Fara í efni

30 ára afmælisár VMA: Skólameistari fer yfir sviðið

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA.
Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA.
Skólastarf á vorönn hefst á ný í dag eftir jólaleyfi. Nemendur fengu stundaskrár sínar afhentar í gær og í dag er fyrsti kennsludagur samkvæmt stundaskrá. Árið 2014 er afmælisár VMA – árið 1984 tók skólinn til starfa í fyrstu álmunum á Eyrarlandsholti. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og skólinn eflst og dafnað. Við upphaf afmælisárs er hér farið yfir sviðið með Hjalta Jóni Sveinssyni, skólameistara VMA.

Skólastarf á vorönn hefst á ný í dag eftir jólaleyfi. Nemendur fengu stundaskrár sínar afhentar í gær og í dag er fyrsti kennsludagur samkvæmt stundaskrá. Árið 2014 er afmælisár VMA – árið 1984 tók skólinn til starfa í fyrstu álmunum á Eyrarlandsholti. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og skólinn eflst og dafnað. Við upphaf afmælisárs er hér farið yfir sviðið með Hjalta Jóni Sveinssyni, skólameistara VMA.

Stuðningur sem skiptir sköpum
Eins og komið hefur fram var tilkynnt milli jóla og nýárs að þrjú fyrirtæki, Samherji, Kælismiðjan Frost og Slippurinn, hafi ákveðið að taka höndum saman um að styrkja Verkmenntaskólann um 20 milljónir króna og verður fjármununum varið til kaupa á tækjum fyrir málmiðnaðar- og vélstjórnarbrautir skólans. Hjalti Jón segir að fjármunirnir verði að annars vegar nýttir til kaupa á díselvél fyrir velstjórnarbrautina og hins vegar til kaupa á svokallaðri CNC tölvustýrðri fræsivél fyrir málmiðnaðarbrautina.
„Við erum að ræða um alvöru díselvél sem nemendur og kennarar geta keyrt undir álagi og standa vonir til þess að Norðurorka  muni aðstoða okkur við að koma vélinni hér fyrir og tengja hana síðan við dreifikerfið, ef svo ber undir. Vélina verður hægt að nýta til ýmissa hluta í kennslunni og er óhætt að segja að tilkoma hennar verði mikið framfaraskref fyrir vélstjórnardeildina og það sama má segja um fræsivélina fyrir málmiðnaðarbrautina. Staðreyndin er sú að við erum og höfum verið að „keyra“ grunndeild málmiðnaðar á gömlum vélbúnaði að hluta, t.d. rennibekkjum og borvélum. Við þurfum að sjálfsögðu að vera tækjum búnir í takti við það sem gerist á vinnumarkaðnum og þessir höfðinglegu styrkir Samherja, Kælismiðjunnar Frosts og Slippsins gera okkur kleift að feta okkur í rétta átt í þeim efnum.
Til fjölmargra ára hefur nánast ekkert fjármagn fengist frá ríkinu til þess að endurnýja tækjabúnað og nú er svo komið að það er nákvæmlega ekkert fjármagn til skiptanna til endurnýjunar tækjabúnaðar. Í sumum verknámsdeildunum er því orðið mjög alvarlegt ástand hvað þetta varðar. Það á til dæmis við um málmiðnaðarbrautina og rafiðnaðardeildina. Það sem hefur hins vegar hjálpað okkur er hlýr hugur og góðvild fyrirtækja, heildverslana og birgja sem hafa látið okkur í té tæki. Þetta hefur skipt sköpum fyrir okkur.“

Erfiður rekstur á niðurskurðartímum
Hjalti Jón segir að í þeim miklu fjárhagslegu þrengingum sem framhaldsskólar landsins búa við um þessar mundir sé reksturinn afar erfiður. „En skólinn stendur þó fyrir sínu með óbreyttu námsframboði og ef eitthvað er hefur það verið aukið. Ég vonast til að okkur auðnist það áfram.  Skilaboðin sem við fáum úr ráðuneytinu er að leggja niður það nám sem stendur ekki undir sér og er dýrast í rekstri. Við höfum hins vegar verið almennt með góða aðsókn í það nám sem við bjóðum upp á. Ef hins vegar minnkar aðsókn í einhverjar námsbrautir, eins og við erum núna að sjá í bifvélavirkjuninni, þurfum við að draga saman seglin þar. Aðsóknin í það nám var mikil til að byrja með en úr henni hefur dregið, einhverra hluta vegna. Við verðum að sjá hverju fram vindur með bifvélavirkjunina, en það er mikilvægt að leggja ekki niður nám sem hefur verið í boði hér á svæðinu, það skiptir miklu máli fyrir atvinnulífið og að sjálfsögðu fyrir það unga fólk sem vill starfa í þessari grein í framtíðinni.“

