Fara í efni

Viltu taka þátt í norrænni menningarhátíð?

Sannarlega spennandi menningarhátíð næsta sumar!
Sannarlega spennandi menningarhátíð næsta sumar!
Ungu fólki á aldrinum 14 til 17 ára gefst kostur á að sækja um að taka þátt í viðamikilli norrænni menningarhátíð sem verður haldin næsta sumar á Norðurlöndunum. Umsóknarfrestur er til 20. nóvember nk. Liður í hátíðinni verður vinnustofa í sjónlistum sem hefur aðsetur sitt í VMA dagana 20. til 22. júlí 2014.

Ungu fólki á aldrinum 14 til 17 ára gefst kostur á að sækja um að taka þátt í viðamikilli norrænni menningarhátíð sem verður haldin næsta sumar á Norðurlöndunum. Umsóknarfrestur er til 20. nóvember nk. Liður í hátíðinni verður vinnustofa í sjónlistum sem hefur aðsetur sitt í VMA dagana 20. til 22. júlí 2014 og þannig tengist VMA verkefninu auk þess sem einn af kennurum listnámsbrautar skólans stýrir vinnusmiðjunni á Akureyri.

Þessi viðamikla menningarhátíð byggir á fimm listgreinum;  dansi, sjónlist, leiklist, sirkus og tónlist. Verksmiðjan á Hjalteyri verður miðpunktur sjónlistaverkefnisins 20.-22. júlí 2014 hér nyrðra, undir stjórn eins af kennurum listnámsbrautar VMA, en hópurinn kemur til með að hafa vinnuaðstöðu í VMA.

Menningarhátíðin ber nafnið Nordic light 2014  og er umfangsmesta menningarhátið fyrir ungmenni sem haldin hefur verið á Norðurlöndum og langstærsta menningarverkefni fyrir ungt fólk sem Norræni Menningarsjóðurinn og þar með Norræna ráðherranefndin hafa staðið að. Hátíðin verður "The Nordic Cultural Event of the Year" fyrir 2014.

Nordic light 2014 er "traveling festival" sem hefst  20. júlí 2014 og lýkur 4. ágúst 2014. 75 ungmenni á aldrinum 14 - 17 frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Álandseyjum, Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi verða valin úr rafrænum umsóknum á vef hátíðarinnar og skipt í 5 listhópa, leiklist, dans, sirkus, myndlist og tónlist. Hver hópur ferðast svo með sínum aðallistamanni og svo sínum fararstjóra og þann 20. júlí 2014 hefst hátíðin með vinnustofum í fimm löndum.  Í hverri vinnustofu eru einnig 2-3 þarlendir listamenn sem vinna með hópnum og á hverjum stað er 15 ungum skapandi heimamönnum boðið að taka þátt í þeirri vinnustofu. Allir listamennirnir eru "alvöru", starfandi og vel þekktir einstaklingar frá Norðurlöndunum.  

Sem fyrr segir verða 15 þátttakendur í hverjum hópi og í það heila verða þeir því samtals 75. Síðan verður öðrum 15 áhugasömum einstaklingum á viðkomandi svæði boðið að taka þátt í því starfi sem fram fer í viðkomandi smiðju. Þannig verður 15 áhugasömum ungmennum boðið að taka þátt í sjónlistaverkefninu á Akureyri, en þau fara hins vegar ekki áfram til Álandseyja, Eistlands og Finnlands.   

Frá Akureyri fer sjónlistahópurinn, þ.e. einstaklingarnir fimmtán sem koma allsstaðar að af Norðurlöndum, til Mariehamn á Álandseyjum og þaðan til Pärnu í Eistlandi áður og loks fer hópurinn á lokaáfangastaðinn í Joensuu í Finnlandi þann 29. júlí 2014, þar sem allar listgreinarnar sameinast á lokahátíðinni.

Danshópurinn byrjar í 3ja daga þjóðdansavinnustofu í Þórshöfn í Færeyjum og heldur svo til Kaupmannahafnar þar sem hópurinn tekur þátt í 2ja daga Street-Dance vinnustofu. Þaðan liggur leiðin til Bergen í Noregi í 2ja daga vinnustofu í nútímadansi. Að henni lokinni fer danshópurinn til Joensuu í Finlandi.

