Fara í efni

VMA þátttakandi í áhugaverðu Nordplus-verkefni

Þátttakendur í verkefninu í VMA í gær.
Þátttakendur í verkefninu í VMA í gær.

VMA er fyrir Íslands hönd þátttakandi í áhugaverðu verkefni fjögurra Norðurlanda, auk Íslands eru það Svíþjóð, Danmörk og Finnland. Einnig eru fulltrúar frá Eistlandi og Litháen í verkefninu, þar sem frá ýmsum hliðum er fjallað um margbreytileika samfélagsins í þessum löndum. Á ensku hefur verkefnið, sem er styrkt af Nordplus, yfirskriftina „Promote tolerance-celebrate diversity“. Þátttakendur – bæði nemendur og kennarar – munu hittast í öllum löndunum sex í vetur og stendur fyrsti samráðsfundurinn eða ráðstefnan nú yfir í VMA. Hópurinn kom saman í VMA í gær, í dag fara hinir erlendu gestir í skoðunarferð austur að Goðafossi og í Mývatnssveit og á morgun hittast þátttakendurnir aftur í VMA og ljúka þessum fyrsta hluta verkefnisins.

Af hálfu VMA taka þátt í verkefninu nemendur og kennarar á viðskipta- og hagfræðibraut. Í hverri ráðstefnu taka þátt þrír nemendur frá hverju landi, auk kennara. Að sögn Katrínar Harðardóttur kennara liggur fyrir að í vetur fara nemendur af viðskipta- og hagfræðibraut í fimm ferðir út fyrir landssteinana, til þess að heimsækja áðurnefnd fimm lönd. Nemendum á brautinni verður skipt niður á þessar ferðir þannig að í það heila koma átján nemendur til með að taka þátt í verkefninu fyrir hönd VMA.

Í hverju landi er ákveðinn rauður þráður í því sem fjallað er um. Að þessu sinni er fjallað um kynhneigð fólks frá ýmsum hliðum. Yfirskriftin á ensku er „Gender og sexuality in society“. Sigrún Sveinbjörnsdóttir, sálfræðingur, flutti í gær m.a. áhugavert erindi um þetta málefni og það gerði líka transmaðurinn Henrý Steinn, nemandi í VMA.

Hér eru upplýsingar á Facebook um þetta áhugaverða samstarf landanna sex og hér er sömuleiðis vefsíða um verkefnið.