Fara í efni

Vorhlaup VMA og MA í næstu viku

Í næstu viku, nánar tiltekið fimmtudaginn 16. apríl kl. 17.30, verður blásið til vorhlaups framhaldsskólanna á Akureyri VMA/MA. Tvær vegalengdir verða í boði – annars vegar 5 km og hins vegar 10 km og verður hlaupið frá Menningarhúsinu Hofi í mældum og viðurkenndum brautum Akureyrarhlaupsins/UFA, sem er forsenda þess að hlaupið fáist viðurkennt á afrekaskrá. Yfirdómari verður Gísli Sigurðsson, frjálsíþróttaþjálfari hjá UFA.

Keppt verður í þremur flokkum; 15 ára og yngri, framhaldsskólanemendur og loks verður keppt í opnum flokki. Skráning í opnum flokki er komin í fullan gang á hlaupasíðunni www.hlaup.is og þar er einnig hægt að skrá í flokk 15 ára og yngri. Nemendur í VMA og MA geta skráð sig á skrifstofum skólanna og þar fá þeir afhent númer í hlaupið gegn 500 króna skráningargjaldi.  Grunnskólanemar, 15 ára og yngri, geta einnig skráð sig á skrifstofum framhaldsskólanna og fengið þar númer gegn 500 króna skráningargjaldi. Í opnum flokki er skráningargjaldið 1500 krónur.

Anna Berglind Pálmadóttir, kennari við VMA, hefur ásamt fleirum unnið að undirbúningi þessa vorhlaups VMA og MA. Hún segir að hlaupið sé liður í heilsueflingu framhaldsskólanema en ekki síður sé það mikilvægur þáttur í því að gera skólana sýnilegri út á við. „Við lítum ekki síst á þetta sem skemmtilegt samfélagsverkefni og því ákváðum við að hafa hlaupið opið fyrir alla, jafnt nemendur framhaldsskólanna á Akureyri sem aðra,“ segir Anna Berglind.

Síðastliðið haust fór hópur nemenda og starfsmanna úr VMA suður yfir heiðar og tók þátt í árlegu Flensborgarhlaupi sem Anna Berglind segir að hafi verið bráðskemmtilegt og það sé ákveðin fyrirmynd að vorhlaupinu í næstu viku.

Þess má geta að á næstu haustönn verður boðið upp á skokkhóp sem einnar einingar íþróttavalgrein í VMA, en langt er um liðið síðan slíkur áfangi hefur verið í boði í skólanum. Síðan er að sjálfsögðu stefnt á þátttöku á nýjan leik í Flensborgarhlaupinu í Hafnarfirði í september. Anna Berglind segir ánægjulegt að til þess að endurgjalda heimsókn VMA-inga suður sl. haust stefni Flensborgarar á þátttöku í vorhlaupinu í næstu viku.