Fara í efni

Vélstjórnarnemar í fræðsluferð

Vélstjórnarnemar og kennarar á Þeistareykjum.
Vélstjórnarnemar og kennarar á Þeistareykjum.

Sextán nemendur á síðasta ári í vélstjórn fóru á dögunum í vísindaferð í Suður-Þingeyjarsýslu og kynntu sér áhugaverða atvinnusköpun þar. Með þeim voru kennararnir Vilhjálmur G. Kristjánsson, Ingimar Árnason og Jóhann Björgvinsson. Ferðin heppnaðist í alla staði mjög vel.

Slíkar heimsóknir hafa verið fastur liður í lok náms vélstjórnarnema, t.d. hefur verið farið austur á land og Kárahnjúkavirkjun skoðuð sem og fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Einnig hefur í nokkur skipti verið farið suður yfir heiðar og atvinnufyrirtæki þar skoðuð. En nú lá leiðin á Þeistareyki, til Húsavíkur, á Tjörnes og í Út-Kinn.

Á Þeistareykjum tók Landsvirkjun á móti hópnum og bauð honum til málsverðar. Nemendur og kennarar fengu kynningu á Þeistareykjastöð  sem unnið hefur verið að því að reisa á undanförnum árum. Fyrri vél virkjunarinnar var gangsett í nóvember á síðasta ári og sú síðari á síðustu vikum. Samtals nemur afl virkjunarinnar 90 megavöttum. Þeistareykjavirkjun er mikið mannvirki og áhugavert að kynnast því hvernig staðið var að framkvæmdum við virkjunina og orkuframleiðslu þar.

Frá Þeistareykjum fór hópurinn út á Bakka þar sem forsvarsmenn PCC BakkaSilicon kynntu fyrir honum starfsemi kísilvers fyrirtækisins sem þessa dagana er unnið að því að gangsetja. Um er að ræða orkufrekan iðnað sem fær rafmagnið frá Þeistareykjum.

Síðan lá leiðin út á Tjörnes til þess að skoða Köldukvíslarvirkjun í landi Eyvíkur og Kvíslarhóls, sem er í eigu fyrirtækisins Íslandsvirkjunar ehf,  en framkvæmdir við virkjunina, sem er 2.65 megavött að stærð, hófust í maí 2012 og var hún gangsett rösku ári síðar. Inntakslón virkjunnar er 1,8 hektarar og stíflan 200 metra breið.

Á heimleiðinni kom hópurinn við á bænum Þóroddsstöðum í Út-Kinn, sem Ingimar Árnason kennari hefur tenginu við, og skoðaði m.a. gömul landbúnaðartæki sem hefur verið komið fyrir í útihúsunum á bænum.