Fara í efni

Hársnyrtideild VMA tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna

Verklegur tími á haustönn í hársnyrtideild VMA.
Verklegur tími á haustönn í hársnyrtideild VMA.

Á alþjóðadegi kennara í gær var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna árið 2022. Hársnyrtideild VMA er tilnefnd til verðlaunanna í flokknum Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun fyrir áhugaverða nálgun og frumkvöðlastarf í vinnustaðanámi.

Íslensku menntaverðlaunin eru veitt í fimm flokkum:

A. Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

B. Framúrskarandi kennari. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.

C. Framúrskarandi þróunarverkefni. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hafa ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.

D. Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun. Ein verðlaun veitt kennara, námsefnishöfundi, skóla- eða menntastofnun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar.

E. Hvatningarverðalun til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Hér eru allar tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2022.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrv. forseti Íslands, stofnaði til Íslensku menntaverðlaunanna og veitti þau á árunum 2005-2011, er þau lögðust af í kjölfar efnahagshrunsins. Verðlaunin voru endurreist árið 2020 og því verða verðlaunin afhent í þriðja skipti í ár.

Að Íslensku menntaverðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneyti, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Mennta­vísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Samtök iðnaðarins og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.

Í Viðurkenningaráði Íslensku menntaverðlaunanna eru:

  • Embætti forseta Íslands: Gerður Kristný Guðjónsdóttir, rithöfundur og skáld
  • Félag um menntarannsóknir: Oddný Sturludóttir, aðjúnkt við Háskóla Íslands
  • Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa: Gísli Bjarnason sviðsstjóri, Dalvíkurbyggð
  • Kennaradeild Háskólans á Akureyri og Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri: Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri
  • Kennarasamband Íslands: Ragnar Þór Pétursson, kennari
  • Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild): Ingimar Ó. Waage, lektor við listkennsludeild LHÍ
  • Mennta- og barnamálaráðuneyti: Björk Óttarsdóttir, sérfræðingur, mennta- og barnamálaráðuneytinu
  • Menntamálastofnun: Gunnhildur Harðardóttir, sérfræðingur ytra mats skóla, Menntamálastofnun
  • Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor við Háskóla Íslands
  • Samband íslenskra sveitarfélaga: Anna Ingadóttir, sérfræðingur í skólamálum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  • Innviðaráðuneytið: Ásta Þorleifsdóttir, sérfræðingur, innviðaráðuneytinu
  • Samtök áhugafólks um skólaþróun: Hafþór Guðjónsson, dósent emiritus
  • Samtök iðnaðarins: Jón B. Stefánsson, fv. Skólameistari Tækniskólans
  • Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur: Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur

Ástæða er til að vekja athygli á því að í ár er í fyrsta skipti afhent verðlaun í flokknum Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun. Þessi nýi flokkur í Íslensku menntaverðlaununum varð til að frumkvæði Samtaka iðnaðarins sem nú hafa gengið til liðs við þá aðila sem að verðlaununum standa.

Auk hársnyrtideildar VMA eru í þessum flokki tilnefnd málarabraut byggingartækniskóla Tækniskólans og átaksverkefnið Kvennastarf, en að því stendur Tækniskólinn í samstarfi við iðn- og verkmenntaskóla í landinu.

Íslensku menntaverðlaunin verða afhent í beinni útsendingu á RÚV 2. nóvember nk.