Fara í efni

Frumsýna Bjart með köflum nk. fimmtudagskvöld

Atriði úr sýningunni Bjart með köflum.
Atriði úr sýningunni Bjart með köflum.

Leikfélag VMA frumsýnir söngleikinn Bjart með köflum eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstjórn Péturs Guðjónssonar í Freyvangi í Eyjafjarðarsveit nk. fimmtudagskvöld, 25. febrúar, kl. 20:00. Um fjörutíu manns koma að sýningunni.

„Það má segja að verkið sé sveitarómans. Jakob, sem kemur úr þéttbýlinu, ræður sig á sveitabæinn Gil vegna þess að hann hefur ekki fengið neina sumarvinnu. Í ljós kemur að þar er ekkert rafmagn og heldur ekki klósett og margt á heimilinu er sérstakt. Á næsta bæ, Hvammi, er hins vegar allt annað uppi á teningnum, nógir pengingar til og allt nýmóðins. Á báðum bæjum eru stúlkur sem eru hrifnar af Jakobi og vandamálið er að hann er hrifinn af báðum en veit ekki hvora hann á að velja. Þetta er grunnurinn í söguþræðinum. Inn í verkið er fléttað tónlist frá þessum tíma, en verkið gerist í kringum 1970. Þarna má heyra þekkt lög með hljómsveitum eins og Trúbrot, Hljómum og Flowers,“ segir Pétur leikstjóri.

Pétur segir að eins og jafnan í leikuppfærslu sé mikil vinna að baki. „Við byrjuðum sl. vor að leita að leikverki til þess að setja upp og síðan komu komu upp vandkvæði með að finna verkinu húsnæði, eins og komið hefur fram. Í september var ég með leiklistarnámskeið í VMA, prufur voru í nóvember og í framhaldinu var valið í hlutverk. Frá áramótum höfum við síðan æft stíft, bæði leikinn og tónlistina. Hljómsveitin kom inn í þetta í janúar og við höfum æft þetta saman undanfarnar vikur. Við hefðum getað haft undirspilið af bandi en við vildum fara þá leið að hafa lifandi tónlist og það er vissulega meira mál en sýningin verður betri fyrir vikið. Strákarnir í hljómsveitinni hafa staðið sig af stakri prýði, mörg þessara laga eru ekki hefðbundin og því þurftu þeir að leggja mikið á sig. Það er auðvitað mikill styrkur að hafa reynslubolta eins og Leibba með þeim á trommunum og síðan hefur Baddi Ring gefið strákunum góð ráð með hljóma.“

„Þetta hefur verið mikil törn og allir þeir sem hafa tekið þátt í þessu hafa verið frábærir. Krakkarnir gera allt sem ég bið um og þeir hlusta.  Það hefur verið sérlega skemmtilegt að vinna með þeim.  Ég er sannfærður um að fólk á eftir að hafa gaman af því að koma og sjá þetta leikrit og það er það sem skiptir ölllu máli,“ segir Pétur.

Hann segir að aðeins verði sex sýningar á verkinu sem kemur til af því að Freyvangsleikhúsið þarf á húsinu að halda fyrir uppfærslu sína á Saumastofunni, sem nú er verið að æfa á fullu í leikstjórn Skúla Gautasonar. „Freyvangsleikhúsið er að ganga úr húsi fyrir okkur sem er alveg einstakt og við höfum ekki möguleika á því að vera hér lengur en til 5. mars. Það er því mikilvægt að fólk dragi það ekki að drífa sig á sýninguna hjá okkur,“ segir Pétur.

Um 40 manns koma að sýningunni. Í mörg horn er að líta þegar svo viðamikið stykki er sett á svið - fyrir utan sjálfa túlkunina á sviðinu – t.d. lýsing, hljóðvinnsla, leikmyndagerð, förðun, hárgreiðsla, sviðsvinna, tónlistarflutningur o.fl.

Eins og Pétur nefnir verða aðeins sex sýningar á Bjart með köflum. Frumsýningin verður sem fyrr segir nk. fimmtudagskvöld, 25. febrúar, og síðan verða sýningar föstudags- og laugardagskvöld, 26. og 27. febrúar, og seinni þrjár sýningarnar verða frá fimmtudegi til laugardags, 3., 4. og 5. mars. Allar sýningarnar verða í Freyvangi í Eyjafjarðarsveit og hefjast kl. 20:00.

Miðasala er komin í fullan gang í hljómdeild Eymundsson við Hafnarstræti og á vefnum Tix.is. Einnig er hægt að kaupa miða með því að hringja í síma 4611212 (símanúmer Þórdunu – nemendafélags VMA) milli kl. 17 og 19 og þá verða miðar á sýninguna seldir í löngu frímínútum í VMA.