Fara í efni

Í hjarta koníaksframleiðslu Frakka

Elís Þór Sigurðsson, framreiðslunemi.
Elís Þór Sigurðsson, framreiðslunemi.

Elís Þór Sigurðsson hefur í vetur stundað nám í 2. bekk í framreiðslu í VMA samhliða vinnu sinn sem framreiðslumaður á veitingastaðnum Rub 23 á Akureyri. Þegar honum bauðst í vetur að fara á Erasmus Mobility styrk til Frakklands var hann ekki lengi að grípa gæsina og nú er hann kominn heim, reynslunni ríkari.

Heimsókn Elísar til Frakklands varð til í framhaldi af heimsókn tíu franskra kennara í VMA í september á sl. ári. Þeir voru raunar á allt öðru sviði en framreiðslu – kenna bókmenntir, heimspeki og tungumál – en engu að síður þróuðust málin þannig að einn úr hópnum hafði tengsl inn í matvælageirann í Suður-Frakklandi og sú hugmynd varð til að greiða götu nemanda á matvælabraut VMA í nokkurra vikna starfsþjálfun og kynningu í Frakklandi. Dagný Hulda Valbergsdóttir, sem heldur utan um erlend samskipti í VMA, kynnti þessa hugmynd fyrir nemendum á matvælabraut í vetur og úr varð að Elís Þór, sem hóf nám í öðrum bekk í framreiðslu í október á sl. ári og lauk náminu í febrúar sl., sótti um að fara. Hann fór til Frakklands 30. mars og kom aftur heim í byrjun maí.

Elís Þór starfaði sem framreiðslumaður á litlum fjölskylduveitingastað í Rouillac, sem er í suðvestur hluta Frakklands, í tveggja tíma akstursfjarlægð norðan borgarinnar Bordeaux. Rouillac héraðið er rétt við bæinn Cognac og þarf þá ekki að hafa mörg orð um að þetta svæði er koníaksframleiðsluhérað Frakka, eitt af gróskumestu vínræktarhéruðum Frakka. Og það var einmitt það sem Elís Þór segist taka hvað mest út úr þessari ferð.

Fátt nýtt kom Elís á óvart í framreiðslunni á veitingastaðnum, umfram það sem hann þekkti hér heima, en eitt og annað sem hann kynntist í víngerðinni á svæðinu var framandi og afar lærdómsríkt og kveikti mikinn áhuga. Enda er það svo að fjölþætt þekking á vínum er einn af þáttum í starfi framreiðslumanna sem þarf að sækja erlendis frá ef þeir ætla að verða fullnuma í þeim fræðum.

Á veitingastaðnum í Rouillac var opið í hádeginu frá þriðjudegi til föstudags. Einnig var opið á föstudags- og laugardagskvöldum en staðurinn var lokaður á sunnu- og mánudögum.

„Þetta var mjög skemmtileg reynsla. Veitingastaðurinn var lítill og því bætti ég ekki svo mikið við þekkingu mína þar í framreiðslunni. En á móti kemur að það var eitt og annað nýtt sem maður kynnist í sambandi við franskar matarhefðir og menninguna almennt. Frönskukunnáttan var engin þegar ég fór en hún hefur lagast aðeins! Ég lærði heilan helling um koníaksgerð enda er fólkið sem ég gisti hjá framleiðendur fyrir stórt koníaksfyrirtæki. Sonur fólksins sem ég bjó hjá er vínþjónn og lærði vínfræðin í skóla í London. Við fórum til Bordeaux og til nokkurra vínframleiðenda í St. Emillion. Ég fræddist því mikið um bæði koníak- og léttvínsframleiðsluna á þessu svæði. Í það heila var þetta mjög fróðlegt og skemmtilegt sem ég er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að upplifa,“ segir Elís Þór Sigurðsson.