Fara í efni

Leikfélag VMA setur upp Ávaxtakörfuna í vetur - frumsýning í febrúar

Spennandi vetur framundan hjá Leikfélagi VMA.
Spennandi vetur framundan hjá Leikfélagi VMA.

Leikfélag VMA er stórhuga og hefur ákveðið að setja upp hinn vinsæla söngleik Ávaxtakörfuna sem er byggð á samnefndri bók Kristlaugar Maríu Sigurðardóttur við tónlist Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar. Pétur Guðjónsson leikstýrir. Ávaxtakarfan verður færð upp á stóra sviðið í Menningarhúsinu Hofi og verður frumsýnd 11. Febrúar 2018.

Leikfélag VMA hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarin ár með uppfærslum á viðameiri sýningum og er Pétur Guðjónsson, leikstjóri sýningarinnar og viðburðastjóri VMA, þess fullviss að með uppfærslunni á Ávaxtakörfunni í Hofi verði stigið enn eitt skrefið fram á við.

Veturinn 2014-2015 setti Leikfélag VMA upp 101 Reykjavík, leikgerð eftir samnefndri bók Hallgríms Helgasonar, veturinn 2015-2016 setti félagið upp í Freyvangi söngleikinn Bjart með köflum eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstjórn Péturs Guðjónssonar og sl. vetur setti Leikfélag VMA upp Litlu hryllingsbúðina í leikstjórn Birnu Pétursdóttur  í Samkomuhúsinu. Einnig var síðasta vor frumsýndur einþáttungurinn Mér er fokking drullusama eftir Pétur Guðjónsson og Jokku – Jóhönnu G. Birnudóttur í Gryfjunni, í leikstjórn Péturs.

Níu hlutverk eru í Ávaxtakörfunni en Pétur segir að eftir að hafa legið yfir handritinu hafi verið ákveðið að fjölga þeim upp í fimmtán. Til viðbótar þarf að sjálfsögðu vaskan hóp fólks í öll þau verk sem þarf að vinna í kringum sýninguna. Pétur segir sérlega ánægjulegt að finna að eftir að spurðist út að Ávaxtakarfan verði sett upp í vetur hafi nemendur nú þegar komið að máli við sig og óskað eftir því að fá að taka þátt í uppfærslunni.

Þann 10. október nk. verða prufur í hlutverk í sýningunni. Þær verða kynntar nánar þegar nær dregur.

Pétur segir að þó svo að langt sé í frumsýningu á Ávaxtakörfunni muni vinna við uppfærsluna hefjast af fullum krafti núna á haustönn. Æfingar leikaranna hefjist fljótlega eftir að valið hafi verið í hlutverkin og hönnun og útfærsla búninga sé í startholunum og sé stefnt að því að þeir verði meira og minna tilbúnir í nóvember.

Framan af verður verkið æft í VMA en í lok janúar færast æfingar í Hof og sem fyrr segir verður frumsýning á Ávaxtakörfunni þar þann 11. febrúar 2018.

Pétur segir að meðganga sýningarinnar verði nokkru lengri en gengur og gerist, sem gefi möguleika á að vinna hana eins vel og nákvæmlega og mögulegt sé. „Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að með þessum langa undirbúningstíma verður kannski erfiðara að halda leikhópnum á tánum frá byrjun til enda en ég kvíði því alls ekki. Þetta verður mjög skemmtilegt verkefni,“ segir Pétur Guðjónsson og bætir við að Jokka, sem hefur unnið náið með Pétri í leiklistinni í gegnum tíðina, verður aðstoðarleikstjóri uppfærslu Leikfélags VMA á Ávaxtakörfunni og Sindri Snær Konráðsson heldur utan um raddþjálfun.