Fara í efni

Fulltrúar VMA á FING-námskeiðum

Benedikt Barðason sótti FING-námskeið í Færeyjum.
Benedikt Barðason sótti FING-námskeið í Færeyjum.

VMA er þátttakandi í norræna verkefninu FING sem hefur haft þann megintilgang að auðvelda aðgengi þátttökuskóla og almennings að þekkingu um olíu- og gasiðnaðinn. Einnig er í verkefninu, sem er styrkt fjárhagslega af NORA og Nord+, horft mjög til öryggismála. Fyrr í þessum mánuði sat Benedikt Barðason áfangastjóri fyrir hönd VMA námskeið á vegum FING í Þórshöfn í Færeyjum.

„FING“ stendur fyrir upphafsstafi aðildarlandanna að verkefninu; Færeyja, Íslands, Noregs og Grænlands. FING hefur þegar staðið fyrir nokkrum námskeiðum og var námskeiðið sem Benedikt Barðason sótti fyrr í þessum mánuði haldið í Vinnuháskúlin í Þórshöfn í Færeyjum þar sem meðal annars er skipstjórnar- og vélstjórnarnám.  Um var að ræða svokallað HSE-námskeið - sem stendur fyrir" health, safety and environment", fyrir olíu- og gasiðnaðinn. Áherslan var ekki síst á mikilvægi öryggis á vinnustað.Góð þátttaka var í námskeiðinu, um 80 manns tóku þátt og fengu allir viðurkenningarskjal. Fyrirlesari var Öystein Forsvoll, HSE-sérfræðingur frá SOTS (Stavanger Offshore Teknisk Skole).

Bendikt Barðason segir að þetta samstarf innan FING sé afar gagnlegt og margt sem komi fram á þessum námskeiðum nýtist afar vel í kennslu í VMA.

Fyrr á þessu ári, í maí sl., sóttu tveir leiðbeinendur frá hverri þáttökuþjóð einnar viku námskeið í Stavanger í Noregi í þjálfun og öryggi, m.a. við lyftur og flutning þungra hluta. Frá VMA fóru þeir Jóhann Björgvinsson og Vilhjálmur Kristjánsson vélstjórnarkennarar og er ætlunin að þeir fari utan aftur í vetur og ljúki síðari hluta námskeiðsins. Jóhann segir að margt afar athyglisvert hafi komið fram sem þeir hafi ekki hugsað út eða haft þekkingu á og ætlunin sé að miðla þessari þekkingu til nemenda í VMA, t.d. vélstjórnarnemum, sem geti nýtt sér ótal margt er lýtur að t.d. flutningi þungra hluta, bæði á landi og úti á sjó.

Sem fyrr segir er VMA fulltrú Íslands í þessu FING-verkefni.  Hinir þrír skólarnir sem taka þátt í verkefninu eru Stavanger offshore tekniske skole í Noregi, Vinnuháskulin í Þórshöfn í Færeyjum og Saanartornermik Ilinniarfik á Grænlandi.