Fara í efni

Franskir kennarar í heimsókn

Frönsku gestirnir ásamt Dagnýju H. Valbergsdóttur.
Frönsku gestirnir ásamt Dagnýju H. Valbergsdóttur.

Í þessari viku hafa verið í heimsókn í VMA 10 franskir bókmennta-/heimspeki- og tungumálakennarar í þeim tilgangi að kynna sér kennslu og skólastarf – eru í svokallaðri starfsspeglun. Kennararnir starfa í mörgum skólum víðsvegar um Frakkland en tengjast allir sama regnhlífarskólanum í Toulouse í suðurhluta Frakklands.

Ferð Frakkanna til Íslands er styrkt af Erasmus+ styrkjakerfi ESB. Fyrst og fremst vilja Frakkarnir fá sýn á áherslu Íslendinga á móðurmáls- og bókmenntakennslu, enda þekkja þeir til ríkrar sögu- og frásagnahefðar Íslendinga og langaði til þess að kynnast henni og sjá hvernig henni væri viðhaldið í skólakerfinu. Þá eru Frakkarnir að kynna sér uppbyggingu bókasafna, m.a. fara þeir í heimsókn á Amtsbókasafnið á Akureyri. Einnig hafa þeir áhuga á að kynna sér íslenskan landbúnað og fara í því skyni í heimsókn á sveitabæ. Þá verður farið síðar í vikunni í heimsókn í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki til þess að fá kynningu á hestabrautinni sem er þar við skólann.

Hinir frönsku gestir eru í skýjunum með það sem þeir hafa upplifað á Íslandi, þeim finnst Íslendingar einstaklega hjálplegir og elskulegir í viðmóti og náttúran sé ótrúlega falleg. Jafnvel hafi ekki verið annað hægt en að hrífast af landinu þegar ekið var norður til Akureyrar sl. laugardag í hressilegu hvassviðri! Og nú þegar hafa Frakkarnir séð norðurljós á himni, sem þeim fannst mikil upplifun.