Fara í efni

Með hendur í hári leikara

Harpa í Samkomuhúsinu. Mynd: Auðunn Níelsson.
Harpa í Samkomuhúsinu. Mynd: Auðunn Níelsson.

Leiklistarbakterían hefur ekki látið Hörpu Birgisdóttur í friði síðan hún ung að árum steig á svið í Freyvangsleikshúsinu. Hún var á sviðinu í nokkrum sýningum en færði sig síðan bak við leiktjöldin og hefur í mörg undanfarin ár verið einn af lykilhlekkjunum í útlitshönnun sýninga hjá Leikfélagi Akureyrar/Menningarfélagi Akureyrar. Nú síðast í söngleiknum Chicago, sem frá frumsýningu snemma á þessu ári hefur gengið fyrir fullu húsi í Samkomuhúsinu á Akureyri og fengið frábærar viðtökur. Síðasta sýning á Chicago verður 29. apríl nk. og því er eins gott að hafa hraðar hendur og ná sér í miða.

Dags daglega stendur Harpa vaktina sem annar tveggja fagkennara í hársnyrtiiðn í VMA. Þar er í ótal mörg horn að líta og fagmennskan er í fyrirrúmi. Skemmst er að minnast tilnefningar hársnyrtibrautar VMA til Íslensku menntaverðlaunanna 2022. En til hliðar við erilsamt starf við kennslu og önnur tilfallandi störf á hársnyrtibrautinni gefur Harpa sér tíma til þess að leggja allt sitt í að hanna útlit leiksýninga – hár og förðun. Hún segir þetta vissulega tímafrekt en hárið sé hennar áhugamál. Aðrir fari í veiði eða golf en hár, hönnun og leikhúsið sé hennar áhugamál.

„Upphaflega var ég fengin til Leikfélags Akureyrar til þess að greiða hár leikara fyrir sýningar, því á þeim tíma hafði ég lokið námi í hársnyrtiiðn. Fyrsti sýningin mín hjá LA var Óliver Twist, sem var frumsýnd um jólin 2004. Það eru því að nálgast tuttugu ár sem ég hef verið viðloða uppfærslur LA.
Á þeim tíma sem mér var boðið að taka þátt í uppfærslu Ólivers Twist rak ég mína eigin hársnyrtistofu í gamla kaupfélagsútibúinu við Hlíðargötu 11 á Akureyri. Hana kallaði ég Lokkalist. Ég lærði á hársnyrtistofunni Medullu hér á Akureyri og vann þar um tíma eftir að ég útskrifaðist vorið 2000. Ég var í þrjár annir í VMA og tók ýmis bókleg fög en til þess að læra hársnyrtiiðnina þurfti ég að fara suður í Iðnskólann í Reykjavík. Námið hóf ég átján ára gömul, haustið 1996, og lauk því um jólin 1999. Sveinspróf tók ég síðan vorið 2000.
Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri og leikstjóri sýningarinnar um Óliver Twist, hafði samband við mig og spurði hvort ég væri til í að koma í leikhúsið og sjá um greiðslu leikaranna fyrir sýningar. Mér fannst þetta strax áhugavert því mín fyrstu kynni af leikhúsvinnu voru í Freyvangsleikhúsinu í Eyjafjarðarsveit þegar ég var fjórtán ára gömul. Hjördís heitin Pálmadóttir, sem var allt í öllu í Freyvangsleikhúsinu, sá um förðun, greiddi hár leikara og saumaði búninga, tók Fanneyju dóttur sína og mig með sér í Freyvang og sýndi okkur töfraheim leikhússins. Þá stóð fyrir dyrum að setja upp Jesus Christ Superstar. Jón Ólafsson var tónlistarstjóri og Kolbrún Halldórsdóttir leikstjóri. Við Fanney fórum í söngprufur hjá Jóni og áður en við vissum af vorum við komnar upp á svið og tókum þátt í hópsenum í sýningunni. Þetta var mjög eftirminnilegur og skemmtilegur skóli og ég tók þátt í sýningum Freyvangsleikhússins í nokkur ár. Og eftir að ég fór í VMA tók ég líka þátt í uppfærslu Leikfélags VMA á Jósep og töfrajakkinn hans og minnist þess að hafa leikið á móti Ingólfi Frey Guðmundsson, iðnhönnuði. Leikhúsið náði mér því snemma og þegar þessi baktería heltekur mann einu sinni er ekki auðvelt að losna við hana.
Sem krakki hafði ég alltaf látið mig dreyma um að verða annað hvort búðarkona eða kennari. Á unglingsárunum breyttust þessi áform og þá fannst mér þrennt koma helst til greina; leikkona, listakona eða hárgreiðslukona. Eiginlega tel ég mig hafa náð þessu öllu saman. Til þess að vera góð í faginu þarf ákveðið listrænt innsæi og einnig er nauðsynlegt að vera góður leikari, að kunna að spegla fólk og geta sett sig í aðstæður þess. Síðan er ég auðvitað kennari og var búðarkona á yngri árum, vann þá oft í Leirunesti. Ég er því búin að gera allt sem mig hefur frá barnsaldri langað til að gera!“

