Fara í efni

Vélstjórnarnemar á ferðalagi

Sölumaður Naust marine sýnir hópnum togvinduhermi
Sölumaður Naust marine sýnir hópnum togvinduhermi
Vélstjórnarnemar í áfanganum RAF 554 voru nýlega á ferðalagi um suðvesturhorn Íslands. Markmið ferðarinnar var að sækja heim nokkur af framsæknustu fyrirtækjum landsins í tæknigeiranum sem og aðila sem á einhvern hátt hafa nokkura sérstöðu á landsvísu.Vélstjórnarnemar í áfanganum RAF 554 voru nýlega á ferðalagi um suðvesturhorn Íslands. Markmið ferðarinnar var að sækja heim nokkur af framsæknustu fyrirtækjum landsins í tæknigeiranum sem og aðila sem á einhvern hátt hafa nokkura sérstöðu á landsvísu.

Lagt var af stað frá VMA um fimmleytið á miðvikudagsmorgun og ekið sem leið lá suður yfir heiðar. Fyrsti áfangastaður var Marel í Garðabæ, þar var hópurinn fræddur um það hvernig fyrirtækið hefur þróast frá því stofnað úr því að vera lítið fyrirtæki sem hannaði og framleiddi rafeindavog yfir í það að vera leiðandi á heimsmarkaði í framleiðslu vinnslulína í matvælaiðnaði. Því næst var gengið um fyrirtækið og starfsemin skoðuð.

Eftir hádegi var ferðinni heitið suður að Svartsengi, þar tók á móti okkur kynningarstjóri HS Orku. Hann kynnti fyrir hópnum hvernig starfsemin þarna er hugsuð, hvernig þeir nota hugtakið auðlindagarður og hvernig það er yfirfært á háhitasvæðið á Suðurnesjum. Á meðan að hópurinn fór um svæðið lýsti hann einnig uppbyggingu virkjana á svæðinu og hver sérstaða þeirra væri.

Síðasti viðkomustaður dagsins var Naust marine. Þar var haldin kynning á rafmagnsbúnaði til togveiða og hvert stefnan væri tekin þróun þeirrar tækni. Því næst kynntu þeir vörulínu sína af rafmagnsmælum og notkun hitamyndavéla við bilanaleit, greiningu og hvernig mætti nýta þær við fyrirbyggjandi viðhald. Eftir þetta var stefnan tekin austur fyrir fjall þar sem hópurinn gisti í Ölfusborgum, orlofshúsabyggð í útjaðri Hveragerðis. Þar var gist í húsum sem eru í eigu VM.

Á fimmtudagsmorgni sat hópurinn kynningu í höfuðstöðvum Landsnets. Þar var farið yfir það hvernig uppbyggingu er háttað á rafmagnsdreifikerfi landsins, hvernig þeir þyrftu til dæmis að aðlaga sig að það koma stórir orkufrekir notendur til sögunnar. Síðan sýndi hann hópnum vaktherbergið þar sem fylgst er með dreifikerfinu dag og nótt.
Næst heimsótti hópurinn Véltækniskólann, þar fór fyrir hópnum Egill skólastjóri Véltækniskólans og  leiddi hann um byggingar skólans og sýndi hópnum þá aðstöðu sem er í boði til vélstjórnarnáms í Reykjavík. Þar var gaman að koma  og sjá til samanburðar hvernig hlutirnir eru gerðir annars staðar.


Eftir hádegismatinn bauð Klettur upp á kynningu. Fyrst var gengið um verkstæðisgólfið og dagleg starfsemi og verklag skoðað. Því næst var mjög ítarlegur fyrirlestur um vörur og þjónustu hjá fyrirtækinu. Farið var yfir: Þau vörumerki sem þeir eru umboðsaðilar fyrir, alls kyns tækniútfærslur á þeim búnaði, ýmis atriði sem þarf að varast við vinnu og loks metnað fyrirtækisins til þess að hafa starfsmenn vel menntaða og í stöðugri þjálfun. 
 
Aðalsteinn hjá Kletti

Um kvöldið sótti hópurinn léttan kvöldverð hjá VM, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Á meðan hópurinn sat að snæðingi hélt Guðmundur Ragnarsson formaður VM kynningu á starfsemi félagsins, hvað hefði áunnist, hver staða þess væri og hvert stefnan væri tekin í náinni framtíð. Þetta var síðasta heimsókn dagsins.


Undir sjávarmáli í Hörpu
Fyrsti viðkomustaður á föstudegi var Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús. Þar hópurinn leiddur um húsið og honum sýnt hvaða möguleikar eru nú fyrir hendi við ýmis konar viðburðahald.

Næst var nýjasta viðbótin í íslenska flotanum skoðuð, Varðskipið Þór. Skipið, sem hafði þá ekki náð sólarhring í Reykjavíkurhöfn, er allt hið glæsilegasta og mun um langa tíð bera af hvar sem það siglir um Íslandsmið. Þetta er gríðarlega öflugt björgunarskip og er löngu tímabær viðbót í öryggismálum íslenskra sjómanna. Þarna fékk hópurinn the grand tour  í fylgd 1. vélstjóra um vélarrúmið og þar var skoðaður flókinn og fullkominn búnaður skipsins.

Einar Hansen 1. vélstjóri á Þór sýndi hópnum vélarrúmið
 
Síðasti áfangi ferðarinnar var skoðunarferð um framleiðslusalinn hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri. Þar gaf að líta mikið magn af forritanlegum málmvinnsluvélum af fullkomnustu gerð. Þar var hópnum sýnt hvernig óunnið efni varð skref fyrir skref að t.d. gervihné. Einnig var farið yfir nokkrar útfærslur af stoðtækjum sem þarna eru í framleiðslu.

Þarna var lokið skipulagðri dagskrá ferðarinnar og stefnan tekin heim á leið.