Fara í efni

VMA-kennarar í BlendVET verkefni í Slóveníu

Vel tókst til í verkefnavinnunni í Slóveníu.
Vel tókst til í verkefnavinnunni í Slóveníu.

VMA tekur þátt í þriggja ára nýsköpunar- og þróunarverkefni sem nefnist BlendVET. Af Íslands hálfu tekur Háskólinn á Akureyri einnig þátt í verkefninu en einnig eru þátttakendur skólar í Slóveníu og Noregi. Verkefninu er stýrt frá Slóveníu og þar í landi er það á hendi stofnunarinnar CPI sem er á forræði menntamálayfirvalda í Slóveníu og hefur skipulagningu og þróun verk- og starfsnáms á sinni könnu. Uppbyggingarsjóður EES – Evrópska efnahagssvæðisins (áður Þróunarsjóður EFTA) fjármagnar þetta víðfeðma verkefni. Á síðasta ári hittust fulltrúar þátttökulandanna í Noregi og báru saman bækur sínar og í liðinni viku hittist hópurinn aftur í Slóveníu. Að ári liðnu verður punkturinn settur yfir i-ið í verkefninu þegar hinir norsku og slóvensku þátttakendur í verkefninu heimsækja VMA.
Af hálfu VMA taka þátt í verkefninu sex kennarar – Jóhann H. Þorsteinsson og Helgi Valur Harðarson kennarar í byggingadeild, Borghildur Ína Sölvadóttir og Helga Björg Jónasardóttir kennarar á listnáms- og hönnunarbraut og Hildur Salína Ævarsdóttir og Harpa Birgisdóttir kennarar í hársnyrtiiðn.

„Með heimsókninni til Slóveníu í síðustu viku lukum við öðru af þremur árum í verkefninu,“ segir Jóhann Þorsteinsson, verkefnastjóri VMA í BlendVET.
„Verkefninu lýkur með heimsókn kennara frá Noregi og Slóveníu hingað til Akureyrar í apríl á næsta ári. Yfirskrift þess, BlendVET, stendur fyrir Blended learning in vocational education and training. Blended learning merkir í þessu sambandi blandað nám eða dreifnám sem nær í raun yfir allt nám sem er skipulagt með þeim hætti að tölvutækni geri nemendum kleift að vinna að námi sínu að einhverju leyti utan kennslustunda og á eigin hraða. Myndbönd, kennsluvefir eða gagnvirkar æfingar eru hluti af þessu og allt stuðlar þetta að því að auka sjálfstæði nemenda og bæta aðgengi þeirra að námsefni. Sérstaklega er þetta mikilvægt í verk- og listnámi því miðlun þekkingar í verklegum greinum hefur verið háð hinu gamla módeli þar sem kennari og nemandi eru saman í tíma og þar fer verkleg þjálfun fram. Blandað nám eða dreifnám mun vissulega ekki leysa þetta gamla módel af hólmi en það getur hins vegar aukið gæði námsins og opnað ýmsa nýja möguleika,“ segir Jóhann.

Í BlendVET taka þátt sex verknámsskólar og einn háskóli í Slóveníu, tveir verknámsskólar og einn háskóli í Noregi og sem fyrr segir eru VMA og HA (Endurmenntun HA og kennslu- og upplýsingatæknisvið skólans) fulltrúar Íslands.

„Við  kennararnir sex í VMA höfum tekið þátt í verkefninu frá upphafi og einnig hafa aðkomu að því stjórnendur skólans og Dagný, verkefnastjóri erlendra samskipta. Sem hluti af verkefninu höfum við Helgi Valur brautarstjóri í byggingadeild hannað þrívíddarmódel af húsnæði deildarinnar sem gerir nemendum kleift að skoða veflæg kennslumyndbönd og verkefnalýsingar og leysa verkefni inn í módelinu. Með þessu viljum við auka aðgengi nemenda að upplýsingum og kennslu auk þess sem þeir geta þegar þeir kjósa skoðað vélbúnað deildarinnar og fest betur í minni fjölmörg atriði sem auka sjálfstæði þeirra og öryggi í vinnu með flókinn vélbúnað. Með því að fara inn á þetta þrívíddarmódel í tölvunni eða símanum eru nemendur komnir inn í húsnæði byggingadeildar og geta skoðað það aftur og aftur. Þar er að finna tengingar við verkefnalýsingar, myndbönd, leiðbeiningar við notkun vélanna, upplýsingar um byggingarefni, teikningar af sumarhúsinu okkar o.s.frv.  Staðreyndin er sú að fyrir sextán ára gamlan nýnema sem kemur hingað inn getur þetta umhverfi, með allar þessar stóru og flóknu vélar, verið nokkuð ógnvænlegt. Ekki aðeins geta nemendur nýtt sér þetta módel meðan á náminu stendur heldur hafa þeir áfram aðgang að því á netinu eftir að námi lýkur og geta þannig rifjað hlutina upp. Það tel ég að sé nemendum mikils virði.

