Fara í efni

Fundað í VMA í verkefninu InnoVET

Þátttakendur í InnoVET í upphafi fundar í VMA.
Þátttakendur í InnoVET í upphafi fundar í VMA.

Eitt af þeim erlendu samstarfsverkefnum sem VMA tekur þátt í á þessu skólaári heitir InnoVET eða Innovative VET Devices in Rural Areas – á íslensku „Dreifbýli og verklegt nám“. Verkefnið, sem er styrkt af Erasmus, hófst sl. haust. Markmið með því er að skoða hlutverk starfsnáms og starfsnámskerfis í umræðu og stefnumörkun um byggð í dreifbýli. Í verkefninu er áhersla lögð á að þróa aðferðir í því skyni að styrkja dreifbýl svæði og er þá horft sérstaklega til starfsmennta- og starfsþjálfunarkerfa. Fulltrúar VMA í þessu verkefni eru Hildur Friðriksdóttir og Jóhannes Árnason.

Dagana 8.-10. mars er þriði fundurinn í verkefninu hér í VMA en það hófst í október á liðnu ári í Brussel og annar fundurinn var í nóvember í Figeac í Suður-Frakklandi. Alls eru sjö fundir áætlaðir í verkefninu.

Samstarfsaðilar VMA í InnoVET eru frá Frakklandi, Belgíu, Rúmeníu, Slóveníu, Litháen og Reunion-eyju í Indlandshafi og eru flestir þeirra frá skólum eða stofnunum sem halda úti einhvers konar starfsnámi eða starfsþjálfunarkerfum. Einnig taka þátt í verkefninu samtök sem sinna frumkvöðla- eða nýsköpunarstarfi. 

Þessi samráðsfundur í verkefninu hófst í gærmorgun í VMA og síðan fóru þátttakendur um VMA og kynntu sér starfsemi skólans. Meðal annars var litið inn í FAB-Lab Akureyri, sem er til húsa í skólanum. Síðdegis í gær lá leið þátttakenda í verkefninu norður í Fjallabyggð, þar sem m.a. var farið í heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga í Ólafsfirði. Í dag verður m.a. málstofa í VMA þar sem Akureyrarstofa, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri kynna atvinnulíf á svæðinu og þær áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir í atvinnulegu tilliti.