Miðasala er hafin á Ronju ræningjadóttur - frumsýning 14. febrúar
Leikfélag VMA æfir nú leikritið um Ronju ræningjadóttur sem byggir á samnefndri sögu eftir Astrid Lindgren. Frumsýnt verður laugardaginn 14. febrúar kl. 14 í Gryfjunni í VMA. Leikstjóri er Pétur Guðjónsson.
Í leikritinu fylgjum við eftir ræningjadótturinni sem býr með foreldrum sínum og ræningjahópi í Matthíasarskógi. Þar kynnist hún Birki, syni Borka, annars ræningjaforingja og erkióvinar Matthíasar, og með þeim tekst djúp vinátta sem litin er hornauga af foreldrum þeirra. Saman flýja þau að heiman, hafast við í Bjarnarhelli og glíma við rassálfa, grádverga, skógarnornir og aðrar furðuverur. Grunnstefið í verkinu er vinátta og hugrekki en þó fyrst og fremst kærleikur.
Leikritið um Ronju ræningjadóttur er söngleikur sem hefur slegið í gegn hvarvetna sem það hefur verið sýnt. Tónlistin, sem er fyrirferðamikil í leikritinu, er eftir danska tónlistarmanninn Sebastian. Hér syngur Sebastian sjálfur eitt af þekktum lögum úr leikritinu.
Leikstjórinn Pétur Guðjónsson snýr nú á fornar slóðir því hann starfaði við VMA í rúman áratug, meðal annars sem viðburðastjóri, og lagði þá ómælt af mörkum til félagslífsins í skólanum. Ronja ræningjadóttir er sjötta uppfærslan hans hjá Leikfélagi VMA, áður leikstýrði hann leikritunum Tjaldinu (2013), Bjart með köflum (2016), Ávaxtakörfunni (2018) og söngleiknum Grís (2021) auk þess sem hann leikstýrði einþáttungnum Mér er fokking drullusama árið 2017.
Auk frumsýningarinnar 14. febrúar verða sýningar 15., 20., 21. og 28. febrúar. Allar sýningarnar hefjast kl. 14. Miðasala er hér.