Í hársnyrtiiðninni hafa Hildur Salína og Harpa m.a. unnið myndbönd fyrir nemendur sína um formblástur herra og bylgublástur, Borghildur Ína hefur gert skýringarmyndbönd fyrir nemendur – gagnvirkar æfingar og rafræna ferilbók - um notkun á vefstól og vefnað og Helga Björg hefur gert myndbönd sem leiðir nemendur áfram í fyrstu skrefunum í Fab Lab – laserskurði og hönnun í Inkscape. Í öllum þessum myndböndum er námið flutt inn á heimili nemenda, þeim gefst kostur á að bæta við þekkingu sína með því að horfa á myndböndina utan kennslustofunnar.“  

Jóhann segir að í þessu verkefni felist frábært tækifæri til starfsþróunar og horft sé til þess að nýta tæknina með öðrum hætti í kennslu í verk- og listnámi en hafi verið gert. Hann segir að verkefninu megi skipta upp í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi „School Strategy“, sem sé leiðbeinandi umgjörð um hvernig unnt sé að innleiða þessa starfshætti í skólunum. Í öðru lagi er kennslufræðin og þriðji þátturinn eru tæknilausnirnar – hvernig sé hægt að miðla, gera myndbönd, deila þeim til nemenda, gera myndefnið gagnvirkt (t.d. hp5-myndbönd) o.fl.

„Við höfum sett ákveðin atriði inn í þá stefnu sem við erum að vinna með – varðandi þá þætti sem við sem kennarar þurfum að efla til þess að vera betur í stakk búnir að kenna á 21. öldinni og nýta okkur þá tækni sem er í boði. Í þessari stefnu höfum við einnig sett inn ákveðin viðmið um þá ímynd sem við viljum að skólinn hafi út á við gagnvart nemendum, hann sé eftirsóknarverður fyrir nemendur enda vilji hann vera framsækinn og nýta tæknina til gagns.
Verknámsskólarnir í þessu verkefni prófa ýmsar tæknilausnir með nemendum en háskólarnir sjá um gerð og uppsetningu kannana sem lagðar eru fyrir nemendur fyrir og eftir að hafa nýtt sér tæknilausnirnar. Nemendur eru spurðir um upplifun þeirra af þessum lausnum, hvort þær gagnist þeim og auðveldi þeim að ná árangri í námi.“

Jóhann segir að BlendVET sé dæmi um afar gagnlegt verkefni fyrir alla þá sem taki þátt. Sameiginlegt markmið sé að efla kennsluna, finna nýjar leiðir til þess að bæta námið og efla með hag nemenda og skólasamfélagsins að leiðarljósi. Samfélagsbreytingarnar séu svo hraðar að kennarar þurfi að hafa sig alla við til að fylgja þeim eftir. Kennsluhættir og þróun námsins verði að geta fylgt samfélagsbreytingunum.

Sem fyrr segir hittast fulltrúar þátttökuskólanna þrisvar – einu sinni í hverju þátttökulandi - en þess á milli eru reglulegir veffundir – nánast vikulega - þar sem kennararnir bera saman bækur sínar. Einnig funda verkefnastjórarnir reglulega og fara yfir málin. Unnar eru skýrslur um stöðu verkefnisins á sex mánaða fresti og um gerð þeirra af hálfu VMA sér Jóhann verkefnastjóri.