Fara í efni

Góðir gestir frá Randers og Grenå

Heidi, Rikke, Lotte og Birthe frá Grenå og Randers
Heidi, Rikke, Lotte og Birthe frá Grenå og Randers

Undanfarin ár hefur verið farsælt og gott samstarf á milli VMA og Randers Social- og Sundhedsskole í Danmörku sem hefur ekki síst falist í því að sjúkraliðanemar í VMA hafa dvalið í nokkrar vikur í vinnustaðanámi í Randers og nemendur frá Randers hafa komið til Akureyrar í sama tilgangi, m.a. unnið og kynnt sér starfsemina á Dvalarheimilinu Hlíð. Þessa viku eru í heimsókn á Akureyri fjórar konur frá Randers Social- og Sundhedsskole til þess bæði að kynna sér starfsemi VMA og einnig umönnunarstofnana á Akureyri. Þetta eru Lotte Roed Laursen og Birthe Söndergaard frá Randers og Heidi Svendsen og Rikke Læssöe Schmidt í Grenå.

Heidi Svendsen segir að Randers Social- og Sundhedsskole sé frábrugðinn VMA að því leyti m.a. að hann sé ekki undir sama þaki eins og VMA, bæði séu deildir skólans í Randers og Grenå – þarna eru um sextíu kílómetrar á milli.

„Nokkrir nemendur frá okkur hafa valið að koma hingað í starfsnám og sá tími er mismunandi, allt frá fimm vikum upp í þrjá mánuði. Þegar síðan nemendurnir koma heim segja þeir frá sinni reynslu og skrifa skýrslu um dvölina. Þetta hefur verið mjög lærdómsríkt og gott fyrir nemendur,“ segir Heidi Svendsen. „Mér sýnist að meginmunurinn á sjúkraliðanáminu hér og Randers og Grenå sé fyrst og fremst fólginn í því að hjá okkur er meiri áhersla á verklega þáttinn. Nemendur hjá okkur hefja námið í fjórar vikur í verklegu námi, síðan koma þeir inn í skólann í 26 vikur, fara aftur út á vinnustaði í 26 vikur, setjast aftur á skólabekk í 26 vikur, fara aftur út á vinnustaði í  26 vikur og að þessum tíma loknum koma nemendur inn í skólann og taka lokapróf. Námið tekur í það heila sem næst tveimur og hálfu ári og af þeim tíma liðnum eru nemendur í vinnustaðanámi í um eitt ár,“ segir Heidi.

Randers Social- og Sundhedsskole menntar ekki aðeins sjúkraliða heldur einnig aðstoðarfólk á leikskólum og því fara nemendur í vinnustaðanám á leikskóla. Að stærð er skólinn í Randers, sem einnig er með áherslur á ýmislegt annað en umönnunarstörf, ekki ósvipaður að stærð og VMA, með um 130 starfsmenn og sem næst þúsund nemendur.

Heidi segir að meginástæðan fyrir heimsókn þeirra núna sé sú að ætlunin sé að taka upp ekki ósvipað fyrirkomulag í Randers og er og hefur lengi verið í VMA, að nemendur geti til viðbótar við starfsnám sitt sem sjúkraliðar einnig tekið stúdentspróf. „Við stefnum á að byrja í haust að bjóða upp á þessa viðbót og við vildum kynna okkur hver reynslan er af þessu fyrirkomulagi hér,“ segir Heidi Svendsen.