Fyrstu árin sem Harpa kom að uppfærslum hjá Leikfélagi Akureyrar naut hún leiðsagnar fagfólks að sunnan, mest Rögnu Fossberg og Fríðu Maríu Harðardóttur. Hún segir að vinna með þessum reyndu fagkonum hafi verið sér dýrmætur skóli.
„Þetta var sannarlega skóli lífsins og hann var afar mikilvægur fyrir framhaldið. Þegar síðan María Sigurðardóttir varð leikhússtjóri LA fór hún þess á leit við mig að ég tæki að mér að stýra útlitshönnun sýninga – hári og förðun. Í auknum mæli tók ég þetta að mér og eftir að Marta Nordal varð leikhússtjóri hef ég sem listrænn stjórnandi haft yfirumsjón með þessum þætti sýninga hjá Menningarfélagi Akureyrar.
Í þessu felst mikil teymisvinna og leikstjórinn leggur línurnar með öðru fagfólki. Til dæmis má nefna að sl. vor hófst undirbúningsvinna vegna uppfærslunnar á Chicago – leikmynd, búningar, hljóð, tónlist, ljós, förðun og hárgreiðsla. Þetta þarf alltaf langan og góðan undirbúning, ekki síst vegna þess að það tekur drjúgan tíma að panta og fá í hús ýmislegt sem þarf fyrir sýningarnar. Síðastliðið sumar vorum við vissulega í sumarfríi en samt sem áður var maður alltaf svolítið með hugann við þetta og hvernig væri best að útfæra hlutina. Í byrjun september fór síðan allt á fullt og þá voru vikulegir fundir og farið yfir málin og fram á frumsýningardag, 27. janúar 2023, voru bollaleggingar um hitt og þetta og við prófuðum okkur áfram með ýmsa hluti.“

Harpa segir leikhúsvinnuna vissulega taka sinn tíma til hliðar við daglegu kennslu í VMA en í henni felist líka ákveðin afslöppun. Hárið sé hennar áhugamál og eins og með önnur áhugamál fólks snúist spurningin um að koma þessu öllu heim og saman í hinni daglegu rútínu.

Endalaust margar leiðir er hægt að fara í sviðsetningu leikrita. Í Chicago segir Harpa að Marta Nordal leikstjóri hafi ákveðið að kalla fram tíðarandann frá þeim tíma sem sagan var upphaflega skrifuð – milli 1920 og 1930. Harpa segir að það hafi þýtt að hún hafi sökkt sér í rannsóknavinnu á hártísku þessara ára í Bandaríkjunum. Einnig hafi hún lagst yfir handritið og reynt að átta sig á persónunum og út frá öllu þessu hafi verið hægt að hefjast handa við að leggja línur með leikgervi í sýningunni. Harpa segir alltaf mikla áskorun að breyta þekktu fólki í persónur í leikriti – eins og t.d. Jóhönnu Guðrúnu í Velmu og Þórdísi Björt Þorfinnsdóttur í Roxý í Chicago. Að ná að gera svo þekktar konur úr íslensku tónlistarlífi óþekkjanlegar á leiksviðinu segir Harpa vera til marks um að hönnunin og útfærsla hennar hafi gengið upp.

Harpa segist oft fara með nemendur sína á hársnyrtibrautinni í Samkomuhúsið og Hof til að kynna þeim heim leikhússins. Í sýningunni á Benedikt búálfi í fyrra í Samkomuhúsinu hafi það verið hluti af vinnustaðanámi nemenda að greiða leikara fyrir sýningar. Í tengslum við uppfærsluna á Chicago fór Harpa með nemendur í Samkomuhúsið til þess að kynna fyrir þeim hvernig hárkollur eru notaðar í sýningunni og hvernig umhirðu þær þurfi.

Þegar frumsýningin er um garð gengin hefur Harpa ekki sleppt tökunum á sýningum sem hún kemur að. Hún segist fylgjast vel með og sé, ef svo megi að orði komast, í gæðaeftirlitinu. „Í Chicago má í stórum dráttum segja að ég standi eða sé viðstödd að jafnaði 3-5 sýningar í mánuði. Mér finnst afar mikilvægt að tryggja að útlit sýningarinnar sé það sama á frumsýningu og 35. sýningu. Það má hvergi slaka á. Að jafnaði eru fjórir starfsmenn sem sjá um hárgreiðslu og förðun fyrir sýningar,“ segir Harpa.

Sýningarnar sem Harpa hefur komið að eru orðnar ansi margar og þá ekki aðeins hjá Leikfélagi Akureyrar/Menningarfélagi Akureyrar. Hún hefur einnig lagt sín lóð á vogarskálarnar hjá áhugaleikfélögum, t.d. Leikfélagi VMA.
Áður er getið um Chicago og Benedikt búálf en í fjölmörgum öðrum stórsýningum hefur Harpa lagt hönd á plóg. Sú allra stærsta segir hún að hafi verið Rocky Horror, sem var sýnt í Hofi árið 2011, og einnig nefnir hún Skugga-Svein í fyrra, Kabarett 2018-2019 og söngleikinn Vorið vaknar 2020.

En hversu lengi ætlar Harpa að halda áfram í leikhúsinu? Það er óráðin gáta, segir hún. Undanfarin fimm ár hafi hún ítrekað sagt að nú sé þetta orðið gott en engu að síður hafi hún haldið áfram. Því sé hún hætt að segja að hún sé að hætta. Staðreyndin sé sú að leikhúsið hafi einvern óútskýranlegan segul sem togi mann til sín. „Þetta er hörkuvinna, en ég sé ekki eftir einni mínútu sem í þetta hefur farið,“ segir Harpa Birgisdóttir.