Fara í efni

Frumsýning á Grís á föstudagskvöldið - uppselt á fyrstu tvær sýningarnar

Leikhópurinn á sviðinu í Gryfjunni. Mynd: AKH.
Leikhópurinn á sviðinu í Gryfjunni. Mynd: AKH.

Það styttist óðum í stóru stundina – frumsýningu Leikfélags VMA á söngleiknum Grís. Hún verður næstkomandi föstudagskvöld, 19. febrúar, kl. 20:00 í Gryfjunni í VMA. Þar hefur verið lyft grettistaki að undanförnu, leikhús hefur smám saman orðið til og verður ekki endanlega tilbúið fyrr en rétt fyrir frumsýningu á föstudagskvöldið.

Undirbúningur að sýningunni hófst strax sl. haust, við upphaf skólaársins. Við aðstæður sem voru aðrar en leikhópur á að venjast. Covid 19 setti auðvitað stórt strik í reikning Leikfélags VMA eins og allra annarra. Leikhópurinn gat ekki hist vikum saman og fóru æfingar lengi framan af fram með fjarfundabúnaði. Ekki beint hefðbundið æfingaferli en leikhópurinn vann hlutina af æðruleysi og lét ekki deigan síga. Frumsýning skyldi takast í febrúar eins og upphaflega var gert ráð fyrir – og það er að ganga eftir. Frumsýningin er að bresta á. Vinnutörnin að undanförnu hefur vissulega verið mjög strembin og tekið hraustlega á en þegar allir leggjast á eitt er allt hægt.

Að sýningunni kemur stór og kraftmikill hópur sem hefur lagt á sig óendanlega mikla vinnu til þess að koma hlutunum heim og saman. Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA er leikstjóri sýningarinnar. Hann hefur lagt mikið til Leikfélags VMA undanfarin ár eða frá því hann leikstýrði árið 2016 sýningunni Bjart með köflum í Freyvangi. Síðan eru liðin mörg ár, eins og segir í dægurlagatextanum, og Leikfélag VMA hefur eflst með hverju árinu. Hægri hönd Péturs við uppsetninguna á Grís er eins og oft áður Jokka Birnudóttir. Þaulæfður dúett sem hefur marga fjöruna sopið í leiklistinni.

Grís er auðvitað ekki síst þekktur fyrir tónlistina, sem sló eftirminnilega í gegn á sínum tíma og enn þann dag í dag, 43 árum eftir að kvikmyndin Grease með John Travolta og Oliviu Newton John í aðalhlutverkum var frumsýnd, er lögin úr myndinni spiluð sundur og saman út um allan heim. Tónlistarstjórn í þessari uppfærslu á Grís er í höndum Kristjáns Edelstein. Hljómsveit undir hans stjórn verður á sviðinu og spilar undir í sýningunni.

Dansatriðin í sýningunni eru stór og mikilvægur þáttur. Eva Reykjalín er danshöfundur og hefur þjálfað leikarana. Harpa Birgisdóttir, kennari í hársnyrtiiðn, hefur yfirumsjón með hárgreiðslu og förðun í sýningunni. Embla Björk og María Björk Jónsdætur, sem gegna í sameiningu formennsku í Leikfélagi VMA, hafa annast raddþjálfun leikhópsins. Jafnframt leika þær báðar í sýningunni. Útlitshönnun sýningarinnar er í höndum Önnu Birtu og Elínar Gunnarsdóttur. Karla Anna og Dóróthea Hulda hanna búninga, Dagur Þórarinsson er hljóðhönnunarmeistari sýningarinnar, Sigurður Bogi er ljósahönnuður, Anna Kristjana Helgadóttir, formaður Þórdunu, sá um leikskrána og Tumi Snær hannaði og hefur yfirumsjón með smíði leikmyndarinnar.

Á sviðinu standa sextán leikarar. Sumir þeirra búa yfir mikilli reynslu en aðrir eru nú að stíga sín fyrstu skref í leiklistinni í VMA. Og ófáir eru í hinni vösku sveit að tjaldabaki, sem hefur lagt nótt við dag við undirbúninginn og sér til þess að heildarmyndin púslist saman. Leikuppfærsla eins og Grís er risastórt samvinnuverkefni öflugs hóps nemenda og starfsmanna VMA með dyggri hjálp utanaðkomandi fagfólks.

Sem fyrr segir verður frumsýningin á Grís nk. föstudagskvöld kl. 20. Önnur sýning verður nk. laugardagskvöld. Uppselt er á báðar þessar sýningar. Næstu sýningar verða föstudagskvöldið 26. febrúar og laugardagskvöldið 27. febrúar og nú hefur verið bætt við fjölskyldusýningu sunnudaginn 28. febrúar kl. 17. Hægt er að panta miða á sýningarnar með því annað hvort að hringja í síma 7934535 milli kl. 16 og 19 virka daga eða senda tölvupóst á netfangið midasala@thorduna.is. Miðana fá sýningargestir afhenta við innganginn og greiða þar fyrir þá – hvort sem er með kortum eða peningum. Miðinn kostar 3.900 fyrir fullorðna en fyrir börn f. 2005 og yngri kostar miðinn kr. 3.400.

Hér er myndir sem Anna Kristjana Helgadóttir tók á æfingu á Grease á dögunum og hér eru myndir sem Hilmar Friðjónsson tók við sama tækifæri.

Grease var fyrst færður upp á svið árið 1971 í Chicago í Bandaríkjunum. Þessi sívinsæli söngleikur er eftir Jim Jacobs og Warren Casey og í sýningunni eru lög eftir John Farrar. Sögusviðið er hinn ímyndaði Rydell High School árið 1959 sem byggir á William Howard Taft School í Chicago. Upp úr þessum vinsæla söngleik var samnefnd kvikmynd gerð og var hún frumsýnd árið 1978. Um vinsældir hennar þarf ekki að fara mörgum orðum, hún var ósköp einfaldlega sprengja sem fyllti bíóin dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Óendanlega miklar vinsældir. Leðurjakkatöffararnir og tónlistin lifir enn góðu lífi út um allan heim.