Fara í efni

Evrópuverkefni vekur athygli

Upptaka á viðtali við Einar Örn Ásgeirsson.
Upptaka á viðtali við Einar Örn Ásgeirsson.

Á síðasta og þessu ári hefur VMA tekið þátt í Erasmus+ Evrópuverkefninu ELECTRO ECO TEAM - Electro Technicians for a Green World. Í þessu verkefni, sem er stýrt af VMA, er meginþemað tæknilausnir þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi. Horft er til framleiðslu og endurnýtingar grænnar orku. 

Í það heila hefur verkefnið gengið mjög vel og vakið athygli. Í júní nk. efnir Landskrifstofa Erasmus+ til ráðstefnu í Reykjavík sem mun fjalla um loftslagsmál og hvernig stofnanir og samtök geti nýtt Evrópusamstarf til að stuðla að sjálfbærni. Þar verða m.a. sýnd myndbönd sem Rannís hefur verið að vinna um fjölbreytt Erasmus+ verkefni á Íslandi, þar á meðal verkefnið sem rafdeild VMA tekur þátt í. Í liðinni viku heimsóttu VMA Eva Einarsdóttir og Hjörleifur Jónsson frá Rannís til þess að taka viðtöl og afla myndefnis í kynningarmyndbandið um ECO TEAM verkefnið. Tekin voru viðtöl við Hauk Eiríksson, brautarstjóra rafdeildar, og Einar Örn Ásgeirsson, nema í rafeindavirkjun, en hann var einn fjögurra nema úr VMA sem tóku þátt í vinnusmiðju í þessu verkefni í Búdapest í Ungverjalandi í síðasta mánuði.

Auk VMA taka þátt í verkefninu fimm skólar í Evrópu: Agora Roermond - Stichting Onderwijs Midden Limburg í Hollandi, Institugo de Ensenanza Secundaria Santa Lucía á Kanaríeyjum, Solski Center í Celje í Slóveníu, Budapesti Muszaki Szakképzési Centrum Egressy Gábor Két Tanítási Nyelvu Technikum Í Ungverjalandi og Istanbul Teknik Üniversitesi Mesleki ve Teknik Anadolu Lisesi í Tyrklandi. 

Verkefnið er sett þannig upp að allar þátttökuþjóðirnar eru sóttar heim. Fyrsta heimsókn nemenda og kennara frá þátttökuskólunum var til Tyrklands í mars 2022, síðan tók VMA á móti samstarfsskólunum í maí 2022, síðan lá leiðin til Kanaríeyja sl. haust, Ungverjarnir tóku á móti samstarfsskólunum í mars sl. í Búdapest og í næsta mánuði liggur leiðin til Hollands. Síðasti liður í verkefninu verður vinnustofa í Celje í Slóveníu næsta haust.