Fara í efni

Vel heppnuð námsferð til Malaga

VMA-nemar og kennarar (til vinstri á myndinni) ásamt nemendum og kennurum í hársnyrtiðn í Malaga.
VMA-nemar og kennarar (til vinstri á myndinni) ásamt nemendum og kennurum í hársnyrtiðn í Malaga.

Á dögunum, nánar tiltekið frá 24. október til 6. nóvember sl., voru ellefu nemendur á fimmtu önn í hársnyrtiiðn ásamt kennurunum Hörpu Birgisdóttur og Hildi Salínu Ævarsdóttur í námsferð í Malaga á Spáni. Ferðin var styrkt af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB í mennta-, æskulýðs- og íþróttamálum.

Þetta er í fimmta skiptið sem nemendur í hársnyrtiiðn í VMA fara í námsferð til Malaga en í fyrri fjórum ferðunum hefur alltaf verið farið á sjöttu og síðustu námsönn en nú var farið á næstsíðustu önninni í náminu, brautskráning er í sjónmáli vorið 2026.

Þær Harpa og Hildur Salína sögðu ferðina hafa í alla staðið gengið mjög vel og nemendur staðið sig frábærlega. Það skipti miklu máli að góð reynsla sé komin á þessar ferðir og persónuleg tengsl og aukið traust hafi skapast í gegnum tíðina við samstarfsfólkið í Malaga. Auk þess hafi þær farið fyrr á þessu ári til Malaga í svokallaða skuggakennsluferð, bæði í þeim tilgangi að bæta í sinn eigin þekkingarsarp og einnig til að undirbúa þessa nýafstöðnu nemendaferð.

Í ferðinni til Malaga var m.a. farið í Grupo Nebro, sem er akademía í hársnyrtiiðn og hefur á sínum snærum skólastöðvar, hársnyrtistofur og ýmis önnur fyrirtæki í skyldri þjónustu á Spáni. Einnig var heimsóttur IES El Palo, ríkisrekinn verkmenntaskóli sem kennir m.a. hársnyrtiiðn. VMA-nemar unnu sjálfstætt og einnig með nemendum í framangreindum skólum og þannig sköpuðust skemmtileg tengsl á milli íslensku og spænsku nemendanna.

Hér eru hlekkir á fyrri námsferðir nemenda í hársnyrtiiðn í VMA til Malaga:

Námsferð 2020
Námsferð 2022
Námsferð 2023
Námsferð 2024