VMA er og verður sveigjanlegur skóli
Hjalti Jón segir að stöðugt sé unnið að ýmsum þróunarverkefnum. Hann nefnir að nú sé t.d. horft til þess að gera skilin á milli grunn- og framhaldsskólans sveigjanleg og í því sambandi hafi VMA boðið grunnskólanemendum að fara á svokallaða matsönn, sem geri þeim kleift að flýta fyrir sér í náminu. Þetta segir Hjalti Jón að sé þannig útfært að á síðustu önn í grunnskóla geti nemendur jafnframt tekið áfanga í fjarnámi í VMA. „Þeir nemendur sem hingað hafa komið eftir að hafa farið í gegnum þessa matsönn hafa staðið sig ákaflega vel hjá okkur og það hefur verið gaman að fylgjast með þeim. Sumir þessara nemenda hafa með þessum hætti stytt nám sitt til stúdentspróf um eitt ár og einnig eru þess dæmi að þeir hafi  bætt við sig einingum og útskrifast af fleiri en einni braut – t.d. af bæði verklegri og bóklegri braut. Við höfum lagt á það áherslu að Verkmenntaskólinn sé sveigjanlegur skóli og hann verður það áfram hvað sem líður þeim hugmyndum að stytta nám til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú.  Miðað við núverandi gömlu námsskrána er töluvert um það að nemendur ljúki hér stúdentsprófi á þremur árum og enn fleiri ljúka því á þremur og hálfu ári.“

Sjónum beint að stærðfræði og stærðfræðikennslu
Eitt af þeim verkefnum sem Hjalti Jón nefnir að VMA vilji vinna að lúti að stærðfræði og stærðfræðikennslu. „Stærðfræðin hefur verið mörgum framhaldsskólanemendum erfið og við stefnum að því að boða stærðfræðikennara í grunnskólum til fundar með okkar stærðfræðikennurum til þess að bera saman bækur. Við viljum skoða ofan í kjölinn hvort og hverju þyrfti að breyta í stærðfræðikennslu til þess að vekja aukinn áhuga nemenda á stærðfræði. Án þess að slegið sé af kröfum þurfum við að velta vöngum yfir því hvernig við nálgumst nemendur betur með stærðfræðina.  Mögulega er þetta spurning um kennsluaðferðir, námsmat og fleira. Þarna þarf sem flest að vera til skoðunar. Ég vonast til þess að undir vor getum við staðið fyrir námsþingi um stærðfræði og stærðfræðikennslu þar sem m.a. sérfræðingum á þessu sviði og grunn- og framhaldsskólakennurum af svæðinu verði boðið að taka þátt. Hér er að mínu mati mjög þarft og áhugavert viðfangsefni að takast á við og í því felast mikil tækifæri að snúa þróuninni við, það þarf að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að auka áhuga og ánægju ungs fólks að læra stærðfræði, sem er og verður eitt af mikilvægustu grunnfögunum í öllu námi.“

