Fara í efni

Hvar er draumurinn? frumsýnd 8. apríl

Næstkomandi miðvikudag, 8. apríl, verður frumsýnd á vefsíðunni www.draumaleikhusid.is ný íslensk stuttmynd, Hvar er draumurinn, sem Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA, framleiðir í nafni Draumaleikhússins og leikstýrir. Hann á hugmyndina að sögu myndarinnar og skrifaði handritið með Jokku G. Birnudóttur og Úlfhildi Örnólfsdóttur.

Fyrst og fremst er Pétur þekktur fyrir ötult leiklistarstarf sitt, bæði í VMA og á öðrum vettvangi, en hann hefur líka lítillega fengist við gerð stuttmynda. Eina þeirra vann hann fyrir nokkrum árum með stúlkum á meðferðarheimilinu á Laugalandi í Eyjafjarðar þar sem horft var inn í dökkan heim vímuefnanotkunar og fíkla. Hugmyndina að þeirri stuttmynd vann Pétur áfram og fékk m.a. góð ráð frá m.a. Baldvini Z, Gunnari Birni Guðmundssyni og Kristjáni Kristjánssyni. Afraksturinn er Hvar er draumurinn?

Málið þróaðist áfram, handritið var mótað og síðan var ráðist í tökur árið 2015. Meðal annars koma  nemendur og kennarar í VMA við sögu í myndinni – sem leikarar eða tæknimenn-  eða komu að málum með öðrum hætti. Nefna má í því sambandi Hörpu Birgisdóttur kennara í hársnyrtiiðn, sem lagði lóð sín á vogarskálarnar í hárgreiðslu, förðun og leikmynd myndarinnar. Einnig vann Hilmar Friðjónsson að verkefninu með ýmsum hætti.

Tökustaðir myndarinnar voru m.a. á Sjúkrahúsinu á Akureyri, í VMA, Gúmmíbátaþjónustunni og í nágrenni Hólavatns í Eyjafjarðarsveit.

Hér má sjá frétt um tökur á myndinni sem birtist á vef VMA í október 2015 og hér er stutt heimildainnslag um gerð myndarinnar.

En nú er sem sagt komið að frumsýningu þessarar stuttmyndar sem er um 12 mínútna löng. Frumsýningin verður 8. apríl nk. á vef Draumaleikhússins, www.draumaleikhusid.is, sem er verið að leggja lokahönd á og verður búið að opna þegar kemur að frumsýningunni 8. apríl nk. Upphaflega stóð til að frumsýna myndina í Borgarbíói en vegna samkomubannsins er það að sjálfsögðu ekki unnt. Pétur segir að búið hafi verið að gefa út þessa dagsetningu á frumsýningu myndarinnar og ekki hafi annað komið til greina en að standa við hana. Einnig sé myndin hans framlag til þess að stytta fólki stundir í samkomubanninu.

„Ég tel að á myndina megi líta sem forvarnamynd og með því að hafa hana aðgengilega á netinu er það von mín að meðferðastofnanir og skólar sýni hana til dæmis í kennslustundum í lífsleikni. Ég tel að myndin eigi að geta velt upp ýmsum spurningum og skapað umræður og þá er tilganginum náð. Þetta gæti vissulega verið sönn saga og hugmyndina að sögupersónunum fékk ég að einhverju leyti þegar ég starfaði á meðferðarheimilinu á Laugalandi. Ég tel því að nálgunin í myndinni á þennan dimma og oft óvægna heim neyslu og fíkla sé nokkuð sönn,“ segir Pétur.

Hann segir að meðgöngutími myndarinnar hafi vissulega verið langur en það helgist fyrst og fremst af því að hún hafi verið unnin sem hliðarverkefni með mörgum öðrum verkefnum. Hann segir að langur meðgöngutími hafi að sínu mati gert myndina betri, hún hafi verið klippt mörgum sinnum og hann hafi aldrei verið fullkomlega sáttur við útkomuna. En með mörgum hjálpfúsum höndum hafi þetta að lokum púslast saman. Í því sambandi nefnir Pétur Ragnar Bollason, fyrrum nemanda í VMA, sem nýlega lauk námi í kvikmyndagerð. „Ragnar settist yfir þetta með mér og stóð varla upp fyrr en myndin var tilbúin. Hann eiginlega sparkaði myndinni út, ef svo má segja,“ segir Pétur.

Stór hópur sjálfboðaliða lagði hönd á plóg við vinnslu Hvar er draumurinn? og væri of langt mál að nefna þá alla hér en ástæða er þó til að geta Helga Steinars Helgasonar sem stýrði tökum myndarinnar og Hauks Sindra Karlssonar sem samdi og vann tónlistina. Þá unnu rokkararnir í Dimmu og Skálmöld sína útgáfu af af titillagi myndarinnar, Hvar er draumurinn?, sem Sálin hans Jóns míns flutti á sínum tíma við fádæma vinsældir.

Hvar er draumurinn? er vissulega öðruvísi en ég bjóst við þegar ég lagði af stað í þetta ævintýri en ég sendi hana frá mér sáttur og um leið fullur þakklætis fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að vinna hana með öllu því frábæra fólki sem lagði hönd á plóg af miklum áhuga og ástríðu,“segir Pétur Guðjónsson.