Tónlistarhópurinn fer fyrst í vinnustofu til Ilulissat á vesturströnd Grænlands. Þar verður unnið með grænlenskum tónlistamönnum út frá Inúita-trommunni. Þá kemur tónlistarhópurinn til Reykjavíkur í 2ja daga raftónlistar-vinnustofu með íslenskum tónlistarmönnum. Því næst er farið til Utsjoka nyrst finnska Lapplandi í 2ja daga vinnustofa með samískum joik tónlistarmönnum. Svo fer tónlistarhópurinn til Joensuu.

Sirkushópurinn byrjar í 3ja daga vinnustofu hjá Circus Arcus í Hvidovre í Danmörku. Þaðan er farið í 2ja daga vinnustofu hjá Circus Circör í Botkyrka í Svíþjóð og loks í síðustu 2ja daga vinnustofuna hjá Helsinki Sirkusnum. Eftir það liggur leiðin til Joensuu.

Leiklistarhópurinn, sem er undir stjórn Maríu Ellingsen, leikkonu og leikstjóra, er með sína fyrstu vinnustofu í Longyearbyen á Svalbarða í 3 daga. Hópurinn fer svo til Tromsö í Noregi í 2ja daga vinnustofu í samstarfi við Kulta ungmennaleikhúsið og loks liggur leiðin til Pajala í Svíþjóð þar sem 2ja daga vinnustofa verður haldin í samstarfi við Tornedalsteatret. Frá Pajala fer leiklistarhópurinn til Joensuu.

Sjónlistahópurinn er með sína fyrstu vinnustofu á Akureyri og nágrenni. Hún verður í 3 daga en þvínæst ferðast hópurinn til Mariahamn á Álandseyjum í 2ja daga vinnustofu. Frá Álandseyjum tekur sjónlistahópurinn litla lykkju út fyrir Norðurlöndin og fer í 2ja daga vinnustofu í Parnö í Eistlandi. Þaðan liggur leið hópsins til Joensuu.

Sem fyrr segir hefur verið opnað fyrir rafrænar umsóknir um að taka þátt í þessu verkefni og er sótt um á heimasíðu verkefnisins. Umsóknarfrestur er til 20. nóvember nk.

Umsækjendur fylla út sérstakt umsóknareyðublað á vefnum og útbúa einnar mínútu myndband sem hlaðið er upp á vefinn skv. leiðbeiningum. Myndbandið er hverjum og einum frjálst að gera á þann þátt sem hann eða hún telur að styrki umsókn sína best og sýni hvers vegna hann eða hún ætti að veljast til þátttöku.

Umsóknin og myndbandið mega vera á því tungumáli sem best hentar af eftirfarandi: dönsku, sænsku, finnsku, íslensku, grænlensku, færeysku eða norsku, en einnig má umsóknin vera á ensku.

Umsækjendur þurfa að vera orðnir 14 ára þegar hátíðin hefst 20. júlí 2014 og mega ekki vera eldri en 17 ára þegar henni lýkur 4. ágúst 2014.

Umsækjendur þurfa að vera búsettir á einhverju Norðurlandanna; Íslandi, Noregi, Finlandi, Svíþjóð, Færeyjum, Grænlandi, Álandseyjum eða Danmörku.

Umsækjendur þurfa að tiltaka í hvaða listgreinahóp þeir vilja vera af þeim fimm sem eru í boði; dans, leiklist, tónlist, sirkus eða sjónlist. Reynsla eða nám í viðkomandi listgrein er kostur en alls ekki nauðsyn því tilgangur hátíðarinnar er að finna hæfileikarík ungmenni í viðkomandi listgreinum hvort sem þau hafa lagt stund á greinarnar eða ekki.

Norræna ljósið 2014 er þátttakendum að kostnaðarlausu. Þáttaka er fjármögnuð að stærstum hluta af Norræna menningarsjóðnum sem er helsti bakhjarl hátíðarinnar, en að auki koma ýmsar stofnanir og sjóðir að fjármögnun.

Bæjar- og borgaryfirvöld á stöðunum sem vinnustofur eru haldnar styðja einnig myndarlega við hátíðina með ýmsu móti og fjölmörg fyrirtæki á Norðurlöndunum styðja verkefnið.