Fara í efni

Sjúkraliðanemar í verknámi í Randers og Lahti

Kolbrún, Bergþóra og Sunna í Randers.
Kolbrún, Bergþóra og Sunna í Randers.

Hluti af námi verðandi sjúkraliða í VMA er starfsnám, fyrst og fremst hér á landi en einnig hefur komist á gott samstarf við stofnanir í annars vegar Randers í Danmörku og hins vegar Lahti í Finnlandi sem þýðir að þangað fara alltaf nokkrir sjúkraliðanemar í verknám og á móti koma hingað verknemar frá skólum í þessum borgum. Núna eru fjórir sjúkraliðanemar í þriggja vikna verknámi utan landssteinanna, þrír í Randers og einn í Lahti.

María Albína Tryggvadóttir, brautarstjóri sjúkraliðabrautar VMA, segir það vera mikilvæga innistæðu í reynslubanka nemenda að fara í verknám út fyrir landssteinana og kynnast hvernig staðið sé að málum í heilbrigðiskerfinu þar í samanburði við hér heima.

Í Randers eru þær Kolbrún Svansdóttir, Bergþóra Heiðbjört Bergþórsdóttir og Sunna Líf Jóhannsdóttir og starfa þær á jafn mörgum öldrunarstofnunum. Reginn Unason er hins vegar i verknámi á Lahti City Hospital.  „Það er svo sem ekki komin mikil reynsla á þetta  enda hef ég ekki verið marga daga í Lahti, en til þessa hefur þetta verið  æðislegt. Allir sem vinna á deildinni og skjólstæðingarnir á deildinni eru yndislegt fólk sem reyna allt sem þau geta til að gera dvöl mína sem besta,“ segir Reginn.

Bergþóra hefur sömu sögu að segja frá þeim stöllum í Randers: „Þetta er frábær upplifun! Maður lærir að vera sjálfstæðari og við höfum allar farið út fyrir þægindarammann og þurft að bjarga okkur á erlendum tungumálum, bæði ensku og dönsku. Það þýðir ekkert fyrir okkur að vera feimnar hér því þá myndum við ekkert komast neitt áfram. Við þurfum að spyrja mikið til vegar þar sem við rötum lítið sem ekkert hérna, en til þessa höfum við þó alltaf komist á leiðarenda.“

Reginn er ekki bjartsýnn á að hann nái að læra finnskuna á þeim þremur vikum sem hann dvelur í Lahti. „Ég sé ekki fram á að geta lært þetta tungumál á þremur vikum því það er algjörlega frábrugðið öllu öðru sem ég hef heyrt áður. Ég nota enskuna þegar ég er að tala við yngra fólkið. Og þessa litlu sænsku/dönsku sem ég kann tala ég við eldra fólkið sem er á deildinni þar sem ég er að læra. En Finnar eru allir að vilja gerðir til að hjálpa manni að skilja sig, Eldra fólkið reynir að tala ensku og flestir tala sænsku hægt til að ég eigi frekar möguleika á að skilja. Þetta bjargast allt saman.“

Reginn og Bergþóra eru sammála um að það sé frábært fyrir sjúkraliðanema í VMA að fá tækifæri til að fara í verknám í öðrum löndum.  „Já, ég tel að þetta sé frábært tækifæri til að sjá hvernig fagfólk innan heilbrigðisgeirans vinnur í öðru landi og geta borið það saman við hvernig við vinnum í þessum geira heima en ég hef bæði unnið á Hlíð og klárað verknám á Sjúkrahúsinu á Akureyri,“ segir Reginn.  
„Ég tel mikilvægt fyrir okkur að eiga þess kost að fara erlendis í verknám vegna þess að ég tel að það sé mikilvægt að við fáum að sjá og upplifa muninn á íslenskum öldrunarheimilum og öldrunarheimilum erlendis. Ég tel að munurinn felist m.a. í mismunandi áherslum og aðferðum, auk þess sem við þurfum að nota meiri tjáskipti án orða hér, sérstaklega þegar við eigum í samskiptum við íbúa öldrunarheimilanna, þar sem þeir heyra margir illa og eiga því erfiðara með að skilja okkur, enda tölum við ekki fullkomna dönsku. Það er margt sem við getum lært hér og við verðum klárlega reynslunni ríkari þegar við komum heim,“ segir Bergþóra.

Reginn starfar á endurhæfingardeild á The Lahti City Hospital þar sem fólk kemur í endurhæfingu eftir annað hvort aðgerðir eða slys. Núna segir Reginn að eingöngu sér þar eldra fólk sem hafi slasað sig heima við eða þurft að fara í aðgerðir. Hann segir að yngra fólk komi einnig inn á deildina. „Mitt verknám snýst um að fylgjast með hvernig hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar vinna í umönnun og um leið endurhæfingu skjólstæðinganna sem eru á deildinni og taka þátt í þeirra umönnun og endurhæfingu,“ segir Reginn.
„Við erum allar með leiðbeinendur og fyrstu dagana fylgdumst við með þeim til að sjá hvernig hvernig þetta allt gengi fyrir sig. Nú fáum við að prófa sífellt fleiri hluti með hverjum deginum sem líður,“ segir Bergþóra og bætir við: „Við störfum á þremur öldrunarheimilum en búum saman á gistiheimili hér í Randers. Við erum tvær saman í herbergi og svo er sú þriðja í sér herbergi. Við kaupum svo inn saman og eldum okkur mat í sameiginlegu eldhúsi þar sem er ágæt eldunaraðstaða. Heimilin sem við erum á eru öll misjöfn bæði að stærð og gerð.“

Eins og vænta mátti er töluvert kalt í Lahti þessa dagana, frostið hefur farið niður í 20 stig en Reginn segir að þessu mikla frosti megi venjast. Í Randers er veðrið með öðrum hætti. Þar fer lítið fyrir snjónum og frostinu en Bergþóra segir að í staðinn hafi verið alveg nóg af roki og rigningu, það sem af er.