ég er þrjósk og hætti ekki og núna finnst mér þetta ótrúlega skemmtilegt. Ég hef ekkert annað í hyggju en að halda áfram í þessu af fullum krafti og það væri mjög gaman að fara á sjóinn og ég gæti líka alveg hugsað mér að starfa á olíuborpalli,“ segir Guðrún Ösp.

„Ég kann ágætlega við félagsfræðabrautina, en engu að síður hef ég ákveðið að breyta um og fara á sjúkraliðabrautina næsta haust. Það heillar mig að starfa sem skurðlæknir, sem þýðir að ég myndi þurfa að fara í læknisfræði í framhaldinu. Við verðum bara að sjá til hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Jódís Anna, en þær vinkonurnar þekktust ekkert þegar leiðir þeirra lágu saman í VMA. „Við erum á ólíkum námsbrautum, en reyndar situm við sama áfangann í íslensku.“

oskarthor@vma.is