Fara í efni

Nemendur og kennarar úr rafiðndeild VMA í Evrópuverkefni í Istanbúl

Nemendur og kennarar rafiðnbrautar VMA.
Nemendur og kennarar rafiðnbrautar VMA.

Þessa viku eru fjórir nemendur og tveir kennarar af rafiðnbraut VMA í Istanbúl í Tyrklandi til þess að taka þátt í Erasmus+ Evrópuverkefninu Electro Technicians for a Green World.

Nemendurnir fjórir eru Embla Björk Hróadóttir, Sebastían Fjeldal Berg, Egill Heiðar Hjörleifsson og Ágúst Óli Ólafsson og með þeim eru kennararnir Gísli Örn Guðmundsson og Haukur Eiríksson. Þau fóru frá Akureyri sl. laugardag og á sunnudag flugu þau til Hollandi og áfram sama dag til Istanbúl.

Um er að ræða tveggja ára verkefni og taka auk VMA þátt í því skólarnir Agora Roermond - Stichting Onderwijs Midden Limburg í Hollandi, Institugo de Ensenanza Secundaria Santa Lucía á Kanaríeyjum, Solski Center í Celje í Slóveníu, Budapesti Muszaki Szakképzési Centrum Egressy Gábor Két Tanítási Nyelvu Technikum Í Ungverjalandi og Istanbul Teknik Üniversitesi Mesleki ve Teknik Anadolu Lisesi í Tyrklandi. 

Þetta Evrópuverkefni lýtur að ýmsum tæknilausnum um orksusparnað og sjálfbærni. Í verkefnunum í Istanbúl í þessari viku er m.a. horft til tæknilausna fyrir rafbíla, snjallheimili, sjálfbærniræktun o.fl.

VMA-nemarnir fjórir vinna í hópum með kollegum sínum frá hinum þátttökuskólunum og núna í vikulokin skila hóparnir og kynna afrakstur vinnu sinnar.

Í aðdraganda ferðarinnar gerðu VMA-nemarnir kynningarmyndband um sig sjálfa og kynntu um leið VMA og Ísland.

Verkefninu var ýtt úr vör í desember sl. þegar fulltrúar skólanna hittust í Slóveníu og lögðu línur um skipulag þess til tveggja ára. Verkefnið er sett þannig upp að allar þátttökuþjóðirnar verða sóttar heim og mun VMA taka á móti fulltrúum hinna skólanna um miðjan maí – að tveimur mánuðum liðnum.