Fara í efni

Virkjum hæfileikana - alla hæfileikana

"Virkjum hæfileikana" kynnt í VMA.

"Virkjum hæfileikana, alla hæfileikana" er átak sem ætlað er að auka vitund almennings um styrkleika fatlaðs fólks. Verkefninu var ýtt úr vör í febrúar sl. þegar forstjóri Vinnumálastofnunar kynnti það með bréfi til valdra opinberra stofnana og allra sveitarfélaga landsins. Þessa dagana eru fulltrúar Vinnumálastofnunar, Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar á faraldsfæti á Norðurlandi í því skyni að kynna þetta verkefni og meðal annars var VMA sóttur heim sl. þriðjudag.

Með þátttöku í "Virkjum hæfileikana, alla hæfileikana"  geta opinberar stofnanir og sveitarfélög ráðið til sín einstaklinga með skerta starfsgetu með stuðningi ráðgjafa Vinnumálastofnunar og vinnusamningi öryrkja. Með gerð slíkra samninga fá launagreiðendur endurgreiðslu að hluta af  launum og launatengdum gjöldum.                           

  • Samningurinn er þríhliða milli atvinnurekanda, starfsmanns og Tryggingastofnunar.
  • Hámarksendurgreiðsla af launum og launatengdum gjöldum er 75% í tvö ár og lækkar síðan um 10% á ári þar til 25% endurgreiðslu er náð.  Þá er endurgreiðsluhlutfallið ótímabundið.
  • Ráðningarfyrirkomulag er eins og almennt gerist og er vinnusamningur öryrkja ótengdur ráðningarsamningi.

Sem fyrr segir heimsóttu fulltrúar Vinnumálastofnunar, Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar VMA í vikunni og þá var meðfylgjandi mynd tekin. Á myndinni eru frá vinstri: Hulda Steingrímsdóttir, Elma Berglind Stefánsdóttir, Hjalti Jón Sveinsson og Soffía Gísladóttir.