30 ára afmæli VMA í ár
Verkmenntaskólinn fagnar þrjátíu ára afmæli í ár. Hjalti Jón segir að ekki sé ætlunin að blása í herlúðra á þessum tímamótum. „En við munum vissulega minnast afmælisins á ýmsan hátt, bæði í vor og svo aftur næsta haust.  Undir lok vorannarinnar, væntanlega í apríl, höfum við rætt um að vera með stóra sýningu á verkefnum nemenda þar sem bæði nemendur og starfsmenn taki þátt. Við væntum þess að af þessu tilefni, sem verður kynnt betur síðar, komi fólk í skólann og kynni sér það fjölþætta starf sem hér fer fram.  Það má kannski segja að almennt sé fólk heldur feimið við að sækja okkur heim og kynna sér hvað hér fer fram en staðreyndin er sú að þeir sem það gera verða gjarnan undrandi á því fjölbreytilega starfi sem hér er unnið.
Þegar horft er yfir þessi þrjátíu ár kemur í ljós að nokkuð stór hópur starfsmanna hefur verið hér frá upphafi. Starfsmannavelta hefur því verið mjög lítil. En engu að síður eru hér, eins og vera ber, fjölmargir kennarar af yngri kynslóðinni.
Á afmælisári er full ástæða til þess að velta upp þeirri spurningu hvort og á hvaða hátt skólinn hafi verið þessu samfélagi til gagns. Í mínum huga hefur hann verið svokölluðu nærsamfélagi mikill styrkur og á sama hátt er það skólanum mikilvægt.  Við höfum leitast við að efla tengsl okkar við atvinnulífið og það hefur að mínu mati gengið mjög vel. Á hverju ári útskrifum við á bilinu 250-300 nemendur og það er því orðinn stór hópur nemenda sem ég hef tekið í hendina á í þau fimmtán ár sem ég hef starfað hér. Bæði erum við að mennta nemendur til áframhaldandi náms og einnig eru nemendur að sækja sér nám til okkar til þess að geta starfað að því loknu í sinni heimabyggð. Það er afskaplega ánægjulegt hversu vel nemendur okkar skila sér út í atvinnulífið hér á svæðinu. Og það er einnig ánægjulegt hversu margir nemendur úr VMA hefja nám í Háskólanum á Akureyri. Ég hygg að þeir séu tæplega 20% nemenda við HA sem er hæsta hlutfall nemenda úr einum framhaldsskóla.“

Upplýsingatækni áhugavert svið
Skólar leitast við að fylgja þróun samfélagsins og atvinnulífsins á hverjum tíma og þar er VMA engin undantekning. Hjalti Jón sér fyrir sér að skólinn muni í framtíðinni bjóða upp á nám í upplýsingatækni. Liður í því er krefjandi áfangi í forritun sem er í boði núna á vorönn, í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið Stefnu á Akureyri.  „Það bráðvantar fólk á þessu sviði og bæði Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hafa verið að kalla eftir nemendum með grunn í upplýsingatækni. Við höfum einnig áhuga á því að bjóða upp á margmiðlun og grafíska hönnun í tengslum við listnámsbrautina. Núna á vorönn bjóðum við upp á áfanga í iðnhönnun sem Helga Jósefsdóttir iðnhönnuður sér um. Þetta er virkilega spennandi og gaman að geta aukið breiddina í hönnun og skapandi greinum hér í skólanum.“

Gryfjan fær andlitslyftingu á árinu
Innan skólans er starfshópur sem hefur það hlutverk að meta húsnæðisþörf hans til framtíðar. „Skólinn hefur yfir stórri lóð að ráða og nú er unnið að því að deiliskipuleggja hana.  Við getum séð fyrir okkur í framtíðinni fjölnota verknámshús hér á suðurlóðinni og sömuleiðis sjáum við þar fyrir okkur íþróttahús. Það er afleitt að svo stór skóli sé ekki með eigið íþróttahús.
Nú er unnið að hönnun á endurbótum á Gryfjunni og er stefnt að því að ráðast í framkvæmdir næsta sumar. Í þessu verkefni höfum við fengið Fasteignir ríkisins og menntamálaráðueytið til liðs við okkur og við höfum falið Fanneyju Hauksdóttur arkitekt að koma með tillögur að nýju skipulagi og útliti Gryfjunnar. Það er ekki ætlunin að fara út í meiriháttar niðurrif heldur mun Gryfjan fá glæsilega andlitslyftingu og jafnframt verður skipt um húsgögn.  Gryfjan hefur verið að mestu óbreytt í þrjátíu ár og það er orðið tímabært að hressa upp á þetta miðrými skólans. Með þessu viljum við hlúa betur að nemendum og okkar langar þannig að bæta skólabraginn, styrkja félagslífið í skólanum og bæta almennt líðan nemenda utan kennslustunda. Það er ákaflega mikilvægt.“