Fara í efni

Erlendu gestirnir í brúðkaupsþema

Eins og við sögðum frá hér á heimasíðunni sl. föstudag  voru fyrir helgina gestir erlendis frá í VMA vegna fundar í samstarfsverkefninu InnoVET sem skólinn tekur þátt í. Síðastliðinn föstudag var gestunum boðið til hádegisverðar í skólanum og að sjálfsögðu önnuðust nemendur í grunndeild matvælagreina matseldina og framreiðslu matarins með kennurum sínum. 
 
Þema föstudagsins var brúðkaup og var lagt á borð í salnum með það í huga - með háborði fyrir brúðhjón og foreldra þeirra, eins og gengur og gerist í brúðkaupsveislum. Það þýddi að par í hópi hinna erlendu gesta var að sjálfsögðu sjálfkrafa útnefnt brúðarpar og foreldrar þeirra voru útnefndir á staðnum!
 
Nemendur stóðu sig með miklum ágætum og báru dýrindis máltíð á borð fyrir gestina; laxarétt með eggjahræru og salati í forrétt, ofnsteiktan grísakamb með gratíneruðum kartöflum og madeirasósu í aðalrétt og brúðkaupstertur í eftirrétt.