Fara í efni

Í þriggja vikna starfsnámi í Randers

Alexandra Líf starfar á Plejecentret Solbakken.
Alexandra Líf starfar á Plejecentret Solbakken.

Til fjölda ára hefur verið mjög farsælt samstarf milli VMA og Randers Social- og Sunhedsskolen á Jótlandi í Danmörku (SOSU). Liður í þessu samstarfi er að SOSU greiðir götu nemenda á sjúkraliðabraut VMA í þriggja vikna starfsnámi á heilbrigðisstofnunum í Randers og VMA hefur að sama skapi greitt götu nemenda frá Randers í starfsnámi á Akureyri. Þetta er mikilvægur þáttur í því að víkka út sjóndeildarhring nemenda beggja skóla og að þeir takist á við hina daglegu vinnu í öðru málumhverfi en þeir eru vanir.

Þessa dagana eru tveir nemendur á sjúkraliðabraut VMA, Alexandra Líf Ingvadóttir og Berglind Anna Erlendsdóttir, í verknámi í Randers og verða þær ytra í þrjár vikur, þessa viku og næstu tvær. Alexandra Líf starfar á Plejecentret Solbakken, sem er hjúkrunar-/öldrunarheimili, en Berglind Anna vinnur á Ældrecentre Område Nord, sem hefur á sinni könnu heimaþjónustu fyrir aldraða í norðurhluta sveitarfélagsins Randers.

Á haustönn 2022 voru á Akureyri fjórir sjúkraliðanemar frá Randers Social- og Sunhedsskolen í starfsnámi. Einn nemanna var í ágúst og september á Kristnesspítala (endurhæfingar- og öldrunarlækningadeildir Sjúkrahússins á Akureyri) og hinir þrír nemendurnir voru í fimm vikna starfsnámi á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri. Á haustönn voru einnig í starfsnámi á Akureyri tveir sjúkraliðanemar frá Herning á Jótlandi í Danmörku, sem störfuðu á öldrunarheimilinu Lögmannshlíð, og einn leikskólaliðanemi sem starfaði á leikskólanum Klöppum. Þá var einn ferðaþjónustunemandi frá skólanum Salpaus í Lahti í Finnlandi, sem VMA hefur einnig lengi átt gott samstarf við, í starfsnámi í september og október sl. hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu á Akureyri.

Núna í febrúar er gert ráð fyrir að tveir leikskólaliðanemar frá Randers verði í starfsnámi á leikskólunum Kiðagili og Iðavelli á Akureyri.

Það sem gerir fjárhagslega kleift að nemendur frá VMA fari í starfsnám út fyrir landsteinana og að sama skapi að nemendur komi til Akureyrar í starfsnám frá bæði Danmörku og Finnlandi eru styrkir frá Erasmus +, styrkjaáætlun Evrópusambandsins fyrir mennta-, æskulýðs og íþróttamál.

Sem fyrr segir á samstarf VMA um starfsnám nemenda við skóla í  Danmörku og Finnlandi sér langa sögu. Eins og í svo mörgu öðru setti kóvid strik í reikninginn 2021 og 2022 en nokkrum vikum áður en faraldurinn skall á í mars 2020 voru tveir nemendur úr VMA í starfsnámi í Randers.

Þegar farið er lengra aftur í tímann má fræðast um eitt og annað í þessum efnum hér á heimasíðunni.

Árið 2014 komu góðir gestir frá Randers Social- og Sunhedsskole til þess að kynna sér starfið í VMA og einnig voru heimsóttir þeir vinnustaðir þar sem nemendur frá skólanum höfðu verið í starfsnámi – þ.e. dvalarheimilin á Akureyri og Kristnes.

Árið 2013 og 2015 var sagt frá verknámi nemenda af sjúkraliðabraut í Lahti í Finnlandi og Randers í Danmörku.

Árið 2016 komu aftur í heimsókn til Akureyrar fulltrúar deilda Randers Social- og Sunhedsskole í Randers og Grenå á Jótlandi.