Fara í efni

Lokafundur í FING-verkefni í Stavanger

Í Stavanger í síðustu viku, fulltrúar í FING frá Færeyjum, Íslandi og Noregi. Fulltrúar frá Grænland…
Í Stavanger í síðustu viku, fulltrúar í FING frá Færeyjum, Íslandi og Noregi. Fulltrúar frá Grænlandi voru ekki í Stavanger en tóku þátt í umræðum í gegnum netið.

Lokafundur í FING-verkefninu Green Shift in Education var í síðustu viku í Stavanger í Noregi en um er að ræða samstarfsverkefni skóla í fjórum löndum, VMA er einn þeirra. Verkefnið, sem hefur notið stuðnings Nordplus – menntaáætlunar norrænu ráðherranefndarinnar, hefur lagt áherslu á sjálfbærni og grænar lausnir í orkumálum og að gera samnorræna kennsluhandbók í þessum efnum þar sem grænar lausnir eru hafðar að leiðarljósi. Hér má sjá eitt og annað um verkefnið á heimasíðu þess.

FING vísar til þátttökulandanna: F – Færeyjar/Vinnuhaskulin í Þórhöfn, I – Ísland/VMA, N – Noregur/Fagskolen Rogaland í Stavanger, G – Grænland/Arctic Technology/KTI råstofskolen í Sisimiut.

Hvert þátttökulandanna hefur verið með ákveðna áherslu í þessum grænu orkulausnum - í Sisimut er áherslan á grænar lausnir í námavinnslu, áhersla var lögð á jarðhitann hér á Íslandi, Færeyingar hafa verið í þróunarverkefni með orkugjafa eins og metanól og vetni og fleiri lausnir – t.d. vindorku - og í Stavanger hefur verið horft til fallorkunnar.

Sem fyrr voru fulltrúar VMA á fundinum í Stavanger Benedikt Barðason skólameistari, Hanna Þórey Guðmundsdóttir sem veitir bókasafni VMA forstöðu, og Sævar Páll Stefánsson kennari í málmiðn- og vélstjórnargreinum. Benedikt hefur tekið þátt í þessu FING-samstarfinu í meira en áratug eða frá upphafi þess.

Þó svo að þessu verkefni hafi lokið með fundinum í Stavanger er þar með ekki sagt að samstarfi þessara skóla sé lokið. Nýtt verkefni kann að líta dagsins ljós, það kemur í ljós í fyllingu tímans.

Í gegnum tíðina hefur oft verið fjallað um FING-verkefnið hér á heimasíðu VMA:

2013
2014
2015
2016
2019
2024